Vill slíta öllum kjaraviðræðum við SA

Vextir á Íslandi | 22. mars 2023

Vill slíta öllum kjaraviðræðum við SA

Eftir stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands í morgun upp á eitt prósentustig eru allar forsendur kjarasamninga brostnar. Slíta skal öllum kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins sem eru komnar af stað.

Vill slíta öllum kjaraviðræðum við SA

Vextir á Íslandi | 22. mars 2023

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands í morgun upp á eitt prósentustig eru allar forsendur kjarasamninga brostnar. Slíta skal öllum kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins sem eru komnar af stað.

Eftir stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands í morgun upp á eitt prósentustig eru allar forsendur kjarasamninga brostnar. Slíta skal öllum kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins sem eru komnar af stað.

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í pistli á Facebook.

„Það er orðið ljóst að Seðlabankanum mun á endanum takast að rústa íslenskum heimilum og þurrka upp alla aukningu á ráðstöfunartekjum heimilanna sem náðst hefur í kjarasamningum liðinna ára með þessari eyðileggingar-herferðar stefnu sinni,“ segir Vilhjálmur og bendir á að frá undirritun kjarasamninga í byrjun desember hafi vextir Seðlabankans hækkað um 1,75 prósentustig.

Hann segir vaxtahækkanirnar „virka ekkert öðruvísi en skýstrókur sem sogar burt allt ráðstöfunarfé heimilanna og færir til fjármagnseigenda og bankastofnanna“.

Mikil hækkun á vaxtabyrði heimila

Vilhjálmur nefnir að hækkun á vaxtabyrði heimila með breytilega húsnæðisvexti nemi tugum þúsundum og jafnvel vel á annað hundrað þúsund á mánuði. Ekki megi heldur gleyma „þeirri snjóhengju sem mun skella á þeim heimilum á næstum mánuðum sem eru með fasta vexti“.

Hann segir að við vaxtahækkanirnar komi í ljós „hin ofboðslega skaðsemi verðtryggingar enda munu viðskiptabankarnir vísa öllum lántökum sem ekki geta staðið skil á óverðtryggðum lánakjörum yfir í verðtryggð húsnæðislán. Með öðrum orðum Seðlabankinn myndi ekki geta hækkað stýrivextina svona mikið nema vegna þess að verðtryggð lán eru í boði “. 

Varpað á herðar almennings

Vilhjálmur heldur áfram og segir að Seðlabankinn slái enn og aftur skjaldborg utan um fjármagnseigendur og fjármálaöflin á kostnað almennings.

„Það er ekki bara að greiðslubyrði húsnæðislána sé að hækka gríðarlega heldur hefur allt annað hækkað mikið á liðnum misserum. Matvara, tryggingar, dagvistunargjöld, bifreiðagjöld, fasteignaskattar og svona mætti lengi telja,“ segir Vilhjálmur.

Hann bætir við að það sé sorglegt hvernig Seðlabankinn slátri ávinningnum sem talið var að hefði náðst í síðasta kjarasamningi „og því er það mitt persónulega mat að verkalýðshreyfingin eigi að slíta öllum viðræðum við Samtök atvinnulífsins sem eru komnar af stað enda tilgangslaust að vinna að langtímasamningi á sama tíma og allir varpa kostnaðarhækkunum á herðar launafólks, neytenda og heimila“.

mbl.is