Kaldasti vetur aldarinnar

Frost á Fróni | 3. apríl 2023

Kaldasti vetur aldarinnar

Liðinn vetur, þ.e. mánuðirnir desember til mars, var sá kaldasti sem herjað hefur á Reykjavík það sem af er þessari öld.

Kaldasti vetur aldarinnar

Frost á Fróni | 3. apríl 2023

Snjómokstur í Breiðholti í vetur.
Snjómokstur í Breiðholti í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Liðinn vetur, þ.e. mánuðirnir desember til mars, var sá kaldasti sem herjað hefur á Reykjavík það sem af er þessari öld.

Liðinn vetur, þ.e. mánuðirnir desember til mars, var sá kaldasti sem herjað hefur á Reykjavík það sem af er þessari öld.

Frá þessu er greint á veðurvefnum Bliku, þar sem segir að meðalhiti þessara fjögurra mánaða reiknist -1,4 gráður.

Kaldasti mánuðurinn var desember, þar sem meðalhitastigið var -3,9 gráður. Þá fylgdi janúar með -1,8 gráður. Í febrúar hlýnaði og var meðalhitinn 2,1 gráða, áður en aftur kólnaði svo að meðalhitastigið í mars var -1,6 gráður.

Svona var um að litast í höfuðborginni fyrr í vetur.
Svona var um að litast í höfuðborginni fyrr í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kaldara 1994-1995

Kaldara var í Reykjavík veturinn 1994-95.

„Þá var meðalhiti undir frostmarki alla vetrarmánuðina og reyndar líka snjóþungur vetur um mikinn hluta landsins,“ skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, sem heldur Bliku úti.

Bendir hann á að nýliðinn mars hafi verið óvenju þurr á alla mælikvarða, eða langt undir tíu millimetrum samtals í höfuðborginni.

„Til að finna einhvern almanaksmánuð með svo lítilli úrkomu þarf að fara aftur til 1971. Þá í júní. En af marsmánuðum var þurrara í Reykjavík í mars 1962 fyrir rúmlega 60 árum, með aðeins 2,3 mm,“ skrifar Einar.

Tíðin sker sig úr

„Tíðin í vetur sker sig mikið úr, einkum í samanburði við aðra vetur eftir að tók að hlýna hér á landi skömmu fyrir aldamótin. Bæði fyrir langa samfellda kuldakafla og ekki síður óvenju eindregin skil. Það hefur skipt um veðurlag svo að segja á einum tilteknum degi, nú síðast 30. mars.“

Segir Einar að fyrir utan um tíu daga um miðjan febrúar, með „eðlilegum“ hitasveiflum um frostmarkið, megi telja að tíðin hafi verið „úti á kantinum í margvíslegu tilliti“ í vetur.

„Og þau einkenni hófust reyndar fyrr eða með afbrigðilegum hlýindum í nóvember.“

mbl.is