Hættuleg leið og þörf á úrbótum

Ferðamenn á Íslandi | 23. mars 2023

Hættuleg leið og þörf á úrbótum

Markaðsstofa Vesturlands hefur verið að vinna að því í samstarfi við Hvalfjarðarsveit að efla innviði við fossinn Glym þar sem banaslys varð í gær.

Hættuleg leið og þörf á úrbótum

Ferðamenn á Íslandi | 23. mars 2023

Björgunarsveitarfólk að störfum við Glym í gær.
Björgunarsveitarfólk að störfum við Glym í gær. Ljósmynd/Landsbjörg

Markaðsstofa Vesturlands hefur verið að vinna að því í samstarfi við Hvalfjarðarsveit að efla innviði við fossinn Glym þar sem banaslys varð í gær.

Markaðsstofa Vesturlands hefur verið að vinna að því í samstarfi við Hvalfjarðarsveit að efla innviði við fossinn Glym þar sem banaslys varð í gær.

Skilti og leiðbeiningar um gönguleiðir að fossinum eru nú þegar á svæðinu, að sögn Margrétar Bjarkar Björnsdóttur, fagstjóra áfangastaða og markaðssviðs SSV, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.

„Sveitarfélagið hefur verið að reyna að laga til og gera úrbætur, en þetta er vinsæl gönguleið sem þyrfti að ná betur utan um,“ segir Margrét Björk.

Ljósmynd/Landsbjörg

Einskismannsland verður til

Hún bendir á að um einkaland er að ræða og hefur eigandinn ekki reynt að hagnast á komu ferðamanna þangað. Ferðamannastaðurinn er sjálfssprottinn ekki er hægt að loka aðgengi að fossinum sökum almannaréttar. Við þetta verður til eins konar einskismannsland þar sem óljóst er hver skuli sjá um hvað. Þetta er stóra vandamálið í ferðaþjónustunni, segir hún.

„Það hefur verið sótt um í framkvæmdasjóð ferðamannastaða á vegum sveitarfélagsins en það er dropi í hafið miðað við það sem þyrfti að gera, því leiðin er það hættuleg. Svo er ekki sama hvert er farið og einnig er þetta spurning um árstíma,“ greinir Margrét Björk frá.

Spurð segir hún fólk hafa slasast á þessari leið, þar á meðal fótbrotnað, en veit ekki til þess að dauðsföll hafi orðið. Hún hefur jafnframt ekki upplýsingar um hversu margir ferðamenn heimsækja Glym á ári hverju því engin taling þess efnis fari fram. 

Á meðal verkefna til að efla inniviði á svæðinu er að gera öryggisgreiningu á gönguleiðum, þ.e. kortleggja þær leiðir þangað sem björgunarsveitir hafa þurft að sækja slasað fólk.

Ljósmynd/Landsbjörg

Margrét Björk segir Markaðsstofu Vesturlands ekki hafa hvatt ferðamenn til að ferðast að Glymi, enda áhersla þar lögð á að stunda ábyrga kynningu. „Við viljum ekki markaðssetja og kynna staði sem eru hættulegir.“

Erfitt sé aftur á móti að hafa stjórn á því þegar staðir á borð við Glym eru kynntir á samfélagsmiðlum eða af ferðaþjónustufyrirtækjum.

Hafa reynt að loka aðgengi að Kirkjufelli

Hún nefnir að almannarétturinn sé ríkur á Íslandi. Til að mynda hafi verið reynt að bregðast við og loka aðgengi að Kirkjufelli í Grundarfirði vegna banaslysa sem þar hafa orðið. Mælst hefur verið til þess að fólk gangi ekki þangað upp á öllum árstímum en það hefur fengið misjöfn viðbrögð hjá ferðaþjónustuaðilum, segir hún.

mbl.is