Fór á mótorhjólinu til Spánar

Spánn | 11. febrúar 2023

Fór á mótorhjólinu til Spánar

Ásgeir Eiríksson lét gamlan draum rætast í fyrra og fór á mótorhjóli frá Íslandi til Spánar. Hann segir að ferðalagið hafi verið ágæt leið til þess að trappa sig niður eftir erilsamt starf en hann kvaddi bæjarstjórastarfið í fyrra.

Fór á mótorhjólinu til Spánar

Spánn | 11. febrúar 2023

Ásgeir Eiríksson í upphafi ferðarinnar til Spánar á mótorhjólinu.
Ásgeir Eiríksson í upphafi ferðarinnar til Spánar á mótorhjólinu.

Ásgeir Eiríksson lét gamlan draum rætast í fyrra og fór á mótorhjóli frá Íslandi til Spánar. Hann segir að ferðalagið hafi verið ágæt leið til þess að trappa sig niður eftir erilsamt starf en hann kvaddi bæjarstjórastarfið í fyrra.

Ásgeir Eiríksson lét gamlan draum rætast í fyrra og fór á mótorhjóli frá Íslandi til Spánar. Hann segir að ferðalagið hafi verið ágæt leið til þess að trappa sig niður eftir erilsamt starf en hann kvaddi bæjarstjórastarfið í fyrra.

Ásgeir var bæjarstjóri í Vogum og kláraði formlega að vinna í lok sumars. „Ég var búinn að vera í þessu í tæp 11 ár, sem mér fannst fínn tími. Ég varð 67 ára á árinu og svo ræður maður sig í svona starf til fjögurra ára í senn. Þá hefði ég þurft að binda mig til 71 árs og ég var ekki til í það – ég vildi njóta þess að geta hætt,“ segir Ásgeir um starfslokin.

„Ég segi svona að allt hefur sinn tíma. Mér líkaði mjög vel í vinnunni og átti því láni að fagna að vera í fjölbreyttu og gefandi starfi. Það voru nýjar áskoranir og spennandi verkefni á hverjum degi þar. Ég tók þessa ákvörðun eftir að ég endurnýjaði samninginn minn 2018 að ég myndi ekki endurnýja hann 2022. Þá bara gírar maður sig inn á þetta,“ segir Ásgeir en viðurkennir þó að tilfinningarnar hafi verið blendnar þegar hann hætti.

„Það var heilmikil eftirsjá að hætta að vinna. Ég var í skemmtilegu starfi og það gekk vel. En á sama tíma var spennandi að öðlast þetta frelsi. Þess vegna segi ég það að þetta er blanda af hvoru tveggja. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta mjög góð tilfinning.“

Umhverfið á leiðinni var fallegt.
Umhverfið á leiðinni var fallegt. Ljósmynd/Aðsend

Lífið á Spáni er ljúft

Þó svo að Ásgeir sé hættur í fastri vinnu er hann ekki alveg hættur að vinna. „Ég er menntaður leiðsögumaður frá því fyrir 20 árum og hef gaman af því. Svo nú er ég aftur farinn að leiðsegja svona mér og vonandi öðrum til skemmtunar,“ segir Ásgeir sem skrapp í desember með ferðamenn í ferðir um Gullna hringinn og í norðurljósaferðir.

„Ég segi að það séu ákveðin forréttindi að upplifa landið sitt með augum gestanna. Ég er búinn að ferðast mikið í gegnum tíðina og er með þessa menntun. Þegar maður hefur þetta og alla reynsluna þá getur maður búið til eitthvað úr því,“ segir Ásgeir.

Ásgeir og eiginkona hans eiga litla íbúð á Spáni þar sem þau dvelja hluta úr ári. „Á haustin og vorin er gott sumarveður á okkar mælikvarða, ekki of heitt. Maður getur verið mikið úti og notið lífsins. Það er hægt að gera margt skemmtilegt þarna. Við reynum að ferðast pínulítið og njóta þess að vera í svona góðu loftslagi. Þessi íbúð er nálægt tveimur stöðuvötnum í grennd við Torrevieja. Þar er til dæmis heilnæmt loftslag sem fer vel í mann. Það er stutt að fara á ströndina og fullt af golfvöllum, voða notalegt líf og ódýrt að lifa.“

Ásgeir Eiríksson fór á mótorhjóli til Spánar.
Ásgeir Eiríksson fór á mótorhjóli til Spánar. Ljósmynd/Aðsend

Einn á mótorhjólinu

Síðasta sumar flutti Ásgeir mótorhjólið til Spánar. „Ég lét gamlan draum rætast þegar ég hætti og fór í mótorhjólaferðalag. Ég keypti mér mótorhjól fyrir tæpum tveimur árum og lét verða af því að fara á hjólinu alla leið til Spánar í sumar. Ég lagði land undir fót og ferðaðist einn á mótorhjólinu. Keyrði sex þúsund kílómetra á 19 dögum. Af þessum 19 dögum var ég um tvo sólarhringa í Norrænu milli Íslands og Danmerkur,“ segir Ásgeir og lýsir ferðinni sem skemmtilegri en á sama tíma krefjandi.

„Ég hefði getað farið stystu leið en ég ákvað að fara dálítið öðruvísi leið. Ég fór beint yfir til Svíþjóðar og keyrði stóran hring um Svíþjóð – vel á annað þúsund kílómetra. Við hjónin bjuggum og lærðum í Svíþjóð þegar við vorum ungt fólk og áttum þar góð ár. Ég fór í gamla heimabæinn minn, við eigum enn vini þar sem ég hitti og ég heimsótti fólk sem ég hafði kynnst á námsárum og í gegnum vinnu síðar meir,“ segir Ásgeir sem heimsótti einnig Borgundarhólm.

„Mig hafði alltaf langað á Borgundarhólm. Ég tók ferju þangað og hitti þar frænda minn sem hefur spilað þar sem trúbador á hverju sumri í 33 ár og það var óskaplega skemmtilegt að upplifa það að hitta hann.“

Ásgeir þræddi sveitavegina.
Ásgeir þræddi sveitavegina. Ljósmynd/Aðsend

Maður er einn með sjálfum sér

Eftir útúrdúrinn á Norðurlöndunum hélt Ásgeir til Þýskalands og Frakklands. „Ég hafði áhuga á því að fylgja bæði Mósel og Rín. Þræddi mig í gegnum þá dali. Ég stillti gps-tækið á hjólinu þannig að ég fór eiginlega aldrei á hraðbraut. Ég fór bara sveitavegina sem var alveg ótrúlega skemmtilegt og gefandi. Maður er einn með sjálfum sér og þarf að bjarga sér og hefur engan annan að stóla á. Þegar ég var búinn að fara í gegnum Þýskaland og Frakkland fór ég í Pýreneafjöllin og kom við í smáríkinu Andorra, sem er pínulítið land í mikilli hæð, og þaðan keyrði ég yfir til Spánar,“ segir Ásgeir.

Um hvað hugsar maður á hjólinu?

„Það er ekkert einfalt svar við því. Maður er svolítið í núinu. Maður nýtur augnabliksins. Þegar maður er einn fær maður kannski þá hugdettu að stoppa og þarf þá ekki að taka tillit til neins annars. Hamingjan felst kannski í því að setjast á bekk eða trjábol og anda að sér ilminum af enginu. Þetta er það sem ég upplifði.“

Þrátt fyrir að mótorhjólið, sólin og margir golfvellir séu á Spáni segir Ásgeir að hann væri ekki til í að flytjast alfarið til Spánar. Börnin og barnabörnin eru á Íslandi og hér vill hann eiga sitt athvarf.

Ásgeir var í núinu á leiðinni.
Ásgeir var í núinu á leiðinni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is