„Mér fannst allar hugmyndirnar mínar glataðar“

Framakonur | 21. mars 2023

„Mér fannst allar hugmyndirnar mínar glataðar“

Leikkonan og leikstjórinn Dóra Jóhannsdóttir lærði sketsa-skrif í New York og í Chicago. Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig og eftir fyrsta tímann í New York gafst hún upp. Seinna dustaði hún rykið af námskeiðinu og í dag kennir hún öðrum að búa til sketsa.  

„Mér fannst allar hugmyndirnar mínar glataðar“

Framakonur | 21. mars 2023

Dóra Jóhannsdóttir er með námskeið í sketsa-skrifum en hægt er …
Dóra Jóhannsdóttir er með námskeið í sketsa-skrifum en hægt er að skrá sig til leiks á djok.is.

Leikkonan og leikstjórinn Dóra Jóhannsdóttir lærði sketsa-skrif í New York og í Chicago. Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig og eftir fyrsta tímann í New York gafst hún upp. Seinna dustaði hún rykið af námskeiðinu og í dag kennir hún öðrum að búa til sketsa.  

Leikkonan og leikstjórinn Dóra Jóhannsdóttir lærði sketsa-skrif í New York og í Chicago. Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig og eftir fyrsta tímann í New York gafst hún upp. Seinna dustaði hún rykið af námskeiðinu og í dag kennir hún öðrum að búa til sketsa.  

„Sketsa-skrif námskeiðið er fyrir fólk sem hefur áhuga á gríni og langar að skrifa grín. Það hentar reyndum höfundum jafnt sem alveg óreyndum. Ég fer yfir allskonar aðferðir við að fá hugmyndir og vinna þær áfram með öðrum og nota ferlið í höfundaherberginu í Áramótaskaupinu mikið sem dæmi. Við skoðum allskonar strúktúra, hugtök og tækni sem nýtast við hvers kyns grín-skrif. Ég lærði sjálf spuna og sketsa skrif í New York og Chicago og lærði þar ótrúlega mikið sem hefur nýst mér vel og ég hlakka til að miðla áfram,“ segir Dóra sem hélt síðasta námskeið fyrir fjórum árum. 

„Það hafa yfir þúsund manns komið á spuna (improv) -námskeiðin sem ég byrjaði með fyrir 10 árum. Það eru alltaf ný námskeið með frábærum kennurum hjá Improv skólanum. Það eru hinsvegar fjögur ár síðan síðasta sketsa-skrif námskeið var haldið.“

Hér er Dóra í hlutverki í Áramótaskaupinu.
Hér er Dóra í hlutverki í Áramótaskaupinu.

Hvað þarf fólk að hafa til að bera til þess að geta búið til sniðuga sketsa?

„Hugrekki fyrst og fremst. Húmor er okkur öllum náttúrulegur en við notum hann mis-mikið. Ég lærði sjálf lítið á fyrsta sketsa-námskeiðinu sem ég skráði mig á í New York fyrir mörgum árum, en ég mætti í fyrsta tímann og svo þorði ég ekki að mæta aftur þegar við áttum að mæta með sketsa sem við skrifuðum sjálf. Mér fannst allar hugmyndirnar mínar glataðar og fannst mér ekki detta neitt nógu sniðugt í hug. Sem betur fer skráði ég mig aftur seinna og píndi mig í að skila sketsum þótt mér þætti þeir alveg glataðir. Smám saman rjátlaðist fullkomnunaráráttan af mér og þessi vægðarlausi innri gagnrýnandi fékk að víkja fyrir öðrum mildari. Sketsa-skrif hjá mér snúast í dag að miklu leyti um samtal við meðhöfunda eða annað fólk og mikil endurskrif oft. Ég geri enga kröfu í dag um að fyrsta uppkast sé einu sinni fyndið, það þarf bara að vera eitthvað sem hægt er að vinna með, og það getur verið hvað sem er.“

Hér er Dóra í tökum á Áramótaskaupinu.
Hér er Dóra í tökum á Áramótaskaupinu.

Leynast grínarar víðar en við höldum?

„Ég er viss um það. Það þarf fjölbreyttar raddir í grín eins og í öll önnur listform svo hægt sé að endurspegla samfélagið allt. Grín getur verið svo sterkur miðill og í sketsa-forminu er hægt að varpa ljósi á mikilvæg málefni og sýna einhvern sannleika með óvæntum vinkli. Í gegnum húmor er algjörlega hægt að hafa áhrif, þó það sé ekki nema að strá einhverjum fræjum, og glaðir og hlæjandi áhorfendur eru móttækilegir og vilja hlusta. Svo er líka hægt að gera bara eitthvað algjört bull sem skiptir engu máli. Tilgangslaus fíflalæti eru líka mikilvæg.“

Dóra leikstýrði síðasta Áramótaskaupi Sjónvarpsins sem þótt á frekar fyndið. Þegar hún er spurð að því hvað gerði það að verkum segir hún að þau sem unnu að því hafi viljað hafa grín fyrir breiðan hóp.

„Við settum okkur það markmið í byrjun að reyna að gleðja sem flesta. En svo getur maður bara gert sitt besta og reynt að njóta vinnunnar. Það var mikill metnaður og vönduðum til verka en á endanum stýrir innsæið bara og heppilegt hvað það virtist ná tengingu við marga.“

Er eitthvað sem má alls ekki gera grín að í dag? 

„Það er alltaf einhver afstaða í gríni, eins og allri tjáningu, og maður þarf að vanda sig gagnvart áhorfendum eins og í öllum öðrum samskiptum. Það er auðvitað alltaf ljótt að meiða viljandi og það skiptir máli í hvaða stöðu fólk er, hver er að segja hvað um hvern, og hvort það sé verið að kynda undir fordómum og hatursorðræðu eða að tala niður til jaðarsettra. Grín getur hæglega líka verið ofbeldi. Ef grínið særir einhvern óvart þá finnst mér heilbrigt að biðja afsökunar og reyna svo að gera betur næst. Ég hef takmarkaða þekkingu á mörgu og reyni að vera meðvituð um mína forréttindablindu og fæ oft ráðgjöf ef ég er að fjalla um málefni sem ég hef ekki reynslu af sjálf.“ 

Sérð þú utan á fólki hvort það er fyndið eða ekki?

„Alls ekki. Fólk kemur mér stöðugt á óvart.“

Getur gott grín bjargað lífinu?

„Heldur betur! Grín er lífsnauðsynlegt verkfæri sem mannfólkið notar meðal annars til að losa um spennu. Við erum líklegast flest sammála að lífið væri óbærilegt ef það væri bara stanslaust drama.“

mbl.is