Halda fast í „pínuoggulitla örmynt“

Vextir á Íslandi | 21. febrúar 2023

Halda fast í „pínuoggulitla örmynt“

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir íslensku krónuna vera raunverulega vandamálið þegar kemur að verðbólgunni hér á landi.

Halda fast í „pínuoggulitla örmynt“

Vextir á Íslandi | 21. febrúar 2023

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Hákon

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir íslensku krónuna vera raunverulega vandamálið þegar kemur að verðbólgunni hér á landi.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir íslensku krónuna vera raunverulega vandamálið þegar kemur að verðbólgunni hér á landi.

„Það er auðvitað rannsóknarefni að bæði seðlabankastjóri og fjármálaráðherra séu svo uppteknir við að benda hvor á annan, á sama tíma og ekki má leita að sökudólgum, að þeir nái hvorugur að sjá hið raunverulega vandamál. Sú firra að tæplega 400.000 manna þjóð haldi fast í pínuoggulitla örmynt í ólgusjó alþjóðaviðskipta er hið raunverulega alltumlykjandi vandamál,“ sagði Sigmar undir dagskrárliðnum störf þingins.

Borga meira fyrir nauðsynjar en aðrir

Hann bætti við að einn minnsti gjaldmiðill heims væri helsta ástæðan fyrir því að Íslendingar borgi meira fyrir nauðsynjar og miklu meira í vexti en nágrannaþjóðirnar.

„Örmyntin er líka ein helsta ástæða þess að vaxtakostnaður íslenska ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu er hærri en flestra Evrópulanda og miklu hærri en í nágrannalöndunum. Leitin að sökudólgi ætti að enda þar. Íslenska krónan er heita kartaflan,“ sagði Sigmar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Hákon

„Treystum þjóðinni“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tók í sama streng og sagði verðbólguna vera heimatilbúna og að ríkisstjórnin vísaði ábyrgðinni frá sér.

„Eigum við ekki að treysta þjóðinni til að leiða okkur í næsta skref? Treystum þjóðinni til að stýra okkur stjórnmálafólkinu, sem er sammála um að þetta ófremdarástand í efnahagsmálum er ólíðandi. Tökum þá næsta skref, fáum þjóðina til að segja okkur hvort við eigum til að mynda að fullklára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið, stærra er nú skrefið ekki og við það á enginn að vera hræddur,“ sagði Þorgerður Katrín.

mbl.is