Díana var 11 ára á götunni og hjálpar nú öðrum

Edrúland | 28. mars 2023

Díana var 11 ára á götunni og hjálpar nú öðrum

11 ára var hún á götunni í Reykjavík. Um fermingaraldur var kerfið búið að gefast upp á henni og síðan hefur hún séð um sig sjálf. Í dag hefur hún lokið fimm háskólagráðum og doktorsvörnin er á næsta leiti.

Díana var 11 ára á götunni og hjálpar nú öðrum

Edrúland | 28. mars 2023

Díana Ósk Óskarsdóttir sjúkrahúsprestur þekkir það af eigin raun hvernig …
Díana Ósk Óskarsdóttir sjúkrahúsprestur þekkir það af eigin raun hvernig það er að eiga ekki samastað. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

11 ára var hún á götunni í Reykjavík. Um fermingaraldur var kerfið búið að gefast upp á henni og síðan hefur hún séð um sig sjálf. Í dag hefur hún lokið fimm háskólagráðum og doktorsvörnin er á næsta leiti.

11 ára var hún á götunni í Reykjavík. Um fermingaraldur var kerfið búið að gefast upp á henni og síðan hefur hún séð um sig sjálf. Í dag hefur hún lokið fimm háskólagráðum og doktorsvörnin er á næsta leiti.

Þessi magnaða kona heitir Díana Ósk Óskarsdóttir og er sjúkrahúsprestur, handleiðari og doktorsnemi við HÍ. Allt frá barnæsku hefur brennandi þörf fyrir að hjálpa fólki haldið henni gangandi og hún segir að sá sem öllu ræður haldi yfir henni verndarhendi. Steingerður Steinarsdóttir ræddi við hana fyrir Samhjálparblaðið.

Auk þess sem talið er upp hér að ofan hefur Díana Ósk starfað sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi á Teigi, Landspítala háskólasjúkrahúsi, sem fjölskylduráðgjafi Foreldrahúss og Vímulausrar æsku og hélt þar utan um fagstarf ráðgjafa samhliða því að vera dagskrárstjóri eftirmeðferðar og reka einnig eigin stofu um árabil.

Díana hefur líka lokið diplómanámi frá félagsráðgjafardeild HÍ í vímuefnamálum, hún hefur alþjóðleg réttindi sem ICADC fíkniráðgjafi, er félagi í fagsamtökunum IC&RC, hefur lokið klínísku námi í handleiðslufræðum frá félagsráðgjafardeild HÍ og situr í stjórn Handís, handleiðarafélags Íslands. Hún er einnig stundakennari við HÍ en eiginlega er of langt mál að telja upp allt það sem þessi kona hefur gert og því best að gefa henni sjálfri orðið. 

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

„Ég ólst upp hjá móður minni, konu sem hafði lifað tímana tvenna,“ segir hún. „Meðal annars hafði hún gefið frá sér elstu systur mína, þannig að þegar ég fæddist var mamma harðákveðin í að láta ekki frá sér þetta barn. Það var erfitt heima, bæði drykkja og ofbeldi áttu sér stað á heimilinu. Systir mín fæddist tveimur og hálfu ári á eftir mér og ég varð fljótt umönnunaraðili hennar. Fimm ára var ég orðin svo dugleg að ég hellti upp á kaffi, smurði samlokur, ryksugaði og þreif, sá um hlutina. Fór með hana á leikskóla en hafði sjálf ekki verið í leikskóla. 

Stundum var ekki til matur í lengri tíma og við vorum búnar að koma okkur upp kerfi. Ýmist gátum við farið til ömmu og afa niður á Norðurgötu á Siglufirði eða þrætt hús í hverfinu. Ég var búin að uppgötva rúnt á milli eldri kvenna í nágrenninu þar sem við gátum bankað upp á og fengið það sem í dag myndi kallast bröns eða síðdegiskaffi. Við dóum svo sem ekki ráðalausar, systur.

Þegar ég var um það bil fimm ára og systir mín rúmlega tveggja hafði mamma tekið saman við mann sem bjó í íbúð í húsi sem var áfast okkar. Hann var sonur hjóna sem voru kölluð trúbbarnir, það er stytting úr trúboðarnir. Þau voru með Hvítasunnukirkjuna Zíon á Siglufirði. Við tengdumst því þeirri fjölskyldu og fórum gjarnan í sunnudagaskóla í kirkjunni. Þau buðu einnig upp á hin ýmsu föndurkvöld og við tókum líka þátt í því. Mamma og þessi maður voru ekki saman nema í ár en við systur héldum áfram að hitta foreldra hans og fengum þar hlýju og skjól. Lærðum, að sjálfsögðu, um Jesú þar.“

Nefndi nafn Jesú og martröðin hvarf  

„Ég man alltaf eftir því að einhvern tíma höfðum við gist hjá þeim og ég hafði verið með miklar martraðir um nóttina,“ heldur Díana áfram.

„Lauga, eins og hún var kölluð, sagði þá: „Díana mín, mundu bara ef þig dreymir svona illa að ákalla Jesú. Segðu bara nafnið Jesú í draumnum og þá mun þetta hætta.“ Og það raunverulega virkaði fyrir mig og ég notaði það óspart. Ég var í raun hugfangin af Jesú og var strax þarna komin með mikla elsku til hans.“

Á þessum árum flakkaði fjölskyldan mikið milli Siglufjarðar og Reykjavíkur en Díana var fyrirmyndarbarn og aldrei til vandræða. Það breyttist um tíu ára aldur. 

„Ég var hluta úr ári í skóla á Siglufirði og hluta í Reykjavík þannig að ég festi aldrei beint rætur. Tíu ára var ég brot úr vetri í Austurbæjarskóla. Fram að því hafði ég verið hlédræg, hjálpsöm og alltaf með tíu í öllu í skólanum en þarna varð vendipunktur. Það fór að örla á öðru og ég fór inn í klíku og fór að taka þátt í slagsmálum og reiðin byrjaði að brjótast upp á yfirborðið. Mamma var á þessum tíma með manni sem hún hafði kynnst þegar ég var sjö ára. Það var ofbeldi á heimilinu á þessum árum.

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Ellefu ára tók ég þá ákvörðun að fara að heiman. Þá voru þau að skilja, stjúpi minn og mamma, og ég náði því í gegn að fara til Reykjavíkur. Ég skráði mig sjálf í Breiðholtsskóla.  En ég mætti auðvitað ekkert, var bara orðin götukrakki, þvældist um og svaf í hitakompum, í vinnuskúrum, inni á klósettum og í stigagöngum. Uppáhaldsstaðurinn minn var vinnuskúr við Hótel Borg. Þar var verið að gera endurbætur og þetta varð aðalgriðastaður minn. Þar voru svo margir vinnujakkar sem héngu á snögum í skúrnum og ég gat vafið mig í þá og fengið yl í kuldanum.

Ég var farin að læra á það hvenær þeir kæmu til vinnu karlarnir svo ég gat vaknað og hent jökkunum upp á snaga og látið mig hverfa áður en þeir komu. Þetta voru mín skilyrði þá. Já, hún er pínu róstursöm þessi ganga mín,“ segir Díana og brosir.

Kerfið gafst upp á fjórtán ára Díönu

Hún er merkilega yfirveguð þegar hún talar um þennan tíma en gatan í Reykjavík er varla æskilegur staður fyrir ellefu ára barn. Reyndi aldrei neinn að hlutast til um þín mál eða koma þér til bjargar?

„Ég byrjaði líka í neyslu þegar ég kom til Reykjavíkur,“ segir hún. „Í reiði minni þegar ég var tíu ára byrjaði ég að sniffa og fikta við að reykja en þarna var ég komin í daglega neyslu. Ég var tekin af lögreglunni og því sem kallað var útideildin. Það var fyrirbæri sem félagsþjónustan rak til að fylgjast með unglingum sem voru að þvælast niðri í bæ. Þau höfðu afskipti af mér og ég var sett nokkrum sinnum inn á Neyðarathvarf fyrir unglinga sem var á Kópavogsbraut 9. Ég man eftir fyrsta skipti sem ég vaknaði þar inni. Ég vissi ekkert hvar ég var, ég hafði verið svo út úr heiminum. Ég fann ristabrauðslykt og heyrði einhvern humma eitthvert lag með sjálfum sér.

Ég leit í kringum mig og hugsaði: guð minn góður, hvar er ég eiginlega? Hélt ég hefði lent í einhverju partíi en gekk fram og þar stóð maður og var að skera graflax niður á ristað brauð. Hann var svo hlýr og notalegur og það geislaði af honum. Ég var hins vegar skíthrædd og spurði hvert ég væri komin. Hann sagði mér hvar ég væri og bauð mér morgunmat. Ég settist niður með honum og við áttum saman góða stund en smátt og smátt rann upp fyrir mér að ég var læst inni. Mér leist ekki á það, kláraði morgunmatinn og fór inn í herbergi og ætlaði að brjóta rúðuna og fara út. Það reyndist hins vegar ekki hægt og ég hugsaði, vá þetta er alvöru fangelsi. En þarna byrjaði ég þá göngu að vera reglulega sett inn á Neyðarathvarfið og seinna inn á Unglingaheimili Reykjavíkur sem þá var við Kópavogsbraut 17.

Kerfið var eitthvað að reyna að eiga við mig en það gekk ekki vel; þeir réðu ekkert við mig. Ég var stöðugt í uppreisn, fékk aðra í lið með mér og reglulega voru tekin af okkur eiturlyf. Ég var næst sett á heimavistarskóla á Reykjum í Hrútafirði, hafði í raun hætt í skóla ellefu ára en var þarna komin um fermingu. Það var eitthvert nám á unglingaheimilinu en ég sinnti því ekki neitt og fékkst ekki til að læra neitt þarna heldur. Ég var alltaf upp á kant við kennarana og þeir ráku mig á endanum. Þar með var ég komin á götuna aftur og kerfið hætt að skipta sér af mér. Ég varð bara að sjá um mig sjálf og hef gert það síðan.“ 

mbl.is/Heiða Helgadóttir

Þráði venjulegt líf

Eiginlega er ekki hægt annað en verða reiður við tilhugsunina um svo ungt barn í þessum aðstæðum. Manni finnst að það hefði átt að vera hægt að gera meira, reyna að gera meira og eitthvað róttækt til að ná til þessa særða barns. Langaði þig ekki að komast út úr þessum aðstæðum?

„Jú, ég lifði þessu undirheimalífi og fór sextán ára í mína fyrstu meðferð. Ég á afmæli í nóvember og jólin og áramótin áður en ég fór inn á sautjánda aldursárið var ég á Staðarfelli. Ég þráði mjög heitt að verða edrú og eiga venjulegt líf. Hélt að ég yrði alltaf edrú eftir þessa fyrstu meðferð en bjó samt hvergi. Kom út og féll eftir tvær vikur í bænum og fór í mikla sprautuneyslu og var mjög týnd. Ég segi stundum að ég hafi búið meðal róna og dóna. Sumt af þessu fólki var mjög gott fólk en týnt en aðrir voru ekki góðar manneskjur.

Maður hefur lent í alls konar. En þarna byrjaði meðferðarsagan og ég fór inn og út úr meðferð, alltaf að reyna. Það var ekki fyrr en ég varð tuttugu og tveggja ára að sleitulaus edrúmennska mín hófst. Ég var ólétt sautján ára og rétt náði að verða átján áður en eldri stelpan mín fæddist. Þessi þrá eftir edrúmennsku var kviknuð en þá byrjaði baráttan fyrir alvöru því mig langaði svo að verða góð mamma. Ég gerði allt sem ég gat en bara náði ekki tökum á þessu. En á þessum tíma þegar ég var að berjast í bökkum með hana litla uppgötvaði ég að mörgum börnum í þessum heimi líður ekki vel. Margar vinkvenna minna voru í neyslu og ég fór að reyna að hlúa að börnunum þeirra þegar ég var í lagi. Náði í þau þegar þau voru í erfiðum aðstæðum og tók þau til mín.

Barnaverndarnefnd studdi að ég tæki þau, hefði þau hjá mér um helgar og kæmi þeim svo inn á Mánagötu á mánudögum þar sem var athvarf fyrir börn í þessum aðstæðum. En mér fannst ég hafa tilgang þegar ég var að hjálpa þeim. Eftir ákveðinn tíma áttaði ég mig hins vegar á að ég var að taka þau út úr erfiðum aðstæðum og skila þeim í þær aftur þegar þau voru búin að ná smávegis jafnvægi. Þá áttaði ég mig á að það voru mömmurnar sem þurftu hjálp.

Á sama tíma og þessi hugsun var að mótast í huga mér var ég alltaf að rísa og falla en 16. ágúst 1993 er fyrsti edrúdagurinn minn í þessari sleitulausu edrúgöngu sem ég á í dag. Ég hóf að stunda tólf spora samtök og við vorum að skipuleggja kvennaferðir. Ég var með þá hugsun í huga þá að styðja konurnar og styrkja til að verða betri griðastaðir fyrir börnin sín. Á þeirri vegferð og með það í huga að hjálpa konum fór ég að sjá að konurnar sem ég var að styðja voru allt of oft beittar ofbeldi af barnsfeðrum sínum eða eiginmönnum. Það varð til þess að ég skildi að það yrði að hjálpa þessum körlum. Þær eflast og styrkjast í kvennaferðum en fara svo heim og þá bara búmm, sprengja. Eitthvað og einhver þarf að hjálpa þessum mönnum, bara í raun allri fjölskyldunni. Þá fór mig að langa til þess að starfa sem ráðgjafi eða eitthvað slíkt. En hvernig átti ég að fara að því ég var ekki með neina menntun?“

Slógust með hnífum

„Ég giftist báðum barnsfeðrum mínum, þurfti undanþágu frá forseta til að giftast í fyrra skiptið, var bara sautján ára. Ég kynntist seinni barnsföður mínum um þetta leyti, hafði raunar kynnst honum lítillega þegar ég var rekin úr Reykjaskóla en við endurnýjuðum kynnin 1992. Heilsan gerði það að verkum að ég átti ekki mikla möguleika á að eignast annað barn, svo að seinni dóttir mín fæddist ekki alveg strax. Þar greip Guð inn í; eftir fyrirbæn á samkomu og svæðanudd frá ömmu mágs míns varð ég loks ólétt og gekk fulla meðgöngu.

Á þessum tíma var ég farin að átta mig á afleiðingum neyslunnar, ég hafði lengi þekkt ofbeldi og takt undirheima svo að ég þekkti ekki annan samskiptamáta. Fyrstu árin með seinni manninum slógumst við mikið og með hnífum. Ég var farin að sjá að þetta var ekki í lagi og reyndi að stíga út úr vítahringnum. Ég hafði hins vegar ekki hugmynd um hvað andlegt ofbeldi var, í mínum huga var það bara eitthvert væl. Smátt og smátt áttaði ég mig á einkennum þess og vildi það heldur ekki inn á mitt heimili. Ég vildi bara það besta fyrir mig og stelpurnar mínar. Þá var ég komin í andstöðu við manninn minn. Hann kom úr svipuðum farvegi og ég. Nú var ég hins vegar farin að setja mörk. „Það er ekkert ofbeldi í boði hér og við verðum bara að hætta þessu rugli og breyta um stefnu. Þú verður bara að ná alvöru edrúmennsku.“ Þetta voru bara of miklar kröfur af minni hendi til hans og hann réði ekki við það. Þetta endaði með því að ég fór í Kvennaathvarfið og sleit þessu sambandi.“ 

Lærði samskipti upp á nýtt

Þar með var Díana aftur orðin einstæð móðir og að þessu sinni með tvær stelpur. Hún fór að leita leiða til að vinna með sjálfa sig og bæta hæfni sína til að sinna þeim og eigin þörfum „Þær áttu hjá mér griðastað,“ segir hún.

„Það vantaði ekki, ég stóð alltaf með þeim en var bara í svo miklu rugli sjálf að ég kunni þetta ekki. Ég fór því að leita leiða til að verða tilfinningalegur griðastaður líka og finna leiðir til að þær gætu líka unnið úr því sem hafði komið upp á í uppeldinu og inni á heimilinu. Eftir að hafa sinnt sjálfri mér á þennan hátt, unnið með konum og hjálpað börnum í vanda fór ég að sjá að þörfin lá í að vinna með alla fjölskylduna. Þarna undir var ótti og sársauki í grunninn já, og fíkn.

Ég trúi því að púslmeistarinn okkar mikli, algóður Guð, hafi potað í mig þarna því það var hringt í mig og mér boðið starf áfengis- og vímuefnaráðgjafa á Teigi, sem var úrræði Landspítalans fyrir áfengis- og fíkniefnasjúklinga. Ég svaraði Percy, manninum sem hringdi í mig, blessuð sé minning hans, að ég þyrfti að spyrja Guð að þessu. „Ef það er það sem þú þarft að gera, gerðu það og láttu mig vita,“ svaraði hann. Og ég lagðist á bæn og fannst ég fá það svar að þetta væri eitthvað sem ég þyrfti að gera. Þarna var ég búin að læra heilmikið um samskipti, tilfinningalega úrvinnslu og uppeldi og hafði unnið mikið með sjálfa mig.“ 

Alvarlegt bílslys í Arizona

Díana hóf störf á Teigi og segir það hafa verið mikinn skóla fyrir sig og stelpurnar. Þarna var hún farin að vinna með alla fjölskylduna og henni fannst hún hafa höndlað draumastarfið. Hún var einnig farin að fá laun fyrir það sem hún hafði ávallt verið að gera ólaunað. Díana hafði náð að fara í Iðnskólann og klárað ígildi grunnskólaprófs og í kjölfarið klárað ritaraskólann. Hún hafði líka lokið stúdentsprófi frá FÁ og dúxað.

„Ég hafði klárað Ráðgjafaskólann og farið á einhver námskeið og geðlæknaþing sem ég var hvött til að sækja,“ segir hún. „Í raun og veru var ég eins og smíðanemi hjá meistara. Ég var að læra allt sem lærlingur í gegnum handleiðslu inni á Teigi. Síðar opnaði ég eigin stofu og rak hana meðfram minni vinnu og uppgötvaði í starfsferlinu að ég var alltaf bara með þyngslin og sorgina.

Ég var tilbúin að takast á við þungann með fólki og fann hjá mér köllun til þess en fann að mig langaði að víkka út tjaldhælana og ná til fleiri, ekki bara  fólks með fíknisjúkdóma eða aðstandenda þeirra. Mig langaði að ná til annars fólks sem líka væru að glíma við einhvers konar vanda. Auk þess langaði mig að taka þátt í gleði. Vegna þess að ég var trúuð og fannst þetta allt vera köllun frá Guði vildi ég fara í guðfræði en ég gaf mér engan tíma í það. Var heldur ekki alveg viss um að ég gæti það. Var ekki viss um að heilinn væri alveg í lagi.“

Díana hóf um þetta leyti störf í Foreldrahúsi og hafði á Teigi uppgötvað hvað fagleg handleiðsla skipti miklu máli. Hún skildi ekkert í því að engin handleiðsla fór fram þar og eins sá hún að talsvert vantaði á að hún væri veitt annars staðar í kerfinu. Þörfin fyrir aðstoð við fagfólkið var ekki síður brýn að hennar mati.  

„Fagfólkið sem sinnir fólki í vanda getur verið alls konar og með mismunandi grunn og ekki allir í stakk búnir til að takast á við afleiðingar af áföllum annarra (e. secondary trauma). Ég ákvað því að fara út til Arizona og læra hjá Piu Mellody, sem er einstaklega fær í meðvirknifræðum. Á síðasta deginum mínum þarna úti buðu vinir mínir mér með sér til Mexíkó. Við ætluðum að keyra þangað og eiga stund í sjónum. Við áttum frábæran dag í Mexíkó og báðum Guð um englavernd á leiðinni til baka en í miðri eyðimörkinni lentum við í slysi.

Bíllinn rúllaði út í eyðimörkina og ég hélt að við myndum öll deyja þarna en það var ekki áætlun Guðs. Fyrir hans mildi kom þarna að fjöldi fólks og okkur var bjargað. Ég kom heim en var í henglum eftir þetta. Komst ekki sjálf í sturtu og var sagt af læknum að sennilega endaði þetta með varanlegri örorku. Fyrst komst ég ekki á lappir en þegar það tókst fór ég að reyna að vinna en gat það ekki. Þá gafst rými til að fara í námið og ég skellti mér í guðfræði og gat fylgt köllun minni eftir.“ 

Eins og sniðin í starfið

Líklega geta flestir tekið undir að afrek þessarar konu eru mörg og stór og hún er hvergi nærri hætt. BA-prófið tók Díana á mun styttri tíma en flestir og bætti við sig tveimur meistaragráðum og tveimur diplómum. Nú er doktorsritgerðinni lokið, en hún fjallar um mikilvægi handleiðslu, og doktorsvörnin verður á næstunni. Tafir urðu á doktorsverkefni Díönu þegar hún ákvað að sinna frænda sínum sem var veikur af krabbameini en það var eftir andlát hans sem hún sá auglýsta stöðu sjúkrahúsprests.

„Mér fannst bara að öll reynsla mín og vegferð fram að þessu hefðu leitt að þessu augnabliki. Ég leit bara til himins og sagði: „Vá, ég skil núna hvað þú meintir með þessu.“ Og ég sótti um og fékk stöðuna. Í dag hef ég sinnt þessu í rúmlega fimm ár og finnst eins og ég hafi verið sniðin í þetta starf. Ég upplifi mig aldrei eina í þessu starfi. Guð er alltaf við hliðina á mér. Ég hef tekist á við flestallar þær kringumstæður sem geta komið upp í lífi fólks og bið Guð á hverjum degi að leiða mig og gefa mér það sem þarf til að vera verkfæri hans og fylla mig heilögum anda svo ég sé hæf í þetta. Í raun er engin manneskja hæf í þetta en ég sinni því af öllum þeim mætti sem mér er gefinn dag hvern.“ 

Díana er í hálfu starfi sjúkrahúsprests og í hálfu starfi í stuðnings- og ráðgjafateymi spítalans og heldur þar utan um starfsfólk sjúkrahússins. Nú er hún formaður þessa teymis.

En hvað hefðir þú þurft þegar þú varst barn á götunni til að komast þá út úr þeim slæmu aðstæðum?

„Hreinan kærleika,“ segir hún með áherslu. „Og hvað meina ég með því? Manneskjur sem ekki eru bara á klukkunni eða í vinnunni og nenna þessu varla. Barn skynjar þetta, ég skynjaði þetta. Öll árin sem ég var inni á unglingaheimilum og að hitta sálfræðinga og aðra sem tilheyrðu einhverjum batteríum skynjaði ég hvort fólk var þarna af heilum hug eða var bara í vinnunni. Sum höfðu líka eitthvert „hidden agenda“ eða falinn ásetning. Þau vildu fá eins konar viðurkenningu fyrir að hjálpa einhverjum vesalingi og sumir höfðu kynferðislegan áhuga á manni.

Þegar það er staðan er það staðfesting á að unglingurinn eða barnið getur ekki treyst neinum. En þegar ég hitti fólk með hreint hjartalag og raunverulegan kærleika snerti það við mér, eins og þegar ég hitti manninn sem var að skera graflaxinn á ristaða brauðið. Það fólk skapaði grunninn að því hjá mér að ég sá að til var gott fólk og hægt var að treysta einhverjum.

Ég tel líka alranga aðferð að sigta börnin út þegar þau sýna áhættuhegðun. Einangra þau sem vandann og leitast við að greina hjá þeim raskanir eða sjúkdóma. Það kann að vera að greining eða sjúkdómur sé undirrótin en það kann einnig að vera að vandinn liggi hjá foreldrum, heimilisástandi eða í umhverfi barnsins. Það þarf því að rýna í þær aðstæður áður. Ef þar er allt eins og það á að vera þá er það frábært, við búin að útiloka þá breytu og getum þá horft til barnsins. En þar sem við gerum það ekki getur verið að okkur yfirsjáist þau heimili sem þarfnast hjálpar,“ segir Díana að lokum.  

mbl.is