Á framabraut og bíður eftir barni frá Kólumbíu

Framakonur | 8. apríl 2023

Á framabraut og bíður eftir barni frá Kólumbíu

Sara Martí Guðmundsdóttir, leikhússtjóri Tjarnarbíós, er kraftmikil og drífandi framakona sem er mörgum kunn úr íslensku leikhúslífi. Hún hefur starfað bæði sem leikkona og leikstjóri og á að baki margar sviðsuppsetningar. Ásamt þessum blómstrandi atvinnuferli sem Sara Martí hefur byggt upp er hún einstæð móðir og býr í miðbæ Reykjavíkur ásamt 11 ára gömlum syni sínum, Odin. Þá hefur hún staðið í ættleiðingarferli síðastliðin fimm ár til þess að stækka við fjölskylduna.

Á framabraut og bíður eftir barni frá Kólumbíu

Framakonur | 8. apríl 2023

Hér er Sara Martí á sjálfan útskriftardaginn frá Háskólanum á …
Hér er Sara Martí á sjálfan útskriftardaginn frá Háskólanum á Bifröst. Þaðan útskrifaðist hún úr menningarstjórnun. Ljósmydn/Sara Martí Guðmundsdóttir

Sara Martí Guðmundsdóttir, leikhússtjóri Tjarnarbíós, er kraftmikil og drífandi framakona sem er mörgum kunn úr íslensku leikhúslífi. Hún hefur starfað bæði sem leikkona og leikstjóri og á að baki margar sviðsuppsetningar. Ásamt þessum blómstrandi atvinnuferli sem Sara Martí hefur byggt upp er hún einstæð móðir og býr í miðbæ Reykjavíkur ásamt 11 ára gömlum syni sínum, Odin. Þá hefur hún staðið í ættleiðingarferli síðastliðin fimm ár til þess að stækka við fjölskylduna.

Sara Martí Guðmundsdóttir, leikhússtjóri Tjarnarbíós, er kraftmikil og drífandi framakona sem er mörgum kunn úr íslensku leikhúslífi. Hún hefur starfað bæði sem leikkona og leikstjóri og á að baki margar sviðsuppsetningar. Ásamt þessum blómstrandi atvinnuferli sem Sara Martí hefur byggt upp er hún einstæð móðir og býr í miðbæ Reykjavíkur ásamt 11 ára gömlum syni sínum, Odin. Þá hefur hún staðið í ættleiðingarferli síðastliðin fimm ár til þess að stækka við fjölskylduna.

„Ég er hálfur Íslendingur og hálfur Spánverji. Fædd í Barcelona, uppalin í Vesturbænum en ég myndi segja að ég hafi mótast sem manneskja í Hafnarfirði en þangað flutti ég þegar ég var níu ára gömul,“ segir Sara Martí þegar hún lýsir sjálfri sér og uppruna sínum.

„Ég lærði leikarann hér heima í Listaháskóla Íslands og lék í nokkur ár þar til ég flutti til London til að fara í leikstjórnarnám. Ég hef bróðurpartinn af fullorðinsárunum varið í að vera „freelance“ leikstjóri, sem ég elska að gera.“

Á hápunkti kórónuveirunnar, þegar leikhúsum var lokað og allri almennri menningarstarfsemi var hætt, tímabundið, sat Sara Martí heldur betur ekki verkefnalaus. „Ég notaði tímann í kórónuveirunni til að taka meistaragráðu í menningarstjórnun og starfa með það í dag sem leikhússtjóri Tjarnarbíó. Og af því að ég er hvatvís og fannst ég ekki hafa nóg fyrir stafni í kórónuveirunni þá skráði ég mig einnig í nám í innanhúshönnun, sem ég get sem betur fer tekið á eigin hraða.“

Leikhússtjórinn stoltur fyrir framan Tjarnarbíó.
Leikhússtjórinn stoltur fyrir framan Tjarnarbíó. Sara Martí Guðmundsdóttir

Foreldrar mínir alltaf hvatt mig áfram

Sara Martí segir að ástríða sín fyrir listum hafi byrjað í æsku þegar hún var búsett í Hafnarfirði. „Þar byrjaði ég í tónlist sem var merkileg lífsreynsla. Ég var í hljómsveit með góðum vinum og við gerðum samning við erlent plötufyrirtæki á sínum tíma og það var svo skemmtilegt ævintýri. Þar byrjaði ég líka í Leikfélagi Hafnarfjarðar sem var mjög öflugt þegar ég er unglingur sem kveikir í leiklistar-bakteríunni sem hefur fylgt mér alla tíð síðan.

Ég var alltaf listhneigð en það hefði ekkert orðið neitt úr því nema af því að það var til frjór jarðvegur fyrir það. Hafnarfjörður var á tímabili ótrúlegur menningarpottur þar sem ótal bílskúrsbönd hljómuðu frá ýmsum götum, Leikfélag Hafnarfjarðar var með aðstöðu til að sýna verk sín í Gamla bíó og það var verið að virkja alla þessa starfsemi í félagsmiðstöðinni, svo það var ótrúlega gaman að vera unglingur þarna á þessum tíma.“

Hver hvatti þig til að sækjast eftir ástríðu þinni?

„Foreldrar mínir hvöttu mig áfram til að prófa allt þar til ég fyndi ástríðuna mína. Svo er áhugavert að hugsa til baka, hvað það var sem varð til þess að ég fer inn í listirnar og það er einfaldlega af því ég hafði áhuga og það var hægt að rækta það.

Ég byrja í áhugaleikfélaginu, fer svo að vinna í Hafnarfjarðarleikhúsinu þegar það byrjaði og vann þar í tíu ár þar sem ég gekk í flest hlutverk eins og að vera aðstoðarmanneskja leikstjóra sem kveikti í þeirri ástríðu. Í leikhúsinu fékk ég líka að halda leiklistarnámskeið á hverju sumri fyrir unglinga og allt þetta er ómetanleg reynsla. Svo fékk ég líka stuðning frá leikhúsinu og öllu sviðlistafólkinu þar til að sækja um í leikarann.“

Með þetta lokatakmark

Sara Martí tók við leikhússtjórastöðu Tjarnarbíós síðastliðið sumar og frá þeim tíma hafa áhorfendur á sýningar þess aldrei verið fleiri.

Þegar þú hófst feril þinn innan leiklistarheimsins, ímyndaðirðu þér að þú myndir gegna forystuhlutverki í menningarstofnun á Íslandi? 

„Nei, það er í raun ekki svo langt síðan ég byrjaði að ímynda mér það. Það er næstum ómögulegt að vera í fullri vinnu sem „freelance“ sviðslistamanneskja á Íslandi. Maður þarf alltaf að vinna eitthvað með og ég hef verið heppin að geta að minnsta kosti unnið innan míns sviðs. Mig langaði að stækka það svið og það var þá sem ég ákvað að skrá mig í nám í menningarstjórnun og eftir útskrift sótti ég um þessa stöðu sem ég er í núna í dag.

Það var svo heppilegt að vera í náminu með þetta lokatakmark, að sækja um í þessa stöðu, því þá vann ég svo mikið að því að sækja mér svo mikla þekkingu innan þessa geira sem ég bý að í dag.“

Sara Martí ásamt syni sínum, Odin, sem er 11 ára …
Sara Martí ásamt syni sínum, Odin, sem er 11 ára gamall. Ljósmynd/Sara Martí Guðmundsdóttir

„Ef tækifærin gefast ekki, getur maður ekki vaxið“

Hvað var það sem hvatti þig til að sækjast eftir stjórnunarstöðu?

„Ég hef sett upp svo margar sýningar í Tjarnarbíó og ég elska húsið og ég elska það sem sjálfstæða sviðslistasenan skapar. Það er bæði hefðbundið en svo er það líka óhefðbundið. Mig langaði að gera þessu fallega húsi meiri skil og nýta betur plássið og mig langaði að berjast fyrir bættri stöðu fyrir leikhópana sem koma þarna inn. Hver einasti stjórnandi Tjarnarbíó hefur inn og lyft starfseminni hærra en það er óhjákvæmilegt því sviðslistasenan er að vaxa svo hratt.“

Hvaða þættir hafa eða geta haft áhrif á getu konu til að leiða aðra?

„Tækifæri. Ef tækifærin gefast ekki, getur maður ekki vaxið, hvort sem maður er kona, karl eða kvár. Þess vegna vil ég meina að ég hafi verið svo heppin með að alast upp í umhverfinu sem ég ólst upp í, því þar fékk ég þessi tækifæri.“

„Ég dey úr hungri ef ég fer ekki að hafa meira upp úr því“

Hverju langar þig að ná fram í einka- sem og atvinnulífinu?

„Ég er frekar sátt með staðinn sem ég er á lífinu, það er ekki eitthvað endatakmark með þessu. Ég þarf ekkert næsta skref eftir þessa vinnu. Næst vil ég kannski prófa að gera eitthvað allt annað, eins og að hanna hús fyrir aðra. Svo lengi sem ég fæ að skapa eitthvað er allt gott. Ég dey glöð ef ég fæ að halda áfram að þróa mig sem listamanneskja út lífið eins og ég hef fengið að gera hingað til. En ég dey úr hungri ef ég fer ekki að hafa meira upp úr því.“

Er eitthvað leyndarmál á bakvið velgengni þína?

„Þrotlaus vinna og auðvitað trú á sjálfri mér (þó sú trú komi og fari í bylgjum).“

„Líður best í Hvalfirðinum“

Þegar Sara Martí er ekki að sinna listrænum skyldum sínum finnst henni fátt skemmtilegra en að eyða tíma með syni sínum, Odni og ætla þau mæðgin að aftengja sig frá umheiminum yfir páskana og njóta tímans í bústað fjölskyldunnar í Hvalfirði.

Glæsilegt útsýni í fjölskyldubústaðnum í Hvalfirði.
Glæsilegt útsýni í fjölskyldubústaðnum í Hvalfirði. Ljósmynd/Sara Martí Guðmundsdóttir

Hvað gerir þú til að slappa af?

„Fer upp í bústað í Hvalfirðinum sem við fjölskyldan byggðum saman en ég fékk að hanna rýmið. Þar líður mér best. Ég notaði einmitt sumarhúsið sem verkefni í innanhúsnáminu sem ég byrjaði í fyrir einhverju og á vonandi eftir að klára einhvern daginn.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

„Allt sem er ótrúlega gott en tekur ekki lengra en 30 mínútur að undirbúa.“

Hver eru þín helstu áhugamál?

„Fyrir utan leikhús, hef ég áhuga á tónlist, hönnun og arkitektúr, mat, upplifunarhönnun og mannlegri hegðun. Svo hef ég mikinn áhuga á að hanga með 11 ára gamla syni mínum sem er ótrúlega skemmtilegur félagsskapur.“

Ljúf mæðgina stund með heimiliskettinum, Leó.
Ljúf mæðgina stund með heimiliskettinum, Leó. Ljósmynd/Sara Martí Guðmundsdóttir

Hvernig er að vera einstæð móðir og stjórnandi?

„Það er mjög krefjandi. Það krefst þess að forgangsraða og ákveða hvað maður getur og hvað ekki, sem er mjög erfitt fyrir mig því einhvern veginn held ég alltaf að ég geti allt, sem er alls ekki raunin en ég fatta það oft svolítið seint.

Nú er sonur minn reyndar orðinn 11 ára gamall svo hann er farinn að sjá meira um sig sjálfum, sem gerir þetta aðeins auðveldara en það er samt alltaf þessi þriðja vakt, fjórða vakt og fimmta vakt sem er erfið þegar maður getur ekki reitt sig á aðra til að grípa boltana. Þannig að ég er stöðugt að reyna að passa að vera ekki að halda á of mörgum boltum í einu. Það er kúnst. Stundum tekst það og stundum alls ekki.“

Við einstæðu foreldrarnir þurfum að sanna að við séum hæf

Sara Martí hefur staðið í ættleiðingarferli síðastliðin fimm ár þar sem hana hefur alltaf langað til að eiga tvö börn. Hún sótti námskeið hjá Íslenskri ættleiðingu árið 2018 og hefur frá þeim tíma unnið að því að stækka fjölskyldu sína.

Hvenær fórstu fyrst að velta fyrir þér ættleiðingu?

„Ég hef alltaf viljað eiga tvö börn. Meðgangan með son minn gekk alveg frábærlega og ekkert þar sem hafði áhrif á þetta val. Ég fór á fyrsta námskeiðið hjá Íslenskri ættleiðingu fyrir fimm árum og er enn í ferli. Nú er lagt upp úr því að foreldrar ættleiddra barna reyni að kynna börnin fyrir upprunalandi sínu svo þau eigi auðveldari aðgang ef þeim langar síðar meir að tengjast upprunanum.

Þar sem ég er hálfur Spánverji og spænskumælandi og Íslensk ættleiðing á í ættleiðingarsamkomulagi við eitt spænskumælandi land fannst mér það liggja í augum upp að ég myndi ættleiða frá Kólumbíu.“

 Af hverju hefur þetta tekið svona langan tíma?

„Þetta er búið að taka svo langan tíma og kórónuveiran setti auðvitað strik í reikninginn en aðallega er það samt því sýslumaður vill gera okkur foreldrunum sem sækja um ein, erfiðara fyrir en öðrum. Því við einstæðu foreldrarnir þurfum að sanna að við séum hæf umfram aðra. Það var alveg sama hvað barnavernd sem gerði skýrsluna um mig sýndi þeim fram á hversu hæf ég er, þá var þetta atriði sem fór fram og til baka og lengdi ferlið sennilega í hátt í tvö ár.“

Veistu hvenær ferlið klárast?

„Ég er komin inn í barnaverndarkerfið í Kólumbíu og bíð bara eftir að komast ofar á listann svo hægt sé að para mig við barn. Ég fæ alltaf fiðrildi í magann þegar þau frá skrifstofu Íslenskrar ættleiðingar hringja í mig, sem er gaman, ég er jafn spennt og fyrir fimm árum síðan. En hvenær barnið kemur, veit ég ekki. Í millitíðinni held ég bara áfram að lifa.“

„Ég hlakka til að stækka pínulitlu fjölskylduna mína

Sara Martí ásamt vinkonu sinni, Auði Ösp Guðmundsdóttur.
Sara Martí ásamt vinkonu sinni, Auði Ösp Guðmundsdóttur. Ljósmynd/Sara Martí Guðmundsdóttir

Það er heilmargt á döfinni hjá þessari flottu og drífandi móður og framakonu. 

Hvað er framundan?

„Að setja saman næsta leikár Tjarnarbíó sem lítur alveg ótrúlega vel út. Við breyttum framhúsinu okkar sem ég fékk að hanna með vinkonu minni, Auði Ösp Guðmundsdóttur og við bættum við litlu kabarett–sviði á kaffihúsinu okkar og þar hafa verið frábær uppistönd og fleira skemmtilegt sem hefur bætt í leikhúsflóru okkar. 

Við erum komin í metsöluár í Tjarnarbíó og við höfum aldrei fengið fleiri áhorfendur en þennan vetur. Það er svo hvetjandi og svo gaman að heyra hvað er mikil ánægja og spenna með verkin sem eru í gangi hjá okkur. 

Framundan er svo að klára innanhúshönnunarnámið. En mesta tilhlökkunin þessa dagana fellst í að bíða eftir barninu mínu. Vonandi fer að koma að því að ég fái barnið mitt sem ég hef beðið svo lengi eftir. Ég er reyndar búin að bíða eftir því barni frá því ég man eftir mér en ég er loks farin að sjá fyrir endann á því og ég hlakka til að stækka pínulitlu fjölskylduna mína.“

mbl.is