Heimilt að segja upp starfsmanni sem tók ekki hraðpróf

Kórónuveiran Covid-19 | 9. mars 2023

Heimilt að segja upp starfsmanni sem tók ekki hraðpróf

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Klíníkin, sem er fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, hafi verið heimil riftun ráðningarsamnings hjúkrunarfræðings þar sem það teldist veruleg vanefnd af hennar hálfu að neita að fara eftir fyrirmælum um að taka Covid-19 hraðpróf í upphafi vinnudags.

Heimilt að segja upp starfsmanni sem tók ekki hraðpróf

Kórónuveiran Covid-19 | 9. mars 2023

Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að brot hjúkrunarfræðingsins á hlýðniskyldu …
Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að brot hjúkrunarfræðingsins á hlýðniskyldu í umrætt sinn teljist veruleg vanefnd á ráðningarsamningi aðila sem veitti fyrirtækinu heimild til riftunar hans. Samsett mynd

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Klíníkin, sem er fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, hafi verið heimil riftun ráðningarsamnings hjúkrunarfræðings þar sem það teldist veruleg vanefnd af hennar hálfu að neita að fara eftir fyrirmælum um að taka Covid-19 hraðpróf í upphafi vinnudags.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Klíníkin, sem er fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, hafi verið heimil riftun ráðningarsamnings hjúkrunarfræðings þar sem það teldist veruleg vanefnd af hennar hálfu að neita að fara eftir fyrirmælum um að taka Covid-19 hraðpróf í upphafi vinnudags.

Þá var fyrirtækið einnig sýknað af miskabótakröfu vegna riftunar ráðningarsamningsins.

Dómur héraðsdóms féll 20. febrúar en var birtur í gær. 

Í málinu krafðist hjúkrunarfræðingurinn að Klíníkin yrði dæmd til að greiða henni 5.174.775 krónur auk dráttarvaxta. Klíníkin krafðist aðallega sýknu en til vara að krafan yrði lækkuð. 

Deilt um hvort ekki hafi verið farið eftir fyrirmælum

Fram kemur í dómnum, að ágreiningurinn snúi að því hvort hjúkrunarfræðingurinn hafi óhlýðnast fyrirmælum fyrirtækisins um að undirgangast hraðpróf áður en mætt væri til vinnu og hvort henni hafi borið að hlýða slíkum fyrirmælum eða sæta riftun ráðningarsamnings að öðrum kosti. Þá byggði konan á því að sú afstaða hennar að neita að láta bólusetja sig fyrir Covid-19 hefði verið riftunarástæða af hálfu fyrirtækisins en það hefur tekið af öll tvímæli um að það byggi ekki á því sem riftunarástæðu.

Í dómi héraðsdóms segir að hlýðni starfsmanna við lögleg fyrirmæli atvinnurekandans sé ein af meginskyldum starfsmanna í ráðningarsambandi. Talið hefur verið að starfsmaður verði að beygja sig undir húsbóndavald vinnuveitanda síns enda teljist gefin fyrirmæli ekki vera ólögleg, brot á kjarasamningi eða utan við verksvið starfsmannsins.

„Öllum eðlilegum og venjulegum fyrirskipunum atvinnurekanda um framkvæmd og tilhögun vinnunnar verði starfsmaður að hlýða og eigi það á hættu að vera vikið úr starfi að öðrum kosti. Til að skilyrði riftunar á ráðningarsamningi teljist uppfyllt vegna brota á hlýðniskyldu eða neitunar starfsmanns við því að hlýða fyrirmælum, verði brot starfsmannsins á hlýðniskyldunni að varða veigamikil atriði í rekstri umrædds vinnuveitanda þannig að neiti starfsmaður að hlýða þeim teljist það veruleg vanefnd,“ segir í dómnum. 

Augljóst að hlýðniskyldur teljist varða veigimikil atriði í rekstri fyrirtækisins

Samkvæmt ráðningarsamningi var konan ráðin til að sinna starfi skurðhjúkrunarfræðings hjá fyrirtækinu. Í daglegu starfi hennar fólst að manna skurðstofu við skurðaðgerðir, þrífa áhöld fyrir aðgerðir, undirbúa skurðstofu og sinna sjúklingum sem í skurðaðgerðir kæmu, þ.m.t. við vöknun sjúklinga eftir svæfingu í skurðaðgerðum.

„Eðli málsins samkvæmt krefst vinna heilbrigðisstarfsmanna við skurðaðgerðir þess að veruleg aðgát sé höfð hvað varðar almennar sóttvarnir sem og smitvarnir og augljóst að hlýðniskyldur er að því lúta teljast varða veigamikil atriði í rekstri stefnda. Í Covid-19-faraldrinum fylgdu slíkum störfum auknar skyldur starfsfólks til að gæta að smithættu vegna covid-19 og sinna smitvörnum af mikilli alvöru og kostgæfni,“ segir jafnframt.

Fyrirmæli um hraðpróf lögmæt og gefin á málefnalegum grunni

Þá fellst dómarinn á það að fyrirmæli fyrirtækisins um hraðpróf starfsfólks hafi verið lögmæt og gefin á málefnalegum grundvelli í þeim lögmæta tilgangi að vernda sjúklinga, starfsmenn og fyrirtækið á tímum farsóttar. Þá segir, að þegar litið sé sérstaklega til eðlis starfsemi Klíníkurinnar verði að telja að fyrirmælin hafi verið snar þáttur í að gæta að öryggi sjúklinga og þar með einnig starfsfólks. Í því sambandi sé augljóst að sjúklingar sem þáðu heilbrigðisþjónustu hjá fyrirtækinu settu sig á þessum tíma í ákveðna smithættu með því að undirgangast skurðaðgerðir og hafi þannig verið í afar viðkvæmu ástandi þegar þeir sóttu heilbrigðisþjónustuna til fyrirtækisins.

„Þannig hafi verið nauðsynlegt að gæta sérstaklega vel að öllum smitvörnum í slíkum rekstri, þ.m.t. með notkun hraðprófa. Var það þannig eðlileg lágmarkskrafa að þeir starfsmenn sem viðstaddir væru skurðaðgerðir og sinntu aðhlynningu sjúklinga fyrir og eftir þær, þ.m.t. skurðhjúkrunarfræðingar, hlýddu fyrirmælum stefnda um sóttvarnir og tækju covid-19- hraðpróf í upphafi dags. Ekki verður talið að slík fyrirmæli hafi verið íþyngjandi fyrir stefnanda nema síður sé. Þá mátti stefnanda sem menntuðum hjúkrunarfræðingi vera ljóst mikilvægi sótt- og smitvarna við skurðaðgerðir.“

Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að brot hjúkrunarfræðingsins á hlýðniskyldu í umrætt sinn teljist veruleg vanefnd á ráðningarsamningi aðila sem veitti fyrirtækinu heimild til riftunar hans.

„Umrætt brot stefnanda í starfi telst sérstaklega ámælisvert með vísan til eðlis þess starfs sem stefnandi gegndi sem skurðhjúkrunarfræðingur og viðkvæms ástands þeirra sjúklinga sem hún átti í starfi sínu að sinna. Fyrirmæli stefnda voru þannig snar þáttur í starfsemi hans og afar mikilvæg til að tryggja öryggi sjúklinga og starfsfólks á tímum farsóttar. Með vísan til þess sem þegar er rakið er í engu fallist á að stefnandi hafi sýnt fram á það að við riftun ráðningarsamningsins, með málsmeðferðinni eða framkomu starfsfólks síns hafi stefndi bakað stefnanda miskatjón,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. 

Þá var konan dæmd til að greiða Klíníkinni 1,2 milljónir í málskostnað.

mbl.is