Fangelsaður fyrir teikningu barns

Úkraína | 25. mars 2023

Fangelsaður fyrir teikningu barns

Lögreglan í rússneska bænum Jefremov, 320 kílómetra suður af Moskvu, hóf í fyrravor rannsókn á teikningu tólf ára gamallar stúlku, Mösju Moskalevu, í kjölfar þess er stjórnendur grunnskóla hennar tilkynntu lögreglu um teikningu barnsins sem augljóslega beindist gegn stríðinu í Úkraínu.

Fangelsaður fyrir teikningu barns

Úkraína | 25. mars 2023

Masja Moskaleva teiknaði mynd í skólanum sem strauk rússneskum yfirvöldum …
Masja Moskaleva teiknaði mynd í skólanum sem strauk rússneskum yfirvöldum rækilega andhæris. Ljósmynd/Úr einkasafni

Lögreglan í rússneska bænum Jefremov, 320 kílómetra suður af Moskvu, hóf í fyrravor rannsókn á teikningu tólf ára gamallar stúlku, Mösju Moskalevu, í kjölfar þess er stjórnendur grunnskóla hennar tilkynntu lögreglu um teikningu barnsins sem augljóslega beindist gegn stríðinu í Úkraínu.

Lögreglan í rússneska bænum Jefremov, 320 kílómetra suður af Moskvu, hóf í fyrravor rannsókn á teikningu tólf ára gamallar stúlku, Mösju Moskalevu, í kjölfar þess er stjórnendur grunnskóla hennar tilkynntu lögreglu um teikningu barnsins sem augljóslega beindist gegn stríðinu í Úkraínu.

Teikningin sýnir móður og barn á svæði þar sem úkraínskur fáni á stöng er áletraður „Dýrð sé Úkraínu“ en til hliðar er svæði auðkennt rússneskum fána með áletruninni „Nei við stríði“ og þaðan koma tvö flugskeyti fljúgandi í átt að Úkraínu.

Teikningin umdeilda sem hleypti öllu í bál og brand í …
Teikningin umdeilda sem hleypti öllu í bál og brand í fyrravor. Teikning/Masja Moskaleva

Það er bæjarfulltrúinn Olga Pódolskaja sem sýnir blaðamanni breska ríkisútvarpsins BBC mynd af teikningunni í síma sínum en til hennar leitaði faðir Mösju, Alexei Moskalev, í öngum sínum eftir að málið varð lögreglumál.

Uppeldi dótturinnar ábótavant

„Lögreglan fór að rannsaka samfélagsmiðla Alexei og sagði honum að uppeldi dótturinnar væri ábótavant,“ segir Pódolskaja um þessa atburði sem gerðust í apríl í fyrra, skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Í kjölfarið var Moskalev kærður og svo sektaður um 32.000 rúblur, jafnvirði rúmra 57.000 íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag, fyrir að níða skóinn af rússneska hernum. Auk þess var hann úrskurðaður í stofufangelsi sem þó er ekki endanleg refsing í málinu. Einstæði faðirinn hefur nú verið formlega ákærður og gæti átt fangelsisdóm yfir höfði sér fyrir að skrifa áróður gegn stríðinu á samfélagsmiðla.

Masja, sem nú er þrettán ára, var hins vegar tekin af heimilinu og komið fyrir á upptökuheimili fyrir börn og hefur faðir hennar ekki fengið að tala við hana síðan. „Enginn hefur séð Mösju síðan 1. mars,“ segir Pódolskaja bæjarfulltrúi við BBC og bætir því við að öllum umleitunum um að fá að komast í samband við hana á barnaheimilinu hafi verið hafnað.

„Rússnesk yfirvöld ætlast til að allir sýni hlýðni. Engum leyfist að hafa sína eigin skoðun. Sértu ósammála einhverjum, ekki lesa þá skrif hans á samfélagsmiðla. En ekki setja hann í stofufangelsi og barnið hans á vistheimili,“ segir bæjarfulltrúinn.

Vandræðin hófust með myndinni

Moskalev leyfist ekki að hafa samskipti við neinn í stofufangelsinu – utan lögfræðing sinn og þau yfirvöld sem halda honum föngnum. Lögmaðurinn, Vladimír Bilijenkó, kemur með mat og drykk sem aðgerðasinnar kaupa handa Moskalev.

„Hann hefur þungar áhyggjur af því að dóttir hans er ekki hjá honum,“ segir Bilijenkó við BBC, „allt í íbúðinni minnir hann á hana. Hann hefur áhyggjur af því hvað sé að gerast hjá henni.“

Hvernig telur hann að standi á þessari framkomu í garð feðginanna?

„Hefðu þeir einhverjar raunverulegar spurningar til að leggja fyrir föðurinn hefðu þeir boðað hann til skýrslugjafar. Þeir hefðu þá átt að boða Mösju líka og ræða við hana,“ svarar lögfræðingurinn.

„Hvorugt var gert. Þeir ákváðu bara að senda hana í burtu. Væri það ekki fyrir ákæruna í garð hans væri þetta ekki að gerast. Félagsmálakerfið virðist heltekið af þessari fjölskyldu. Ég held að það sé bara af pólitískum ástæðum. Vandræði fjölskyldunnar hófust þegar stúlkan teiknaði þessa mynd,“ segir Bilijenkó að lokum.

BBC
Global Voices
The Jerusalem Post

mbl.is