Segir miðlunartillögu ekki tilbúna

Kjaradeila Eflingar og SA | 28. febrúar 2023

Segir miðlunartillögu ekki tilbúna

Fundi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu með sáttasemjara lauk laust eftir miðnætti.

Segir miðlunartillögu ekki tilbúna

Kjaradeila Eflingar og SA | 28. febrúar 2023

Ástráður Haraldsson, settur sáttasemjari í deilu Eflingar og SA.
Ástráður Haraldsson, settur sáttasemjari í deilu Eflingar og SA. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fundi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu með sáttasemjara lauk laust eftir miðnætti.

Fundi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu með sáttasemjara lauk laust eftir miðnætti.

Ástráður Haraldsson, settur sáttasemjari í kjaradeilunni, segist ekki vera búinn að leggja fram miðlunartillögu en kveðst aftur á móti vera að skoða hvort að hann geti „fundið forsendur“ fyrir slíku.

„Það sem fór fram á þessum fundi sem að stóð í fjóra tíma voru samræður milli mín og aðilanna, hvor í sínu lagi, þar sem að ég var að reyna að finna út hvernig staðan er og hvernig þetta liggur. Það er síðan verkefnið mitt núna að kanna til þrautar hvort ég geti fundið flöt til þess að leggja fram miðlunartillögu,“ segir Ástráður í samtali við mbl.is eftir fundinn.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, veittu ekki viðtöl að fundi loknum en Ástráður hefur beðið þau um að tjá sig ekki um það sem fram fór á fundinum að svo stöddu. 

Ekki liggur fyrir hvenær næsti fundur verður haldinn en Ástráður hefur ekki boðað deiluaðila í Karphúsið á ný eins og er.

„Málið er bara í þeirri stöðu núna að ég hef tekið við þeim skilaboðum sem aðilarnir vilja færa mér út frá þeim hugmyndum sem ég hef verið að reifa.“

Ekki víst að hann leggi miðlunartillögu fram

Ástráður kveðst ekki geta staðfest að hann muni yfirhöfuð leggja fram miðlunartillögu. Þá sagði hann tillöguna ekki tilbúna.

„Ég mun sannarlega gera það sem í mínu valdi stendur til þess að koma því í kring og ég geri ráð fyrir að það muni koma í ljós bráðlega,“ segir Ástráður, spurður hvenær hann geri ráð fyrir að miðlunartillaga verði lögð fram.

„En það sem ég er núna að kanna til þrautar er hvort ég geti komið auga á einhvern flöt sem að gæti orðið að miðlunartillögu, sem að ég teldi einhverjar líkur til þess að gæti verið samþykkt. Það þýðir auðvitað að hún þyrfti að vera samþykkt báðum megin.“

Verður að tryggja að kjörskráin verði ekki vandamál

Aðalsteinn [Leifsson] lagði fram miðlunartillögu á sínum tíma en þá var vandamál með kjörskrá Eflingar, telur þú að það gæti orðið vandamál líka?

„Það er eitt af því sem þarf auðvitað að tryggja að verði ekki vandamál. Eins og staðan er núna, og miðað við þá stöðu sem málið er í, þá þarf auðvitað sáttasemjarinn að hafa einhverja vissu fyrir því að hann fái aðilana til þess að taka slíka tillögu til afgreiðslu.“

Spurður hvort tillagan sem hann hyggst mögulega leggja fram verði nær kröfum Eflingar heldur en miðlunartillaga Aðalsteins kveðst Ástráður ekki fullviss um að hann geti gert tillögu.

„Ég hef haft ýmsar hugmyndir um hvernig svona tillaga gæti verið og hef aðeins verið að reyna að fóta mig á því, og ég er ekki einu sinni viss um að ég geti gert tillögu, en ég ætla að reyna það.“

mbl.is