Forrit sem les launaseðla léttir launþegum lífið

Gervigreind | 19. mars 2023

Forrit sem les launaseðla léttir launþegum lífið

Sex nemendur í nýsköpunaráfanga í Verzlunarskóla Íslands hafa hannað frumgerð að forriti sem les launaseðla og greinir í þeim hugsanlegar villur. Þau segja það allra hag að launþegar fái greidd rétt laun fyrir sína vinnu. Þá sé mikilvægt að fólk læri að lesa launaseðla og þekki rétt sinn.

Forrit sem les launaseðla léttir launþegum lífið

Gervigreind | 19. mars 2023

Hópurinn samanstendur af þeim Orra Einarssyni, Tómasi Pálmari Tómassyni, Össuri …
Hópurinn samanstendur af þeim Orra Einarssyni, Tómasi Pálmari Tómassyni, Össuri Antoni Örvarssyni, Ólafi Inga Jóhannessyni, Söndru Diljá Kristinsdóttur og Dagnýju Rós Björnsdóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sex nemendur í nýsköpunaráfanga í Verzlunarskóla Íslands hafa hannað frumgerð að forriti sem les launaseðla og greinir í þeim hugsanlegar villur. Þau segja það allra hag að launþegar fái greidd rétt laun fyrir sína vinnu. Þá sé mikilvægt að fólk læri að lesa launaseðla og þekki rétt sinn.

Sex nemendur í nýsköpunaráfanga í Verzlunarskóla Íslands hafa hannað frumgerð að forriti sem les launaseðla og greinir í þeim hugsanlegar villur. Þau segja það allra hag að launþegar fái greidd rétt laun fyrir sína vinnu. Þá sé mikilvægt að fólk læri að lesa launaseðla og þekki rétt sinn.

Það voru átökin sem sköpuðust í kringum kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins sem voru þeim innblástur að verkefninu.

Blaðamaður náði tali af þeim Orra Einarssyni framkvæmdastjóra og Tómasi Pálmari Tómassyni markaðsstjóra og fékk þá til að útskýra virkni forritsins, sem kallast Nómína, og hugmyndina að baki því.

 Getur sparað tíma og fyrirhöfn

„Áfanginn er oft nýttur til að skapa einhverja vöru, eitthvað áþreifanlegt, en við áttuðum okkur strax á því að við vildum gera eitthvað öðruvísi, eitthvað óhefðbundið, þannig við ákváðum að búa til smáforrit,“ segir Orri í samtali við mbl.is

Þeir segja ekkert sambærilegt forrit til þótt vissulega hafi flest stéttarfélög sína launareiknivél. Þeir telja þó að forrit sem þetta sé mjög praktískt fyrir alla aðila og geti sparað notendum tíma og fyrirhöfn.

„Það er ekkert sambærilegt til sem er svona auðvelt í notkun,“ bendir Orri á, en forritið mun notast við OCR-tækni sem les stafi af ljósmynd eða skjáskoti. Gervigreind vinnur síðan úr upplýsingunum og bendir á villur ef þær eru til staðar.

Markmiðið að fólk læri að lesa launaseðla

„Grunnhugmyndin er þessi launamyndavél sem hjálpar til við að lesa launaseðilinn og segir til um það hvort útreikningur launa sé réttur. En á bak við það er stimpilklukka í forritinu þar sem þú skráir þá tíma sem þú vinnur og talar stimpilklukkan við forritið og segir til um hvort þú ert að vinna dagvinnu, yfirvinnu og svo framvegis,“ segir Orri.

En hópurinn vill einnig að almenningur geti notað forritið til að læra að lesa og skilja launaseðla, án þess að notast við tæknina. Þess vegna er leikur inni í forritinu þar sem settur er upp tilbúinn launaseðill þar sem notandinn svarar ýmsum spurningum og reynir að átta sig á villum.

„Þannig getur notandinn áttað sig á því hvort hann skilur launaseðilinn. Við getum ekki bara treyst á tæknina. Við viljum fræða almenning sem vonandi getur nýtt forritið sér til gagns,“ segir Tómas Pálmar.

Hugmyndin er vel framkvæmanleg

Það er meira en að segja það að hanna forrit og fá það til að virka eins og hugmyndin segir til um. Hópurinn er nú að leggja lokahönd á fyrsta skrefið í þeirri vinnu.

„Við erum búin að hanna útlit forritsins og virkni þess. Við erum búin að ákveða hvernig við myndum útfæra hlutina og framkvæma þá,“ útskýrir Orri.

Þau hafa fengið það staðfest hjá leiðbeinanda sínum að hugmyndin sé vel framkvæmanleg, miðað við þá tækni sem til er í dag. Hægt sé að útbúa slíkt forrit og fá það til að virka rétt. En Google-translate notast til dæmis við OCR-tækni til að þýða texta á myndum.

„Þessi tækni er alltaf að þróast og verður betri með degi hverjum,“ segir Tómas Pálmar.

Forritið verður á þremur tungumálum fyrst um sinn; íslensku, ensku og pólsku, en hópurinn sér fyrir sér að fjölga tungumálunum fari hann lengra með vinnuna.

„Okkur þykir skipta miklu máli að þeir sem ekki hafa íslensku sem móðurmál hafi líka aðgang að þessari þjónustu. Við framkvæmdum markaðsrannsókn þar sem kom í ljós að fólk með annað móðurmál en íslensku lendir ítrekað í því að fá ekki greidd rétt laun,“ segir Tómas Pálmar.

Opin fyrir samstarfi 

Hópurinn er opinn fyrir því að fara í samstarf með öðrum til að ljúka þróun forritsins ef áhugasamir setja sig í samband við þau.

„Ef forritarar vilja slást í hópinn með okkur, einhver fyrirtæki eða jafnvel verkalýðshreyfingin, þá erum við alltaf opin fyrir samtalinu,“ segir Orri.

„Við teljum þetta geta létt almenningi lífið. Rétt útreiknuð laun er allra hagur,“ bætir Tómas Pálmar við.

Þeir segja alla sem hafa heyrt af forritinu mjög áhugasama og fólk telji þörf á forriti eins og Nómínu.

Í lok mars verður hópurinn með kynningu á Nómínu á Vörumessu Ungra frumkvöðla í Smáralind en einnig er hægt að nálgast frekari upplýsingar um forritið á Instagram og Facebook.

„Þar geta allir sem vilja, séð grunnhugmyndina að forritinu og hvernig hægt er að nýta sér það,“ segir Tómas Pálmar að lokum.

View this post on Instagram

A post shared by Nómína (@nominaforrit)

mbl.is