Alltaf tilbúin að takast á við nýjar áskoranir

Páskar | 8. apríl 2023

Alltaf tilbúin að takast á við nýjar áskoranir

Íþróttakonan Ólafía Kvaran ætlar ekki að slá slöku við um páskana enda góð hreyfing eins og slökun fyrir Ólafíu. Ólafía er ævintýrakona sem keppir í löngum og ströngum utanvegahlaupum með hindrunum. Hún þarf ekki bara að vera í góðu formi líkamlega, andlega hliðin þarf líka að vera upp á tíu. 

Alltaf tilbúin að takast á við nýjar áskoranir

Páskar | 8. apríl 2023

Íþróttakonan Ólafía Kvaran ætlar ekki að slá slöku við um páskana enda góð hreyfing eins og slökun fyrir Ólafíu. Ólafía er ævintýrakona sem keppir í löngum og ströngum utanvegahlaupum með hindrunum. Hún þarf ekki bara að vera í góðu formi líkamlega, andlega hliðin þarf líka að vera upp á tíu. 

Íþróttakonan Ólafía Kvaran ætlar ekki að slá slöku við um páskana enda góð hreyfing eins og slökun fyrir Ólafíu. Ólafía er ævintýrakona sem keppir í löngum og ströngum utanvegahlaupum með hindrunum. Hún þarf ekki bara að vera í góðu formi líkamlega, andlega hliðin þarf líka að vera upp á tíu. 

Páskarnir minna Ólafíu á að vorið og sumarið eru handan við hornið.

„Ætli ég geti ekki sagt að páskarnir séu vorboðinn minn. Það sem er einnig dásamlegt við páskana er að þeim fylgir ekkert vesen og stress eins og verður oft í aðdraganda jólanna og um jólin. Páskadagarnir eru tilvaldir til að gera alls konar skemmtilegt, borða góðan mat, vera með fjölskyldu og vinum, leika sér heilan helling og slappa af,“ segir Ólafía.

Ólafía Kvaran hræðist ekki nýjar og spennandi áskoranir.
Ólafía Kvaran hræðist ekki nýjar og spennandi áskoranir. mbl.is/Árni Sæberg

Verður að vera tilbúin í hvað sem er

Eitt það skemmtilegasta sem Ólafía veit er að ferðast til útlanda og keppa í spartan-hlaupum. Hún mun því nýta páskana vel til að æfa fyrir komandi áskoranir.

„Spartan-hlaup eru oftast utanvegahlaup með alls konar hindrunum á leiðinni sem reyna á líkamlegan og andlegan styrk, snerpu, fimi, þrautseigju og áræði. Ég æfi bootcamp og fer líka í strength & conditioning-tíma og stunda utanvegahlaup. Þetta þrennt saman passar vel fyrir mig til að halda mér í spartan-hlaupaformi. Síðan æfi ég aukalega vissar hindranir sem eru tæknilegri en aðrar eins og alls konar apastiga, klifur og spjótkast,“ segir Ólafía.

Ólafía segir fjölbreytileikann við íþróttina gera hana skemmtilega. Engin tvö hlaup eru eins og hindranirnar mismunandi. „Það er líka alltaf ákveðin óvissa varðandi hlaupaleiðina og hvaða hindranir verða hverju sinni vegna þess að kortið eða hlaupaleiðin og yfirlit yfir hindranir er ekki gert opinbert fyrir keppendur fyrr en einum til tveimur dögum fyrir hlaup. Þannig er spennan alltaf fyrir hendi í undirbúningnum og maður verður að gera ráð fyrir hverju sem er. Hversu mikil verður hækkunin, verður sund, verður minnispróf, hvernig liggur brautin og svo framvegis. Þessu er alltaf haldið leyndu þar til rétt fyrir hlaup og þá magnast spennan og maður liggur yfir leiðinni og hindrunum og gerir keppnisplan út frá því.“

Aldrei í boði að hætta

Íþróttin reynir gríðarlega á andlegan styrk. „Hlaupin og hindranirnar eru erfið og krefjandi fyrir hausinn. Það getur verið að maður sé að keppa í kulda, snjó, roki, rigningu, rennandi blautur frá toppi til táar eftir sund í vatni. Í þannig aðstæðum eru allar klifurhindranir sérstaklega erfiðar af því að maður er blautur, sleipur og kaldur. Ég hef líka keppt í algjörri andstæðu, í Abú Dabí í eyðimörk, í djúpum sandi, mjög háum sandöldum, steikjandi sól og hita. Þannig að ég myndi segja að aðstæður, veðurfar, undirlagið sem getur verið til dæmis stórgrýtt, gras, möl, sandur eða snjór hafa mikil áhrif á hvernig maður tæklar hlaupið andlega,“ segir Ólafía.

„Hugarfar mitt er þannig að ég geri alltaf mitt allra besta og það er aldrei í boði að hætta eða gefast upp og ekki klára. Þegar þessi litla rödd í hausnum fer að efast og leiðast þetta brölt á mér og segja mér bara að slaka á og hætta af því að hlutirnir eru orðnir erfiðir þá tala ég oft við sjálfa mig. Ég segi sjálfri mér hvað ég sé heppin að standa í þessu og hafa getuna til að klára svona hlaup. Ég einfaldlega hvet sjálfa mig áfram og gíra mig inn á að vera þakklát í leiðinni fyrir það að vera hraust og heilbrigð. Mikilvægast er að muna að brosa breitt þegar þér er farið að líða illa, og að gefa fólki fimmur í brautinni sem er að hvetja þig áfram virkar algjörlega fyrir mig til að halda andlegum styrk. Ég hef aldrei meðvitað þjálfað andlegan styrk. Ég tel að það gerist bara þegar maður tekur að sér krefjandi verkefni hvort sem það er á hinni daglegu lífsleið eða einmitt við það að ögra sér líkamlega og gera erfiða hluti. Mér finnst mikilvægt að vera alltaf tilbúin að prófa nýja hluti og segja einfaldlega já við nýjum og/eða krefjandi verkefnum sem maður fær upp í hendurnar.“

Hvað annað gerir þú til að hugsa um heilsuna?

„Ég borða hollan og næringarríkan mat. Kjöt, fisk, egg, kjúkling, grænmeti, ávexti, hnetur og fræ, hollar og góðar olíur eins og jómfrúarolíu. Ég er A-týpa og fer snemma að sofa. Ég vil ná að minnsta kosti sjö og helst átta tíma svefni og þá er ég góð. Síðan er alls konar sem ég geri til að halda mér, miðaldra íþróttakonunni, í standi. Við erum með innrauða gufu og heitan og kaldan pott heima, eins fer ég reglulega í nudd og til kírópraktors.“

Ætlar út að hreyfa sig með fjölskyldunni

Þrátt fyrir ofuríþróttina sem Ólafía stundar er tími til að borða smá súkkulaði. Páskaslökunin þarf hins vegar ekki að snúast um að liggja uppi í sófa.

„Það er slökun í því að fara út að hreyfa sig. Ég æfi pottþétt vel um páskana, mér finnst geggjað að nota frídaga í það að æfa og leika. Þá daga sleppur maður við það að halda góðu skipulagi eftir klukkunni til að ná inn hreyfingu dagsins. Ég fer bara í rólegheitum þegar mér hentar og mig langar til. Á frídögum er líka nefnilega tími til að slaka á eftir góða æfingu eða útiveru og finna hvað manni líður vel eftir að hafa tekið aðeins á því.“

Leyfir þú þér páskaegg eða annað góðgæti um páskana?

„Jájá, það geri ég að sjálfsögðu. Uppáhaldspáskaeggið mitt er venjulegt súkkulaðiegg frá Nóa-Síríusi, það er langbest.“

Ólafía segir páskana óskrifað blað hjá fjölskyldunni og fer dagskráin eftir veðri og vindum. „Ég er ekki að stressa mig mikið á gulum servíettum og skrauti. Við ákveðum yfirleitt hvað við ætlum að gera með stuttum fyrirvara og þannig verður það greinilega aftur í ár. Það er þó pottþétt að það verður borðaður góður matur. Fiskur á föstudaginn langa og lambalæri á páskadag. Annað kemur í ljós. Við stefnum síðan á að fara sem mest út að hreyfa okkur. Hlaupa, fara á fjallahjól og vonandi verður hægt að fara á skíði,“ segir Ólafía.

Það er nóg af skemmtilegum hlaupum fram undan hjá Ólafíu, stærsta verkefnið er hópferð í spartan-hlaup í Austurríki í september.

„Þetta er fimmta ferðin sem ég hef sett saman og mjög gaman að sjá að það fjölgar alltaf í hverri hópferð. Það er heldur betur að breiðast út hvað þetta er gaman og spennandi. Þrátt fyrir mikla vinnu í kringum svona skipulag gefur það mér mikið að setja saman þessar ferðir. Hjálpa fólki að undirbúa sig og æfa fyrir spartan-hlaupið á sem bestan hátt og sjá það í framhaldinu ná markmiðum sínum þegar það hoppar yfir eldinn við marklínuna. Allir svo glaðir og til í að gera þetta aftur. Það er einnig bónus að sjá hópinn vaxa og eignast alltaf fleiri og fleiri vini sem eru til í að taka þátt í þessum ævintýrum með mér.“

mbl.is