144 lokið Covid-meðferð – 40 á biðlista

Kórónuveiran Covid-19 | 16. apríl 2023

144 lokið Covid-meðferð – 40 á biðlista

Fjörutíu manns eru á biðlista á Reykjalundi vegna meðferðar við langvinnum veikindum af völdum Covid-19. Þessar beiðnir hafa borist á síðasta hálfa ári, flestar innan þriggja mánaða.

144 lokið Covid-meðferð – 40 á biðlista

Kórónuveiran Covid-19 | 16. apríl 2023

Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi.
Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi. mbl.is/Árni Sæberg

Fjörutíu manns eru á biðlista á Reykjalundi vegna meðferðar við langvinnum veikindum af völdum Covid-19. Þessar beiðnir hafa borist á síðasta hálfa ári, flestar innan þriggja mánaða.

Fjörutíu manns eru á biðlista á Reykjalundi vegna meðferðar við langvinnum veikindum af völdum Covid-19. Þessar beiðnir hafa borist á síðasta hálfa ári, flestar innan þriggja mánaða.

Samtals höfðu 144 einstaklingar lokið meðferð á stofnuninni í maí á síðasta ári.

Að sögn Stefáns Yngvasonar, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi, var meðferðin ekki skilgreind í samningum stofnunarinnar við Sjúkratryggingar Íslands en hún gat engu að síður boðið upp á hana vegna samkomutakmarkana á sínum tíma. Verkefninu lauk því í fyrra en hófst aftur í mars síðastliðnum.

20 í meðferð núna

Alls eru 20 manns í meðferð núna við veikindunum. Um er að ræða þjálfun og fræðslunámskeið í þrjá daga í viku í samtals sex vikur. 

„Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhald þessarar meðferðar, en það verður skoðað þegar núverandi meðferðarhópur hefur lokið meðferð,“ segir Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi, spurður út í meðferðina. 

Síðan Reykjalundur hætti að taka á móti sjúklingum vegna veikindanna í vetur héldu beiðnir þó áfram að streyma inn. „Við höfum reynt að koma því [fólkinu] fyrir inni í kerfinu hjá okkur en það er erfitt vegna þess að það eru biðlistar á öllum teymum á stofnuninni,“ greinir Stefán Yngvi frá en teymin eru átta talsins.

Hann bendir á að fólk geti einnig sótt um meðferð við langvinnum veikindum vegna Covid á Heilsustofnun NFLÍ í Hveragerði.

Þurfa að læra að slaka á

Spurður út í einkenni fólks með þessi langvinnu veikindi nefnir hann þreytu, mæði, úthaldsleysi, heilaþoku og stoðkerfisverki sem dæmi. Meðferðin snýst annars vegar um að byggja upp þol fólks á nýjan leik og hins vegar um að kenna fólki að setja sér mörk og markmið.

„Varðandi þreytuna og heilaþokuna snýst þetta um bjargráð eins og að læra að slaka á,“ segir Stefán og nefnir að núvitund sé meðal annars kennd.

„Fólk er ánægt með að fá tækifæri til að vinna með sjálft sig,“ bætir hann við.

Bólusetningar við Covid-19 í Laugardalshöll í janúar í fyrra.
Bólusetningar við Covid-19 í Laugardalshöll í janúar í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir bættu úthald sitt

Rannsókn var gerð á þolþjálfun fólks í endurhæfingu á Reykjalundi vegna Covid-19 veturinn 2021 til 2022. Samkvæmt niðurstöðum hennar bættu allir einstaklingar úthald sitt marktækt í hámarksáreynsluprófi í lok sjöttu viku. Áreynslumælingar við upphaf og lok sex vikna meðferðar sýndu m.a. hækkun á súrefnisupptöku, aukna andrýmd og lægri öndunartíðni.

Sex mínútna göngupróf var jafnframt mælt við innlögn og útskrift. Það sýndi árangur sem hélst enn þá við mælingu sex mánuðum eftir útskrift.

Reykjalundur.
Reykjalundur. mbl.is/Eggert

Þolinmæði mikilvæg

Stefán greinir frá því að efasemdir hafi verið uppi um hvort heilsusamlegt væri fyrir sjúklingana að reyna mikið á sig í meðferðinni, enda hafi sumir verið örmagna daginn eftir. „En þetta hefur gengið vel. Fólk hefur fengið sálrænan stuðning og fræðslu og innsýn í hvað það getur gert,“ segir hann og nefnir hversu mikilvægt sé að fólk sýni þolinmæði til að það geti komist aftur til fyrri starfa.

mbl.is