Skortur á yfirsýn, upplýsingum og of mikið álag

Kórónuveiran Covid-19 | 10. febrúar 2023

Skortur á yfirsýn, upplýsingum og of mikið álag

Í fyrstu og annarri bylgju heimsfaraldurs covid-19 hafði starfsfólk sýkingavarnadeildar Landspítalans og smitsjúkdómalæknar alltof mikið umfang á sinni ábyrgð, skortur var á tímanlegum upplýsingum um lykilákvarðanir varðandi stjórnun viðbragðs til framlínustjórnenda, yfirsýn yfir mannafla hjúkrunar skorti og veikleikar voru í tengslum við fjarheilbrigðisþjónustu og nálgun á þróun rafrænna sjúkraskrár.

Skortur á yfirsýn, upplýsingum og of mikið álag

Kórónuveiran Covid-19 | 10. febrúar 2023

Landspítalinn

Í fyrstu og annarri bylgju heimsfaraldurs covid-19 hafði starfsfólk sýkingavarnadeildar Landspítalans og smitsjúkdómalæknar alltof mikið umfang á sinni ábyrgð, skortur var á tímanlegum upplýsingum um lykilákvarðanir varðandi stjórnun viðbragðs til framlínustjórnenda, yfirsýn yfir mannafla hjúkrunar skorti og veikleikar voru í tengslum við fjarheilbrigðisþjónustu og nálgun á þróun rafrænna sjúkraskrár.

Í fyrstu og annarri bylgju heimsfaraldurs covid-19 hafði starfsfólk sýkingavarnadeildar Landspítalans og smitsjúkdómalæknar alltof mikið umfang á sinni ábyrgð, skortur var á tímanlegum upplýsingum um lykilákvarðanir varðandi stjórnun viðbragðs til framlínustjórnenda, yfirsýn yfir mannafla hjúkrunar skorti og veikleikar voru í tengslum við fjarheilbrigðisþjónustu og nálgun á þróun rafrænna sjúkraskrár.

Þetta er meðal þess sem farsóttanefnd Landspítalans setur fram sem lærdóm af fyrstu tveimur bylgjum heimsfaraldursins í nýrri skýrslu sinni um faraldurinn, en um er að ræða fyrri hluta skýrslunnar.

Í skýrslunni segir að álag í fyrstu bylgju hafi reynt á alla þætti skipulags spítalans, en fullyrt er að vel hafi tekist til. Unnt hafi verið að sinna öllum sem á þurftu að halda og þeir sem þurftu á gjörgæslumeðferð hafi fengið hana. Er meðal annars vísað til þess að hægt hafi verið að losa fjölda biðsjúklinga af Landspítala inn á nýtt hjúkrunarheimili á Sléttuvegi sem var ný opnað. Símaeftirlit og fyrirkomulag með covid-deildina á Birkiborg hafi svo hjálpað til við áhættumat og snemmíhlutun og þannig fjölmörgum komum á bráðamóttöku forðað. Þá hafi samfélagslegar aðgerðir með sýnatöku, sóttkví, einangrun, smitrakningu og samkomutakmörkunum sett samfélagið í hægagang og fækkað alvarlegum veikindum.

Lærdómurinn er dreginn saman í níu punktum í skýrslunni.

Of mikið umfang hjá sýklavarnadeild

Í fyrsta lagi er starfsfólk sýklavarnadeildar og smitsjúkdómalækna sagt hafa haft alltof mikið umfang á sinni ábyrgð. „Yfirlæknir og deildarstjóri sýkingavarnadeildar og yfirlæknir smitsjúkdóma sitja öll í farsóttanefnd og leika stórt hlutverk í heildarstjórnun farsóttaviðbragðs. Ekki er nægilega skýrt hvernig annað starfsfólk stígur inn í þessa einingu þegar lykilstjórnendur eru uppteknir í öðru og ályktun hópsins var að styrkja þyrfti sýkingavarnadeild og skýra betur hlutverk og ábyrgðarsvið.“ Tekur farsóttanefnd undir þetta álit og segir að styrkja þurfi þjónustu deildarinnar.

Í öðru lagi er horft til þess að skortur hafi verið á tímanlegum upplýsingum um lykilákvarðanir varðandi stjórnun viðbragðsins til framlínustjórnenda. „Fram kom mjög ákveðin gagnrýni á skort á flæði upplýsinga um mikilvæg atriði og að stjórnendur sem leika lykilhlutverk hafi ekki verið nægilega upplýstir og jafnvel hliðsettir. Hlutir gerðust mjög hratt til að byrja með og upplýsingaflæðið fylgdi ekki nægilega vel eftir atburðarásinni.“ Segir farsóttanefndin að þetta hafi verið ein af áskorununum til að byrja með, en að þegar líða tók á faraldurinn hafi skipulagið tekið á sig mynd og farvegur upplýsinga orðið betri.

Þarf betri yfirsýn yfir hjúkrunarfræðinga

Skortur á yfirsýn yfir mannafla hjúkrunar er þriðja atriðið sem nefnt er. Nefnt er að verkefnið hafi í eðli sínu verið afar kvikt og ófyrirsjáanlegt. Þá hafi einnig verið ákveðinn óskýrleiki innan stofnunarinnar hver skuli almennt hafa yfirsýn yfir starfsfólki hjúkrunar, hvort það eigi að vera deildarstjórar, forstöðumenn, framkvæmdastjórar eða mannauðsdeild.

Veikleikar í fjarheilbrigðisþjónustu eru einnig nefndir. „Mörg kerfi, ósamræmi, skortur á regluverki og skortur á samræmdu verklagi innan stofnunar og milli stofnana. Skortur á öruggum fjarskiptamáta innan rafrænna sjúkraskrárkerfa og skortur á skilgreiningu gjaldaliða,“ segir um þann lið í skýrslunni.

Þá er tekið til að skortur hafi verið á heildrænni nálgun á þróun rafrænnar sjúkraskrár. Vísað er til þess að heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítala, hagdeild spítalans, gæðadeild og embætti landlæknis þurfi að huga að þessu máli.

Siðferðileg viðfangsefni sem þarf að ræða

Siðferðileg viðfangsefni komast einnig á blað hjá nefndinni. „Skortur á yfirsýn og ábyrgð á tilteknum atriðum sem lúta að siðfræðilegum viðfangsefnum og upplýstu samþykki. Ekki er til skýr farvegur fyrir öflun upplýsts samþykkis vegna skráðra lyfja sem notuð eru með nýjum ábendingum (off label). Þrátt fyrir að vel hafi verið staðið að gerð klínískra leiðbeininga um notkun lyfjanna þá voru ekki til staðar samþykktarferlar sem hefðu getað tekið á lagalegum og siðfræðilegum álitaefnum. Þá er ekki til skýr farvegur fyrir gjafir frá lyfjafyrirtækjum, gæðamat á þeim og ábyrgð á sokknum kostnaði.“

Farsóttanefnd beinir þá einnig sjónum sínum að áður útgefinni skýrslu um úrbætur í 26 liðum, en nefndin segir stærstu úrlausnarefnin þegar kemur að því að takast á við faraldur smitandi sjúkdóms lúta að húsnæði, mannafla og öflun aðfanga.

Námskeið í notkun hlífðarbúnaðar utan faraldurs

Í næst síðasta liðnum horfir farsóttanefnd til geðræns stuðnings við starfsfólk. Lögð er áhersla á að það hafi greiðan aðgang að slíkri þjónustu, enda hafi fólk verið óttaslegið í upphafi og þurft vettvang til að viðra þennan ótta og fá stuðning til að halda áfram.

Í loka liðnum er lagt til að reglulega verði haldin námskeið fyrir tilgreint starfsfólk um notkun hlífðarbúnaðar og aðrar sóttvarnir. Slík námskeið þurfi að rúlla reglubundið utan faraldurstíma þannig að starfsfólk kunni vel á þetta og geti miðlað þekkingu sinni áfram.

mbl.is