Lífið er stutt og viðkvæmt

Framakonur | 11. febrúar 2023

Lífið er stutt og viðkvæmt

Bjarney Harðardóttir lagði hart að sér til þess að komast á þann stað sem hún er á í dag. Eftir sonarmissi fór hún að hugsa hlutina öðruvísi. Í dag vildi hún óska þess að hún hefði sýnt sjálfri sér meiri mildi þegar hún var að klifra upp metorðastigann. Í einlægu viðtali talar hún um framann, heilsuna og það sem skiptir raunverulega máli í lífinu – fjölskylduna sjálfa.

Lífið er stutt og viðkvæmt

Framakonur | 11. febrúar 2023

Bjarney var með mikinn metnað og vildi ná langt. Hún …
Bjarney var með mikinn metnað og vildi ná langt. Hún segist stundum hafa verið aðeins of hörð við sjálfa sig. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarney Harðardóttir lagði hart að sér til þess að komast á þann stað sem hún er á í dag. Eftir sonarmissi fór hún að hugsa hlutina öðruvísi. Í dag vildi hún óska þess að hún hefði sýnt sjálfri sér meiri mildi þegar hún var að klifra upp metorðastigann. Í einlægu viðtali talar hún um framann, heilsuna og það sem skiptir raunverulega máli í lífinu – fjölskylduna sjálfa.

Bjarney Harðardóttir lagði hart að sér til þess að komast á þann stað sem hún er á í dag. Eftir sonarmissi fór hún að hugsa hlutina öðruvísi. Í dag vildi hún óska þess að hún hefði sýnt sjálfri sér meiri mildi þegar hún var að klifra upp metorðastigann. Í einlægu viðtali talar hún um framann, heilsuna og það sem skiptir raunverulega máli í lífinu – fjölskylduna sjálfa.

Bjarney er einn af eigendum 66°Norður en hún eignaðist hlut í fyrirtækinu 2011 þegar hún og eiginmaður hennar, Helgi Rúnar Óskarsson, festu kaup á því ásamt Stefni. Á þessum tímapunkti var Bjarney búin að vinna lengi við markaðsmál og langaði að gera eitthvað sjálf. Hún var stödd á tískuvikunni í Kaupmannahöfn þegar viðtalið fór fram. 66°Norður sýndi afurðir sem eru unnar í samstarfi við danska hönnunarmerkið Ganni. Í dag rekur fyrirtækið tvær verslanir í Kaupmannahöfn og í desember opnuðu þau stóra verslun á Regent Street í Lundúnum. Eftir allt sem Bjarney hefur upplifað er ekki úr vegi að byrja á því að spyrja hana að því hvað hún hefði viljað vita þegar hún var tvítug.

„Ég vildi að ég hefði slakað meira á og treyst betur. Ég var mjög metnaðarfull og eftir á að hyggja hefði ég viljað hafa meiri húmor fyrir lífinu og sjálfri mér. Ég tók sjálfa mig allt of hátíðlega og kröfurnar sem ég gerði til mín voru oft miklar. Ég hef mjög gaman af að vinna, sérstaklega með skemmtilegu og góðu fólki, að gefandi verkefnum. Ég hef verið heppin að hafa starfað við það sem mér finnst skemmtilegt í gegnum tíðina. Ég var í sveit þegar ég var unglingur, vann í nokkur ár á leikskóla þegar börnin mín voru lítil og svo í mismunandi fyrirtækjum í markaðsmálum. Ég eignaðist tvö börn þegar ég var um tvítugt en þá var ég í menntaskóla. Við vorum kornung þegar við eignuðumst tvíburana.

Ég fann til mikillar ábyrgðar en jafnframt að lífið hefði öðlast tilgang, snerist ekki allt um mig. Mér leið eins og lífið væri að hefjast fyrir alvöru og ég fann mikla þörf fyrir að standa mig, mennta mig, eignast þak yfir höfuðið og finna góða vinnu. Það var mikil gæfa að eignast börn svona ung og markaði framtíðina. Ég var mjög heppin að eiga góða að. Ömmur og afa sem voru til staðar og þeirra stuðningur og hjálpsemi voru ómetanleg fyrir okkur,“ segir Bjarney og bætir við:

„Þegar ég horfi til baka hefði ég viljað njóta þessa tíma betur. Gera mér grein fyrir hvað tíminn líður hratt og börnin eru vaxin úr grasi aður en þú veist af. Ég eignaðist þriðja og yngsta barnið þegar ég var 43 ára og það var allt öðruvísi. Þá vissi ég hvað skiptir mestu máli og forgangsraðaði öðruvísi. Ég var miklu öruggari í hlutverkinu,“ segir Bjarney.

Ég upplifði óbærilegu sorgina eins og allir gera, líka sektarkenndina …
Ég upplifði óbærilegu sorgina eins og allir gera, líka sektarkenndina yfir því að hafa ekki getað afstýrt þessu og rofið sem verður hið innra,“ segir Bjarney. mbl.is/Árni Sæberg

Brennandi áhugi lykillinn að velgengni

„Eftir að ég kláraði háskólanám fékk ég vinnu sem markaðsstjóri hjá Póst- og símamálastofnuninni. Launin voru mjög lág miðað við starfsheitið og ábyrgðina. Mig langaði að öðlast reynslu og fá tækifæri til að vaxa í starfi. Ég er heppin að hafa fengið tækifæri til að starfa í ólíkum fyrirtækjum við stefnumótun og markaðsmál. Það hefur hjálpað mér að setja hlutina í samhengi og þú lærir margt nýtt á hverjum stað,“ segir Bjarney.

Að komast áfram á vinnumarkaði er fólki með metnað hugleikið. Þegar Bjarney er spurð út í þetta segir hún mikilvægt að finna það sem þú brennur fyrir og láta verkin tala.

„Snúist vinna þín um það sem þú hefur áhuga á og brennur fyrir þá ertu að starfa við áhugamál þitt, sem er mjög gefandi. Þá ertu í flæði og það verður auðveldara að sýna frumkvæði, taka ábyrgð og klára verkefnin sem þér eru falin og fara fram úr væntingum. Sem eru allt þættir sem skipta máli ef þú vilt komast áfram að mínu mati. Ég hrífst af fólki sem brennur fyrir þau verkefni sem það tekur sér fyrir hendur og smitar aðra með eldmóði sínum.“

Bjarney segist aldrei hafa fundið fyrir því að hún gæti ekki eitthvað því hún væri kona.

„Þegar ég er að útskrifast 1995 úr Tækniháskólanum voru níu stelpur af 100 nemendum í mínum bekk. Þetta hlutfall endurspeglaði viðskiptalífið á þessum tíma. Ég hugsa aldrei konur vs. karlar. Það eru ótal skipti þar sem ég hef verið eina konan en það hefur aldrei truflað mig. Ég horfi á einstaklinginn burtséð frá kyni og met viðkomandi út frá hans eða hennar verkum og gildum. Þannig vil ég líka að ég sé metin,“ segir Bjarney.

Við tölum um fyrirmyndir í lífinu og hvað það er mikilvægt að hafa slíkar. Þegar Bjarney er spurð út í sína fyrirmynd í lífinu nefnir hún móður sína.

„Mamma er mín helsta fyrirmynd, báðir foreldrar mínir reyndar en sem kona þá finnst mér hún ein sú flottasta kona sem ég hef kynnst. Hún er að verða 79 ára, er ljósmóðir og elskaði starfið sitt. Hún er í frábæru formi, gengur fremst í flokki Jakobsveginn, mætir í ræktina og á einstakt samband við barnabörnin sín. Hún gefur svo mikið og það er hægt að læra svo margt af henni. Ég heyrði einu sinni sagt að þú hefur gert rétt ef börn þín vilja vera með þér á fullorðinsárum. Hvað þá ef 32 ára barnabörnin vilja vera með þér öllum stundum, þá ertu með þetta. Hún er af þeirri kynslóð að það þarf ekki alltaf að vera að tala um allt. Það er gott að tala en stundum er bara gott að vera í þögninni. Það þarf ekki að skilgreina allt,“ segir Bjarney.

Bjarney er drífandi og bjartsýn. Hún segist aldrei hafa hugsað að það væri eitthvað sem hún sjálf gæti ekki gert.

„Að læra eitthvað nýtt og vera opin fyrir nýju finnst mér skipta máli. Þegar ég var ung að taka mín fyrstu skref í starfi og var beðin um að gera eitthvað sem ég hafði aldrei gert áður, þá sökkti ég mér í allt sem tengdist verkefninu, ræddi við fólk sem hafði náð árangri í því sem ég var að takast á við, las um það og svo framvegis. Það hefur hjálpað mér mikið að nálgast hlutina þannig. Ég finn samt að með árunum þarf ég að vera meðvitaðri um að tala ekki of mikið, að finnast ég hafi öll svörin. Ég vil ekki detta í þá gryfju, heldur hlusta meira, raunverulega hlusta. Mig langar aldrei að hætta að læra, hvort sem það er að fara í nám eða læra í skóla lífsins. Ég brenn fyrir sjálfbærni og ákvað í kórónuveirufaraldrinum að fara í nám í Harvard sem lauk í lok árs 2021. Þannig gat ég tengst inn í samfélag fólks sem vill leiða breytingu og á sama tíma fá dýpri skilning á hvað ég get gert,“ segir hún.

Breytti um stefnu 2011

Þegar Bjarney varð fertug langaði hana til að spreyta sig í eigin rekstri. Þá hafði hún unnið við markaðsmál í fjölmörgum fyrirtækjum og kennt í Háskólanum í Reykjavík.

„Það hafði oft blundað í mér að taka íslenskt vörumerki og byggja það upp á alþjóðlegum vettvangi. Þegar ég var að kenna vörumerkjastjórnun við Háskólann í Reykjavík tók ég gjarnan stór erlend vörumerki sem dæmi fyrir nemendur mína. Mér varð oft hugsað til þess hvaða íslenskt vörumerki á neytendamarkaði hefði burði til að vaxa upp í það að vera leiðandi á sínu sviði á alþjóðamörkuðum. Sama vörumerkið kom ávallt upp í hugann og það var 66°Norður. Þarna var vörumerki með áratuga langa sögu, rótgróið íslenskt merki sem hafði fylgt þjóðinni í gegnum súrt og sætt.“

Þegar eiginmaður Bjarneyjar, Helgi Rúnar Óskarsson, var ráðinn forstjóri 66°Norður árið 2011 fékk hún ennþá betri innsýn í félagið.

„Helgi hafði alltaf verið í eigin rekstri og er mikill frumkvöðull. Hann hafði verið ráðinn forstjóri félagins í byrjun árs 2011 og fljótlega eftir það ákváðum við að kaupa meirihluta í félaginu ásamt Stefni. Til þess að fjármagna kaupin seldum við húsið okkar og fengum aðstoð frá fjölskyldunni. Að lokum keyptum við aðra hluthafa út úr félaginu með aðstoð Landsbankans og eignuðumst þannig allt félagið. Mér fannst þetta ótrúlega spennandi verkefni og leið eins ég væri búin að finna vettvang þar sem mig langaði að starfa alla ævi. Og þannig líður mér enn í dag. Draumurinn er að sjá félagið vaxa vel út frá Íslandi. 66°Norður er íslenskt merki sem er samofið íslenskri sögu í tæpa öld. 100 ára sögu af sjálfbærni. Fyrirtækið er með eigin verksmiðjur og viðgerðastofu og vörurnar eiga að endast árum og áratugum saman. Slíkir eiginleikar eru eftirsóttari í heiminum í dag en nokkru sinni fyrr. Við erum mjög heppin með þetta fjöregg en því fylgir líka mikil ábyrgð. Við viljum byggja félagið upp á þann hátt að það geti blómstrað næstu 100 árin. Þetta er gullegg í íslenskri viðskiptasögu. Ísland hefur fram að þessu byggt bróðurpart hagkerfisins á auðlindagreinum en fleirum er að verða ljóst að hugvitið á mikið inni og þar eru möguleikarnir ótakmarkaðir. Við eigum mikið af flottum hönnuðum og listafólki sem er lykilatriði þegar þú ert að byggja upp vörumerki eins og 66°Norður. Danir eru góð fyrirmynd þegar kemur að því að byggja á sköpun og hugviti og við eigum að læra af þeim. Ganni er gott dæmi um danskt vörumerki sem hefur náðst að byggja upp alþjóðlega á undanförnum árum. Það hefur verið gaman að fylgjast með þeim verða leiðandi danska fatamerkið á síðustu 10 árum og læra af þeim í gegnum það samstarf sem við höfum átt undanfarin ár. Það koma tvær línur á þessu ári með þeim,“ segir Bjarney.

2018 fengu Bjarney og Helgi Rúnar erlenda fjárfesta, Mousse Partners, inn í 66°Norður. Á dögunum réð fyrirtækið Kei Toyoshima sem listrænan stjórnanda en hann er einnig hönnuður herralínu Louis Vuitton. Bjarney segir að það sé mikill fengur í því að fá Toyoshima inn í fyrirtækið.

„Hann er frá Japan. Þar er lögð áhersla á handverk, menningu og notagildi. Þeir klæða sig lagskipt eins og við eyjarskeggjarnir. Hann skilur lúxus og gæði þótt hann sé að vinna í öðrum verðflokki hjá Louis Vuitton. Það er ótrúlega áhugavert að vinna með honum. Hann vinnur nánast allan sólarhringinn en þannig virkar tískuheimurinn í París þar sem hann er með vinnuaðstöðu,“ segir Bjarney.

Tvíburarnir Helen María Björnsdóttir og Hörður BJörnsson. Hörður féll frá …
Tvíburarnir Helen María Björnsdóttir og Hörður BJörnsson. Hörður féll frá 2015.

Jarðtengist á Vestfjörðum

Þegar Bjarney og Helgi urðu par átti hún tvö börn og hann fjögur. Saman eiga þau tíu ára gamlan son. Þannig að fjölskyldan er stór. Oft er nógu krefjandi fyrir fólk að vera bara í hjónabandi en hvernig er að vinna líka með makanum?

„Við höfum skýra verkaskiptingu. Vinnan verður alltaf mjög fyrirferðarmikil í okkar lífi sem hefur sína kosti og galla. Stundum viltu bara fá að kúpla þig út og tala um eitthvað allt annað. Við þurfum oft að ræða það fyrirfram að vinnan verði ekki á dagskrá,“ segir Bjarney og hlær.

„Við eigum sem betur fer sameiginleg áhugamál sem tengjast bókmenntum, tónlist, náttúrunni, menningu og heilsu. Svo eigum við stóra fjölskyldu en við erum með alls sjö börn. Við erum mjög heppin með fjölskylduna og erum náin systkinum okkar, foreldrum mínum og fólkinu í kringum okkur. Auðvitað er það áskorun fyrir hjón að vinna saman. Það virkar sem betur fer vel í okkar tilviki. Þú þarft að hafa ákveðnar reglur í kringum þetta sem þarf að fylgja. Sérstaklega þegar það er stress sem þarf að mæta þá getur reynt á. Þá getur orðið pirringur og það þarf að passa.“

Þegar Bjarney er spurð að því hvað hún geri til að hlaða batteríin segist hún sækja í náttúruna.

„Að vera úti í íslensku náttúrunni er besta leiðin fyrir mig til að hlaða batteríin og jarðtengja. Vestfirðirnir og vestfirsku Alparnir eru einstakt aðdráttarafl, sjórinn, friðsældin og kyrrðin. Þar finnst okkur best að vera. Þar á ég rætur og margar minningar úr barnæsku. Svo er jóga stór hluti af mínu lífi en það hefur hjálpað mér mikið síðustu árin. Ég kynntist yin jóga í Marokkó og fór svo að stunda hot yoga hjá Iceland Power Jóga. Í veirunni lærði ég að vera jógakennari. Mig langaði til að skilja hugmyndafræðina á bak við jóga en mér finnst það svo heilandi því það tengir saman huga, líkama og sál. Mig langar alls ekki að kenna öðrum heldur var námið gott til að skilja sjálfa mig,“ segir hún.

Bjarney, Helen María og Guðrún Sveina Jónsdóttir móðir Bjarneyjar. Myndin …
Bjarney, Helen María og Guðrún Sveina Jónsdóttir móðir Bjarneyjar. Myndin var tekin þegar þær gengu Jakobsveginn.

Sorg og sektarkennd

Bjarney er ekki vön að bera sín hjartans mál á torg. Árið 2015 breyttist margt í lífi hennar þegar Hörður sonur hennar féll frá 25 ára að aldri.

„Hann tók sitt eigið líf. Hörður var einstakur, svo ljúfur, góður og nærgætinn. Hann bjó yfir miklum listrænum hæfileikum. Við eigum ótrúlegar teikningar eftir hann sem eru svo dýrmætar okkur. Svo var hann mjög gáfaður, náttúruunnandi, nægjusamur og viðkvæmur. Ég upplifði óbærilegu sorgina eins og allir gera, líka sektarkenndina yfir því að hafa ekki getað afstýrt þessu og rofið sem verður hið innra. Við það að hitta hann aldrei aftur, snerta hann og faðma en líka sorgina við að fá ekki að fylgjast með honum í framtíðinni, eignast fjölskyldu, fá að vera til staðar í sigrum og ósigrum. Þegar ég var tilbúin leitaði ég meðal annars til Sorgarmiðstöðvar og það hjálpaði mér mikið. Ég var í stjórn þar á tímabili og tók þátt í starfinu sem var gefandi. Ég þurfti að fá hjálp til að rísa og verða heil aftur,“ segir Bjarney.

Hún segir að harmurinn hafi kennt sér margt. Hún horfir öðruvísi á tímann.

„Mér finnst tíminn vera dýrmætur, lífið er stutt og viðkvæmt. Það er ekkert gefið. Mér finnst það fallega vera í því smáa eins og lykt af birkitrjám, fuglasöng, hlátri og gleði, nánd og samveru. Ég met miklu meira að vera bara hér og nú, ekki á klukkunni eða með dagskrá ef ég get,“ segir Bjarney.

Hvernig horfir þú á framtíðina?

„Framtíðin er björt. Ég vil horfa þannig á hana. Það eru áskoranir sem við vitum um eins og loftslagsvá, offramleiðsla, neysla og ósjálfbær viðskiptamódel svo eitthvað sé nefnt. Við þurfum að líta til baka þegar við vorum í jafnvægi rétt eftir fyrri heimsstyrjöld. Árið 1950 var heimurinn í kolefnisjafnvægi. Horfum á hvernig við vorum sem neytendur. Við getum lært ýmislegt þar og nýtt það inn í framtíðina. Áður fyrr varð flík sem ekki var hægt að gera við að tusku sem varð síðan dýnufyllingarefni. Þetta er lítið dæmi um hringrás. Ég er mjög bjartsýn á framtíðina. Það er svo margt ungt framúrskarandi fólk á Íslandi og ég hef mikla trú á framtíðinni í þeirra höndum. Við þurfum öll að bera ábyrgð og leggja okkar af mörkum, saman,“ segir Bjarney.

Ertu með einhver markmið fyrir 2023 fyrir utan það að komast í handstöðu í jóga?

„Handstaðan verður áskorun. Ég þarf að mæta á dýnuna og gera þetta extra,“ segir Bjarney og hlær og bætir við:

„Það er svo þægilegt að gera flæðið eins og ég geri það alltaf. Þegar ég fór inn í þetta ár var ég bjartsýn og fann vissu fyrir að þetta yrði frábært ár. Kórónuveirutímabilið liðið með óvissu og ótta, orkan komin aftur. Við erum með skýr markmið í vinnunni, mörg spennandi verkefni framundan og ég hlakka til að vinna með öllu því góða fólki sem ég vinn með. Ég hef mikla trú á skapandi greinum á Íslandi, íslenskri hönnun. Ég gæti alveg hugsað mér að fara í hönnunarnám á árinu. Mér finnst vera ákveðin hvíld í því að fara í nám. Fá nýjar hugmyndir og skilja betur. Hver veit hvað gerist,“ segir Bjarney.

mbl.is