Flýr Vínarborg af ótta um líf sitt

Rússland | 9. febrúar 2023

Flýr Vínarborg af ótta um líf sitt

Búlgarski blaðamaðurinn Christo Grozev, sem leitt hef­ur rann­sókn­ir miðils­ins Bell­ingcat í mál­efn­um Rúss­lands og varpað ljósi á ýmis ódæðis­verk rússnesku ríkisstjórnarinnar, hefur flúið Vínarborg af ótta við útsendara frá Kreml.

Flýr Vínarborg af ótta um líf sitt

Rússland | 9. febrúar 2023

Grozev hefur fengið ábendingar innan úr leyniþjónustum um að honum …
Grozev hefur fengið ábendingar innan úr leyniþjónustum um að honum sé ekki lengur óhætt í Vín. AFP

Búlgarski blaðamaðurinn Christo Grozev, sem leitt hef­ur rann­sókn­ir miðils­ins Bell­ingcat í mál­efn­um Rúss­lands og varpað ljósi á ýmis ódæðis­verk rússnesku ríkisstjórnarinnar, hefur flúið Vínarborg af ótta við útsendara frá Kreml.

Búlgarski blaðamaðurinn Christo Grozev, sem leitt hef­ur rann­sókn­ir miðils­ins Bell­ingcat í mál­efn­um Rúss­lands og varpað ljósi á ýmis ódæðis­verk rússnesku ríkisstjórnarinnar, hefur flúið Vínarborg af ótta við útsendara frá Kreml.

Frá þessu er greint í tölublaði austurríska tímaritsins Falter, þar sem rætt er við rannsóknarblaðamanninn.

„Mig grunar að það séu fleiri rússneskir útsendarar, njósnarar og handlangarar í borginni en lögregluþjónar,“ segir hann, með vott af kaldhæðni, í samtali við tímaritið.

Grozev hefur búið í Vín í næstum tuttugu ár, en heimildarmenn með tengingar við austurrísku leyniþjónustuna hafa nú varað hann við því að hans sé leitað í borginni.

Þar séu á ferð menn sem vilji ráða hann af dögum.

Þessi sögufræga evrópska borg, með sínar tvær milljónir íbúa, er því orðin svo hættuleg blaðamanninum að hann mun ekki hætta sér þangað að sinni.

Gömul saga og ný

Vínarborg hefur lengi verið alræmt fylgsni flugumanna, en einna helst eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Á þeim tímamótum höfðu helstu ríki bandamanna tekið hersetu í landinu.

Var yfirráðum Austurríkis þannig skipt á milli Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Sovétríkjanna.

Sjálfri höfuðborginni var enn fremur skipt í fjóra hluta. Innsti og elsti hluti hennar, Innere Stadt, var auk þess útnefndur sem svokallað alþjóðlegt svæði. Laut hann stjórn hvers ríkis í mánuð í senn.

Vín var skipt í fjóra hluta. Grænt var yfirráðasvæði Breta, …
Vín var skipt í fjóra hluta. Grænt var yfirráðasvæði Breta, blátt Bandaríkjamanna, gult Frakka og rautt Sovétríkjanna, sem einnig umluktu borgina. Kort/Christoph Lingg

Rétt eins og Berlín var borgin síðan umkringd yfirráðasvæði Sovétríkjanna, enda í austurhluta landsins.

Hersetunni lauk árið 1955, með sjálfstæði Austurríkis. Þá var kalda stríðið þegar í algleymingi og hafði sannarlega sett svip sinn á borgina.

Gagnsýrt og grómtekið

Að því er til dæmis vikið í umfjöllun dagblaðsins Vísis, árið 1958, sem varðar réttarhöld í njósnamáli í Vín:

„Þau tíu ár, sem Austurríki var hersetið af Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Sovétríkjunum, var landið þekkt sem versta njósnarabæli heimsins. Líf þjóðarinnar var gagnsýrt og grómtekið vegna óaldaraðgerða og spillingarstarfsemi hálfrar tylftar njósnarahringa. Hún gat ekkert við gert, þótt morðingjar og mannræningjar léku lausum hala í „kalda stríðinu“ í landi hennar.“

Njósnurum í borginni átti síst eftir að fækka, þó nú væri landið sjálfstætt. Sovétmenn hörfuðu enda ekki langt og járntjaldið gein enn við Vín, á landamærunum við leppríkin Tékkóslóvakíu og Ungverjaland. 

Ekki svo ósvipað því þegar innreið Ottómana í álfuna stöðvaðist eftir að þeir biðu ósigur við borgarmörkin árið 1683. Enn finnast beinagrindur kameldýra í austurrískum kjöllurum frá því misheppnaða umsátri.

Frá Schönbrunn-hallargarðinum í Vínarborg.
Frá Schönbrunn-hallargarðinum í Vínarborg. AFP

Gátu lagt á ráðin um alls kyns hluti

En aftur að kalda stríðinu. Með sjálfstæði Austurríkis varð höfuðborgin sem fyrr eins konar útvörður Vestur-Evrópu, þótt stjórnvöld landsins hefðu vissulega svarið þann eið að gæta hlutleysis svo að Kreml gæti fengist til að sleppa takinu.

Í kjölfarið flutti þangað fjöldinn allur af alþjóðastofnunum, sem aftur gaf sendiráðum ástæðu til að fjölga í starfsliði sínu og stækka þannig skálkaskjól útsendara af ýmsum toga.

Staðsetning Vínar þótti nefnilega kjörin fyrir vestræn ríki til að hlera það sem fram fór handan járntjaldsins og einnig í Júgóslavíu til suðurs.

„Með því að vera í Vín í kalda stríðinu gátu leyniþjónustur lagt á ráðin um alls kyns hluti í Júgóslavíu, Ungverjalandi, Tékkóslóvakíu og jafnvel í Póllandi,“ sagði sagnfræðingurinn Siegfried Beer í samtali við breska ríkisútvarpið árið 2018, en hann kom á fót í Austurríki sérstakri stofnun í leyniþjónustu-, áróðurs- og öryggisfræðum.

„Austurríska ríkisstjórnin var áfjáð í að halda hlutleysi sínu. Svo að hún skapaði andrúmsloft þar sem allir höfðu það nokkuð notalegt og gátu hagnast hver af öðrum. Þetta voru viðskipti,“ sagði Beer og hélt áfram:

„Njósnir voru viðskipti. Þær eru það enn. Þær laða til sín fjölda fólks með mikið fé og mikinn stuðning inn í landið.“

Snæviþakið minnismerki um austurrísku keisaraynjuna Maríu-Teresu, á torgi Vínar sem …
Snæviþakið minnismerki um austurrísku keisaraynjuna Maríu-Teresu, á torgi Vínar sem einnig heitir eftir henni. AFP

Borg skugganna

Járntjaldið féll en njósnararnir urðu eftir. Alþjóðastofnunum hefur heldur ekki farið fækkandi. Breska dagblaðið Telegraph greindi frá því árið 2014 að talið væri að fleiri en sjö þúsund njósnarar væru að störfum í austurrísku höfuðborginni.

Vísaði blaðið til könnunar sem sérfræðingar á sviði njósna hefðu gert í borginni og ræddi við Emil Bobi, höfund bókarinnar Die Schattenstadt, Skuggaborgarinnar, þar sem reifuð er saga njósna í Vín. Teygir hún sig allt aftur til þess tíma er borgin var höfuðdjásn austurrísk-ungverska keisaradæmisins.

Bent er á að lög landsins um málaflokkinn hafi aldrei verið uppfærð frá því keisaradæmið féll. Af því leiðir að einu njósnirnar sem eru ólöglegar í Austurríki eru þær sem beinast beint að eigin ríkisleyndarmálum.

„Hægt er að tengja annan hvern stjórnarerindreka í Vín við leyniþjónustu í landi viðkomandi,“ er haft eftir höfundinum. „Öll sendiráð eru útbólgin af starfsliði.“

Eins og í reyfara

Enn og aftur var ljósi kastað á þetta hlutverk borgarinnar í júlí árið 2010, þegar Bandaríkin og Rússland kusu að þar færu fram stærstu njósnaraskipti frá lokum kalda stríðsins. Baldur Arnarson, blaðamaður Morgunblaðsins, sagði svo frá:

„Atvikið á alþjóðaflugvellinum í Vínarborg var eins og í reyfara. Tvær þotur lentu með stuttu millibili en lögðu ekki við einhvern landganginn heldur biðu.

Tíu rússneskir njósnarar héldu kyrru fyrir í annarri þotunni þar til þeir fengu grænt ljós á að ganga til hinnar.

Það sama gerðu fjórir njósnarar Bandaríkjanna. Einni og hálfri klukkustund síðar voru flugvélarnar á bak og brott. Það var eins og að þær hefðu aldrei komið til landsins.“

Frá degi njósnaraskiptanna á flugvellinum við Vínarborg, þann 9. júlí …
Frá degi njósnaraskiptanna á flugvellinum við Vínarborg, þann 9. júlí 2010. AFP

Heimtuðu að hann yrði með

Einn þeirra sem gengu yfir flugbrautina þennan sumardag fyrir 13 árum var Rússi að nafni Sergei Skrípal. 

Hann hafði verið ofursti í leyniþjónustu rússneska hersins (GRU) en á sama tíma verið á mála hjá bresku leyniþjónustunni MI6 frá árinu 1995. Til Lundúna sendi hann upplýsingar um útsendara rússnesku leyniþjónustunnar í Evrópu.

Þegar upp komst um gagnnjósnir Skrípal árið 2004 var hann handtekinn og í kjölfarið dæmdur í 13 ára fangelsi árið 2006.

Þegar þarna var komið sögu, í júlí 2010, hafði forsetinn Dmítrí Medvedev náðað Skrípal. Og nú, sex árum eftir handtöku sína, fékk hann frelsi í faðmi Bretanna sem hann áður hafði aðstoðað. 

Raunar hafði breska ríkisstjórnin heimtað að hann yrði hafður með í njósnaraskiptunum, sem að mestu voru undirlögð njósnurum sem höfðu starfað í Bandaríkjunum annars vegar og á vegum Bandaríkjastjórnar hins vegar.

Eflaust hefði Skrípal helst viljað að nafn sitt kæmist aldrei aftur í kastljós fjölmiðla. Og í tæp átta ár náði hann að fara tiltölulega huldu höfði í Englandi. Keypti hann sér hús í Salisbury, fjörutíu þúsund manna borg i Wiltskíri, árið 2011, en hélt áfram störfum fyrir bresku leyniþjónustuna.

Síðan liðu sjö ár.

Fannst í mjög alvarlegu ástandi

Síðdegis sunnudaginn 4. mars árið 2018 gengu hjón í verslunarferð, í miðbæ Salisbury, fram á karl og konu þar sem þau lágu meðvitundarlaus á almenningsbekk.

Konan froðufelldi. „Augu hennar voru glennt upp en alhvít,“ sagði vitni í samtali við breska ríkisútvarpið síðar um kvöldið.

Er lögregla kom á vettvang var parið í mjög alvarlegu ástandi. Var það í skyndi flutt á svæðissjúkrahúsið í Salisbury, sem á sama tíma lýsti yfir „meiri háttar atviki“.

Sergei Skrípal, 66 ára, og dóttir hans Júlía, 33 ára, voru nær dauða en lífi.

Í ljós kom síðar að banvæna taugaeitrinu novítsjok hafði verið komið fyrir á hurðarhúni útidyra Sergeis, með þessum hryllilegu afleiðingum. Var þetta í fyrsta sinn sem taugaeitri hafði verið beitt í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Fljótt hófst mikil rannsókn í Bretlandi og beindust spjótin nær samstundis að Kremlinni, enda hafði novítsjok verið framleitt í Sovétríkjunum til notkunar í efnavopn, en aldrei verið notað í hernaði.

Ekki var þó ljóst hverjir hefðu nákvæmlega verið að verki.

Lögregla girti af svæðið umhverfis bekkinn þar sem feðginin fundust. …
Lögregla girti af svæðið umhverfis bekkinn þar sem feðginin fundust. Í bakgrunni má sjá gult og hvítt tjald sem sett var upp utan um bekkinn. AFP

Vöktu spurningar og grófu undan útskýringum Rússa

Víkur þá sögunni aftur að rannsóknarmiðli Grozevs, Bellingcat. Síðar sama ár opinberaði miðillinn rétt nöfn þeirra tveggja manna sem sakaðir höfðu verið um eitrunina. 

Í afhjúpun miðilsins sagði að annar mannanna héti réttu nafni Alexander Míshkín og væri læknir í þjónustu GRU. Hinn árásarmaðurinn héti Anatolí Tsjepíga. Var Vladimír Pútín Rússlandsforseti sömuleiðis sagður hafa sæmt báða mennina æðstu orðu landsins við leynilega athöfn í Kreml árið 2014.

Bellingcat kvaðst hafa fundið nöfn þeirra beggja með viðtölum við fólk sem væri þeim kunnugt, rannsóknum á vegabréfum þeirra, myndum af þeim auk annarra aðferða.

Niðurstöður Bellingcat vöktu samstundis spurningar um hversu auðvelt það hefði verið fyrir stjórnvöld að fletta ofan af meintum útsendurum GRU.

Um leið gróf afhjúpunin undan fullyrðingu rússneskra stjórnvalda, sem höfðu þá borið fyrir sig að mennirnir tveir hefðu aðeins verið ferðamenn og farið til Salisbury í því skyni að skoða kirkjuturn í bænum.

Svo fór að rann­sókn­arhópur undir stjórn Grozevs hlaut evr­ópsku rann­sókn­ar­blaðamanna­verðlaun­in fyr­ir rann­sókn sína á málinu.

Hvað feðginin varðar þá lifðu þau árásina af, en ekkert hefur þó verið gefið upp um líkleg varanleg áhrif á heilsufar þeirra. 

Ljóst má vera að Grozev vill forðast að hljóta álíka örlög.

Þetta er fólkið sem vill drepa okkur

Blaðamaður mbl.is átti fund með honum í Helsinki í október síðastliðnum. Spurður þá hvort hann óttaðist um líf sitt kvaðst hann vita að hann og blaðamenn Bellingcat væru á lista rússnesku leyniþjónustunnar FSB, yfir fólk sem ráða ætti af dögum.

„En þau standa frammi fyrir miklu stærri vandamálum sem ógna tilvist þeirra,“ sagði hann og benti á að í stjórnkerfinu í Moskvu væri fólk frekar upptekið af starfsöryggi sínu og framtíð.

„Ég held að Kreml og FSB séu að reyna að finna út úr því hvernig þau lifa af. Þau eru í raun að reyna að ráða fram úr því hvort þau skuli hlýða skipunum þessarar ríkisstjórnar, því kannski verður hún ekki lengur til staðar eftir ár, og hver mun þá verja þau.“

Tók hann þó fram að vissulega óskuðu Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Jevgení Prígosjín, náinn bandamaður hans og stjórnandi Wagner-hópsins, honum vafalaust þegjandi þörfina.

„Ég held því að einhverju leyti að við höfum mjög reiðan Pútín, við höfum mjög reiðan Prígosjín, og að við höfum einnig reitt fólk, á borð við um það bil þrjátíu fyrrverandi útsendara á vegum GRU, sem höfðu frábært starf þar sem þeir ferðuðust um heiminn fyrir pening ríkisins og eitruðu fyrir fólki, en geta nú ekki ferðast vegna okkar.

Ég held að þetta sé fólkið sem vill drepa okkur. En ef á heildina er litið þá er FSB ekki rekin áfram af hugmyndafræði. Þar er fólk líklega að hugsa hvað sé næst fyrir það sjálft og vill ekki taka neina áhættu.

Ég er því hræddari við brjálaða rússneska ættjarðarvini en sjálft FSB, að svo stöddu,“ sagði Grozev í október.

Við Dresdner-stræti í Vín. Grozev hefur búið í borginni í …
Við Dresdner-stræti í Vín. Grozev hefur búið í borginni í nær tuttugu ár. AFP

Absúrd og hryllilegt

Kremlverjar höfðu þó ekki gleymt blaðamanninum.

Annan dag jóla lýstu rússnesk stjórnvöld því yfir að þau hefðu hafið saka­mál­a­rann­sókn á hend­ur Grozev. Var hann um leið opinberlega settur á lista yfir þá sem mest er lýst eftir.

Að sögn fréttastofunnar RIA Novostí er hann sakaður um að hafa „dreift rang­færsl­um“ um rúss­neska her­inn, en slíkt var gert ólög­legt í Rússlandi eft­ir innrásina í Úkraínu fyrir tæpu ári.

Í heimalandinu Búlgaríu var rússneski sendiherrann kallaður til svara. Fullyrti hann að í þessu fælist líklega „einungis viðvörun“. 

„Við munum ekki leita hans um allan heim. Það er best fyrir hann að halda kyrru fyrir þar sem hann á heima,“ sagði sendiherrann að sögn Grozevs, sem sjálfur hefur þetta að segja:

„Þetta er absúrd og hryllilegt á sama tíma. Ég er talinn vera glæpamaður, en ég get ekki varið mig því ég veit ekki gegn hverju. Og, þeir vilja greinilega gefa til kynna að þeir viti nákvæmlega hvar ég bý.“

Þetta síðastnefnda, auk fleiri viðvarana innan úr leyniþjónustum, varð til þess að Grozev hætti við flug aftur heim til Vínarborgar frá Bandaríkjunum. Það gerði hann á síðustu stundu.

Eltir uppi eitrunarsveit Kremlar

Starfið heldur áfram samt sem áður.

Fram kemur í viðtali Falter að rannsóknarhópurinn leiti nú að rússneskum útsendurum í Evrópu og Bandaríkjunum. Þá er hann enn á spori eitrunarsveitar Kremlar. Eftir að eldri leyniþjónustumennirnir hurfu aftur til Moskvu hafa yngri komið í þeirra stað.

„Þeir eru betri og klárari,“ segir Grozev.

„Við höfum borið kennst á þá, en við vitum ekki enn undir hvaða dulefnum þeir ferðast. Sumir þeirra virðast einnig halda úti tengiliðum í Austurríki. Spurningin er hvort þau tengsl séu persónuleg eða fagleg. Og hvort þeir hafi mögulega hjálparhellur á staðnum.“

Og þess vegna lætur Grozev það vera að snúa aftur til Vínar. Að minnsta kosti að sinni.

mbl.is