„Ég skírði næstum dóttur mína í höfuðið á Stellu í Orlofi“

Framakonur | 29. mars 2023

„Ég skírði næstum dóttur mína í höfuðið á Stellu í Orlofi“

Heiðdís Chadwick Hlynsdóttir, ung og upprennandi leikkona, fer með stórt hlutverk í nýrri íslenskri hrollvekju sem ber heitið Óráð og er væntanleg í kvikmyndahús hinn 31. mars næstkomandi.

„Ég skírði næstum dóttur mína í höfuðið á Stellu í Orlofi“

Framakonur | 29. mars 2023

Heiðdís Chadwick Hlynsdóttir, leikkona sem fer með hlutverk í nýju …
Heiðdís Chadwick Hlynsdóttir, leikkona sem fer með hlutverk í nýju íslensku hrollvekjunni, Óráð. Samsett mynd

Heiðdís Chadwick Hlynsdóttir, ung og upprennandi leikkona, fer með stórt hlutverk í nýrri íslenskri hrollvekju sem ber heitið Óráð og er væntanleg í kvikmyndahús hinn 31. mars næstkomandi.

Heiðdís Chadwick Hlynsdóttir, ung og upprennandi leikkona, fer með stórt hlutverk í nýrri íslenskri hrollvekju sem ber heitið Óráð og er væntanleg í kvikmyndahús hinn 31. mars næstkomandi.

Það var alltaf draumur Heiðdísar að fara í leiklistarnám og gera listgreinina að starfsferli sínum. Á menntaskólaárunum vann hún sem sundlaugavörður í Lágafellslaug og lagði fyrir hverja krónu svo hún gæti farið og lært leiklist erlendis. Hún útskrifaðist svo úr Copenhagen International School of Performing Arts árið 2021 eftir þriggja ára nám. 

Heiðdís er þessa dagana að sinna öðru hlutverki, en án efa því mikilvægasta sem nýbökuð móðir. Hún eignaðist hana Matthildi Móu fyrir fimm mánuðum með maka sínum, Böðvari Páli Ásgeirssyni, háskólanema í læknisfræði.

Blaðamaður mbl.is sló á þráðinn hjá Heiðdísi og ræddi við hana um lífið og tilveruna, leiklistarbrautina, bíómyndir, tísku og að sjálfsögðu upplifun hennar við tökur á hrollvekjunni Óráði.

„Það kemur mér alltaf á óvart að fá áheyrnarprufur“

„Sko, þetta gerðist í kringum þann tíma sem ég var að leika í Ófærð, seríu þrjú,“ segir Heiðdís á meðan dóttir hennar lætur aðeins í sér heyra. „Afsakaðu, hún hefur allt í einu mikla þörf fyrir að tjá sig.“

„Ég var í tökum í kringum 2020-2021 og stuttu seinna fæ ég að vita af áheyrnarprufunni fyrir Óráð. Ég fékk hana í gegnum umboðsmanninn minn, Árna Björn Helgason hjá Creative Artist Iceland,“ bætir hún við.

Heiðdís fékk áheyrnarprufuna fyrir hlutverk sitt í Óráði stuttu eftir að hafa lokið tökum við þáttaröðina Ófærð. Hún kom fram í sjö þáttum í þriðju þáttaröð og lék karakter að nafninu Dalla. Prufan fyrir hrollvekjuna Óráð kom henni skemmtilega á óvart enda ánægjulegt að ljúka einu verkefni og vita að það séu möguleikar á einhverju nýju og öðruvísi skömmu síðar.

„Það kemur mér allaf á óvart að fá áheyrnarprufur. En þetta kemur að sjálfsögðu alltaf skemmtilega á óvart. Ég er alltaf glöð að heyra af áheyrnarprufu.“

„Ég fékk hlutverkið frekar fljótt“

Arró Stefánsson, handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar Óráð, réð Heiðdísi stuttu eftir að hún sendi inn áheyrnarprufu fyrir hlutverkið. „Sko, við gerðum þetta bara í gegnum vídeó. Ég tók bara upp og sendi inn. Það gekk bara ótrúlega vel og ég fann strax hvað ég fílaði mig vel sem karakterinn Snædís. Ég gerði alla vega eitthvað gott þar sem ég fékk hlutverkið frekar fljótt,“ útskýrir hún.

Heiðdísi finnst gaman að leika ólíka karaktera og leita mismunandi leiða til þess að túlka þá. „Karakterinn minn í Óráði, Snædís er algjör fjölskyldukona, algjör klettur, bara mjög sterk kona. Það er svo gaman að fá að máta alls konar karaktera og þegar maður fær tvo á svipuðum tíma sem eru ótrúlega ólíkir þá gerir það upplifunina og ferlið svo ótrúlega skemmtilegt.“

Heiðdís í Kaupmannahöfn þar sem hún stundaði nám í leiklist …
Heiðdís í Kaupmannahöfn þar sem hún stundaði nám í leiklist við CISPA. Ljósmynd/Heiðdís Chadwick

Fyrsta kvikmyndahlutverkið

Heiðdís var mjög ánægð með upplifunina á kvikmyndasettinu og segist hafa lært heilmikið af leikstjóranum sem og mótleikurum sínum. „Arró gaf okkur mikið rými til að finna okkar leiðir til að koma frá okkur línum á okkar hátt eða eins og okkar karakterar myndu gera, sem var ótrúlega þægilegt.“

„Það hreyfði við mér að sjá Hjört leika. Ég varð oft hrædd með honum þegar hann var að leika og lifði mig mjög sterkt inn í það sem hann var að gera.“

Agnes Björk förðunarfræðingur sést hér undirbúa Heiðdísi fyrir tökur.
Agnes Björk förðunarfræðingur sést hér undirbúa Heiðdísi fyrir tökur. Ljósmynd/Heiðdís Chadwick

Erfiðara að horfa á hrollvekjur eftir að barnsburð

Heiðdísi fannst mjög gaman að fá að leika í hrollvekju. Óráð er fyrsta kvikmyndin sem hún leikur í, sú fyrsta með nafni og línum. Sjálf er hún þó ekki mikið fyrir hrollvekjur, sérstaklega eftir að hún varð móðir.

„Þegar ég var nýbúin að eignast Matthildi Móu var ég að horfa á hrollvekjuþætti á Netflix og þurfti að hætta snögglega þar sem ég var orðin rosalega viðkvæm fyrir því sem var í gangi.

Ein hrollvekja hafði samt ótrúlega mikil áhrif á mig þegar hún kom í bíó, Mother eftir Darren Aronofsky. Svo hef ég einnig horft á Black Swan eftir samnefndan leikstjóra, örugglega 15 sinnum og gæti horft á hana 100 sinnum í viðbót. Ætli það sé ekki uppáhalds hrollvekjan mín,“ segir hún.

Þrátt fyrir að vera lítið fyrir að hræðast yfir hrollvekjum er hún samt full tilhlökkunar til þess að hræðast aðeins á miðvikudaginn á forsýningunni. „Ég finn að ég er tilbúin núna, enda kominn tími til. Maður á líka bara stundum að leyfa sér að verða hræddur, það er bjartara úti núna og allt í lagi.“

„Æj, þetta er algjör klisja“

Heiðdís sækir innblástur til margra innlendra og erlendra leikara og finnst alltaf gaman að uppgötva nýja hæfileikaríka listamenn. Hennar helsta leiklistarátrúnaðargoð kemur kannski ekki mörgum á óvart enda uppáhald margra sem ein þekktasta og virtasta leikkona í heimi. „Þetta er svo mikil klisja en þú mátt líka bara segja að þetta sé klisja, en það er bara þannig. Það er ein sem hefur átt allt mitt hjarta og það er ... Meryl Streep,“ segir Heiðdís og hlær.

„Bekkurinn minn átti það til að gera grín af mér og minni ást á Streep en það sem mér finnst svo magnað í hennar karaktersköpun eru smáatriðin og „shapeshifter“ eiginleikinn. Þann eiginleika hefur Gary Oldman líka sem ég lít einnig mikið upp til. Annars las ég bókina hennar Sally Field og fékk hana á heilann. Næsta bók á listanum er bókin hennar Violu Davis, sem er annað sannkallað hæfileikabúnt.

Ég er líka mjög heilluð af íslensku leikkonunni Ragnheiði Steindórsdóttur, hún var svo mögnuð í þáttunum Vitjanir og ég límdist við skjáinn þegar hún mætti. Ég lít líka mikið upp til vina minna sem eru leikarar, eins og Henna vinkona mín, frá Finnlandi. Hún er ótrúlega góð í að berskjalda sig sem getur verið mjög erfitt fyrir margra leikara. Svo eru bara endalaust fleiri leikarar sem ég lít upp til en það tæki heila eilífð að nefna þau öll,“ segir Heiðdís.

Anna ásamt Hirti Jóhanni á kvikmyndasetti Óráðs. Hún fer með …
Anna ásamt Hirti Jóhanni á kvikmyndasetti Óráðs. Hún fer með hlutverk dóttur karaktera Heiðdísar og Hjartar. Ljósmynd/Heiðdís Chadwick

Leikkonan viðurkennir að hún sé algjör kvikmyndanörd sem á auðvelt með að tala um kvikmyndir og getur hún greint þær alveg niður í frumeindir. Hún elskar að horfa á þær en það er ein íslensk kvikmynd sem á sérstakan stað í hjarta hennar. „Stella í Orlofi. Ég elska Stellu í Orlofi. Ég skírði næstum því dóttur mína í höfuðið á Stellu í Orlofi, hún hét næstum því Stella.

Mamma sagði mér að það voru tvær kvikmyndir sem ég horfði alltaf á, aftur og aftur og það voru Konungur Ljónanna og Stella í Orlofi. En Stella í Orlofi er bara besta mynd í heimi og ég fæ alltaf nostalgíu-kast þegar ég horfi á hana.“

Ef Stella í Orlofi verður endurgerð er Heiðdís 100% klár til þess að tækla hlutverk Stellu. „Já, klárt mál. Ég kann hverja línu og ég nota þær dagsdaglega. Ég vitna í myndina á hverjum degi,“ segir hún.

Frumsýningarfötin klár

Heiðdís var í viðtali ásamt móður sinni, Hafdísi Óskarsdóttur, árið 2013 þar sem þær mæðgur ræddu um tískustrauma, sína persónulegu fatastíla og sýndu þjóðinni brotabrot af því sem var í fataskápunum. Í dag segir Heiðdís að stíllinn sinn sé orðinn þroskaðri. „Stíllinn minn hefur orðið meira minn, ég hef eignað mér hann meira á undanförnum árum. Það er meira sjálfsöryggi í því hvernig ég klæði mig í dag,“ segir hún. 

„Fyrir 10 árum var ég oftast í dekkri fötum en í dag þori ég meira að leika mér með liti, ég á það líka til að fá einhvern lit á heilann. Mér finnst einnig gaman að uppgötva nýja stíla og prófa mig áfram þar þó ég fari stundum að fylgja hópnum. Ég reyni þá að brjóta það aðeins upp með einhverju „Heiðdísarlegu“ eins og vinkonur mínar myndu segja,“ bætir hún við.

Leikkonan er heldur betur spennt að vera viðstödd forsýningu hrollvekjunnar Óráð á miðvikudaginn og byrjaði snemma að skipuleggja í hverju hún ætlaði að klæðast.

„Ég er mjög spennt að klæðast einhverju öðru en ljótri peysu með ælu á. Ég byrjaði bara strax að plana og vinkona mín ætlaði bara að koma með einhver föt. Ég vil helst nota föt sem ég á eða vinkonur mínar eiga. En ég fann dressið í gær og er mjög spennt.“

Heiðdís Chadwick Hlyndsdóttir er sjálfyfirlýst kvikmyndanörd sem á auðvelt með …
Heiðdís Chadwick Hlyndsdóttir er sjálfyfirlýst kvikmyndanörd sem á auðvelt með að greina senur niður í frumeindir. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna
mbl.is