„Samfélagsmiðlarnir hafa að sjálfsögðu áhrif á fermingargreiðslurnar“

Ferming | 19. mars 2023

„Samfélagsmiðlarnir hafa að sjálfsögðu áhrif á fermingargreiðslurnar“

Halldóra Jónsdóttir förðunar- og hárgreiðslumeistari segir fermingargreiðslur hafa tekið breytingum á þeim 25 árum sem hún hefur greitt fermingarbörnum. Í dag eru látlausar og náttúrulegar greiðslur vinsælar. Tískan fer í hringi og eru fermingargreiðslurnar í rauninni ekki svo ólíkar greiðslunni sem Halldóra fékk þegar hún fermdist sjálf

„Samfélagsmiðlarnir hafa að sjálfsögðu áhrif á fermingargreiðslurnar“

Ferming | 19. mars 2023

Halldóra Jónsdóttir hefur fermingarbörnum í yfir tvo áratugi. Rómantískar hárgreiðslur …
Halldóra Jónsdóttir hefur fermingarbörnum í yfir tvo áratugi. Rómantískar hárgreiðslur eru í tísku núna. mbl.is/Árni Sæberg

Halldóra Jónsdóttir förðunar- og hárgreiðslumeistari segir fermingargreiðslur hafa tekið breytingum á þeim 25 árum sem hún hefur greitt fermingarbörnum. Í dag eru látlausar og náttúrulegar greiðslur vinsælar. Tískan fer í hringi og eru fermingargreiðslurnar í rauninni ekki svo ólíkar greiðslunni sem Halldóra fékk þegar hún fermdist sjálf

Halldóra Jónsdóttir förðunar- og hárgreiðslumeistari segir fermingargreiðslur hafa tekið breytingum á þeim 25 árum sem hún hefur greitt fermingarbörnum. Í dag eru látlausar og náttúrulegar greiðslur vinsælar. Tískan fer í hringi og eru fermingargreiðslurnar í rauninni ekki svo ólíkar greiðslunni sem Halldóra fékk þegar hún fermdist sjálf

„Vinsælustu fermingagreiðslurnar í dag eru svolítið undir áhrifum „bohemian“, þá einna helst stórir fallegir liðir sem eru svo teknir að hálfu upp að aftan. Snúningur eða jafnvel smá fléttur fá oft að fylgja aðeins með og gefa smá aukatvist. Í raun má segja að stíllinn sé pínu rómantískur og náttúrulegur. Eins er fallegt og vinsælt að skreyta aðeins með lifandi blómum eins og brúðarslöri. Einnig notum við skraut eins og spennur með perlum eða jafnvel semelíusteinum, það setur oft punktinn yfir i-ið,“ segir Halldóra sem er eigandi Lúx hárs og förðunar.
Koma fermingarbörn stundum inn með einhverjar beiðnir af samfélagsmiðlum?

„Samfélagsmiðlarnir hafa að sjálfsögðu áhrif á fermingargreiðslurnar eins og allt annað í lífi þessara ungu krakka. Mörg þeirra koma með myndir af Pinterest eða Instagram og vilja fá eitthvað í líkingu við það sem þau eru búin að vera að skoða og „vista“ hjá sér. En það er bara ótrúlega gaman og auðveldar okkur að gera greiðslurnar í takt við það sem þau óska sér, svo við fögnum því.“
Er alltaf jafn vinsælt að safna hári fyrir fermingu og svo klippa það eftir hana?

„Við sjáum þetta enn mjög sterkt, stelpurnar eru jafnvel búnar að safna lengi því þær langar í ákveðinn stíl – lokka eða uppsett að einhverju leyti. Svo er ótrúlega spennandi að koma í klippingu og jafnvel strípur eða lit eftir fermingu og þá breyta svolítið til.“
Hvað með förðun?

„Það er mjög vinsælt að koma í förðun fyrir fermingardaginn. Við bjóðum alltaf upp á að koma fyrir daginn sjálfan og fá létta förðun til að prufa, það nýta stelpurnar oft til þess að fara í myndatökuna sjálfa ef hún er bókuð eitthvað aðeins fyrir fermingardaginn. Förðunin er alltaf létt, eðlileg, aðeins er verið að laga og jafna húðlitinn. Gefa þeim kannski smá skerpu um augun, lítinn maskara og jafnvel smá kinnalit.“

Skiptir máli í hvernig fötum fermingarbarnið er?

„Það er alltaf gott að fá upplýsingar um hvernig fötum fermingarbarnið ætlar að klæðast á sjálfan fermingadaginn því þá getum við líka passað að allt fljóti saman og passi vel, stíll á hári og fatnaði skiptir ekkert síður máli fyrir þau en okkur. Eins skiptir máli að átta sig á því hvort betra sé jafnvel að koma í fermingarfötunum í greiðslu og förðun, því stundum eru til dæmis stelpurnar í kjól upp í háls og þá er erfitt að klæða sig í hann þegar þú ert komin með flotta greiðslu og jafnvel smá farða. Við mælum því með að hugsa aðeins út í þetta áður en mætt er í greiðsluna.“
Finnst þér eitthvað hafa breyst í fermingarhárgreiðslu frá því þú varst að byrja?

„Það eru náttúrlega komin svolítið mörg ár síðan ég byrjaði í þessum bransa – 25 ár sjáðu til og því óneitanlega hægt að segja að mikið hafi breyst. En það er með hártískuna eins og aðra tísku að hún fer líka í hringi, sem er skemmtilegt. Þegar ég var að byrja voru greiðslurnar töluvert meiri eða stærri. Í dag eru þær mun látlausari og meira verið að sækjast eftir þessu náttúrulega útliti.“
Manstu hvernig fermingarhárgreiðslan þín var?

„Já, ég man svo sannarlega eftir minni fermingarhárgreiðslu og það er gaman að segja frá því að hún ætti vel heima í fermingarveislunni í dag. Minn innblástur var Brigitte Bardot, mér fannst hún geggjuð. Greiðslan var látlaus, flottir liðir og svo tekið að hálfu upp að aftan. Ég vildi engin blóm og ekkert skraut, þetta átti allt að vera mjög stílhreint og fallegt. Þessi greiðsla myndi klárlega virka í dag.“

Margar stelpur velja að vera með hárið tekið upp að …
Margar stelpur velja að vera með hárið tekið upp að hálfu.

Pæla strákar jafnmikið í hárinu og stelpur?

„Strákarnir pæla klárlega jafnmikið í hárinu og stelpurnar og þeir hafa miklar skoðanir á því hvað þeir vilja og hvað þeim finnst flott. Þeir koma jafnvel og láta greiða sér á fermingardaginn sjálfan, alveg eins og stelpurnar gera.“

Eru fermingarmömmur líka að koma í hárgreiðslu?

„Það er mjög mikið um að mömmurnar komi líka, bæði í hár og förðun. Þær vilja að sjálfsögðu líka líta vel út og gera vel við sig, en þetta er líka bara svo skemmtileg stund þegar mæðgurnar koma saman. Þetta er dagur sem maður man alla ævi og það er ótrúlega gaman að geta tekið þátt í því. Margar stelpur eru að koma í svona „trít“ í fyrsta skipti og það er ótrúlega dýrmætt sem móðir að fá að taka þátt í því. Þetta eru oft ótrúlega skemmtilegar og fallegar stundir og minningar sem verða til á stofunni þennan dag,“ segir Halldóra.

mbl.is