Pólverjar senda MiG-29 þotur til Úkraínu

Úkraína | 16. mars 2023

Pólverjar senda MiG-29 þotur til Úkraínu

Pólverjar verða fyrsta þjóð Atlantshafsbandalagsins NATO til að senda Úkraínumönnum orrustuþotur eftir að Rússar hófu hernað sinn gegn nágrannaríkinu fyrir rúmu ári. Þetta tilkynntu pólsk stjórnvöld í dag og sagði Andrzej Duda, forseti Póllands, að fyrstu þoturnar yrðu sendar á næstu dögum en fleiri fylgdu svo í kjölfarið.

Pólverjar senda MiG-29 þotur til Úkraínu

Úkraína | 16. mars 2023

Pólsk orrustuþota af gerðinni MiG-29 en Pólverjar senda Úkraínumönnum fjórar …
Pólsk orrustuþota af gerðinni MiG-29 en Pólverjar senda Úkraínumönnum fjórar slíkar á næstu dögum og fleiri í kjölfarið. Ljósmynd/Andrzej Rogucki

Pólverjar verða fyrsta þjóð Atlantshafsbandalagsins NATO til að senda Úkraínumönnum orrustuþotur eftir að Rússar hófu hernað sinn gegn nágrannaríkinu fyrir rúmu ári. Þetta tilkynntu pólsk stjórnvöld í dag og sagði Andrzej Duda, forseti Póllands, að fyrstu þoturnar yrðu sendar á næstu dögum en fleiri fylgdu svo í kjölfarið.

Pólverjar verða fyrsta þjóð Atlantshafsbandalagsins NATO til að senda Úkraínumönnum orrustuþotur eftir að Rússar hófu hernað sinn gegn nágrannaríkinu fyrir rúmu ári. Þetta tilkynntu pólsk stjórnvöld í dag og sagði Andrzej Duda, forseti Póllands, að fyrstu þoturnar yrðu sendar á næstu dögum en fleiri fylgdu svo í kjölfarið.

Fyrstu þoturnar eru fjórar MiG-29-vélar frá tímum Sovétríkjanna en Sovétmenn hófu að framleiða MiG-29 árið 1983. Er þessi fyrsta sending Pólverja ekki talin munu skipta sköpum fyrir varnir Úkraínumanna og segist Olena Kondratjúk, varaforseti úkraínska þingsins, vonast til þess að fleiri þjóðir fari að dæmi Pólverja og sendi Úkraínumönnum orrustuþotur.

Bretar þjálfa úkraínska flugmenn

Eru fleiri NATO-ríki sögð íhuga að senda þotur frá tíma Sovétríkjanna, ekki með það fyrir augum að losa sig við úr sér gengnar orrustuþotur heldur vegna þess að það eru þær vélar sem úkraínskir orrustuflugmenn þekkja og hafa reynslu af. Þó hafa úkraínsk stjórnvöld falast eftir að fá nýrri þotur af gerðinni F16 til að verja hendur sínar.

Breski flugherinn er um þessar mundir að þjálfa úkraínska flugmenn til að stjórna þeim orrustuþotum sem nú eru í notkun hjá flugherjum NATO-ríkjanna en bendir á að slík þjálfun taki tímann sinn og því sé ekki tímabært á þessu stigi málsins að senda Úkraínumönnum nýjar gerðir. Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur útilokað að Bandaríkjamenn sendi Úkraínumönnum þotur.

Orrustuflugfloti Úkraínumanna taldi um 120 nothæfar vélar um það leyti sem innrás Rússa hófst og samanstóð einkum af gömlum MiG-29 og Su-27-vélum. Úkraínski þingmaðurinn Kira Rudik segir í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að landið þurfi þotur til að styrkja loftvarnir sínar og búa í haginn fyrir gagnárásir vorsins.

Sextán loftárásir á Rússa

„Það er einnig góðs viti að ekki þyki fjarstæðukennt eða óhugsandi að senda orrustuþotur til Úkraínu heldur sé það eitthvað sem geti orðið að raunveruleika, til þess þurfi aðeins pólitískan vilja,“ segir þingmaðurinn.

Júrí Sak, ráðgjafi úkraínska varnarmálaráðherrans, fagnar pólsku þotunum í samtali við BBC og segir flugher landsins munu nýta þær vel. Að hans sögn hafa úkraínskir orrustuflugmenn gert sextán loftárásir á rússneska hermenn og búnað síðasta sólarhringinn. Lagði Sak þó áherslu á að Úkraínumenn sæktust eftir orrustuþotum af „fjórðu kynslóð“ á borð við F-16.

„Þær bjóða upp á fleiri möguleika, eru áreiðanlegri og munu að sjálfsögðu efla úkraínska flugherinn,“ segir Júrí Sak við BBC.

BBC
AP
Al Jazeera

mbl.is