48 tímar í Stokkhólmi

Borgarferðir | 22. apríl 2023

48 tímar í Stokkhólmi

Stokkhólmur hefur upp á ótrúlegt margt að bjóða, hvort sem það er fyrir matgæðinga, listunnendur, söguþyrsta eða áhugafólk um tísku og hönnun.

48 tímar í Stokkhólmi

Borgarferðir | 22. apríl 2023

Stokkhólmur er lífleg og skemmtileg borg.
Stokkhólmur er lífleg og skemmtileg borg. Unsplash/Adam Gavlák

Stokkhólmur hefur upp á ótrúlegt margt að bjóða, hvort sem það er fyrir matgæðinga, listunnendur, söguþyrsta eða áhugafólk um tísku og hönnun.

Stokkhólmur hefur upp á ótrúlegt margt að bjóða, hvort sem það er fyrir matgæðinga, listunnendur, söguþyrsta eða áhugafólk um tísku og hönnun.

Hvort sem þú ert á leiðinni í frí með fjölskyldunni, í rómantíska helgarferð með makanum eða í verslunarferð með vinahópnum, þá eru þetta staðirnir sem þú ættir ekki að missa af

Að skoða

Gamla Stan

Gamla Stan er gamli bærinn í Stokkhólmi og einkennist af þröngum húsasundum, steinlögðum strætum, fallegum húsum og litlum torgum. 

Helsta kennileiti Gamla Stan er konungshöllin, sem stendur við Skeppsbron. Þaðan er fallegt útsýni yfir til Skeppsholmen og ef gengið er út af eynni, yfir Strömsbron, er komið að Kungsträdgården. Garðurinn er hvað þekktastur fyrir falleg kirsuberjablómatré sín sem blómstra á vorin og umlykja garðinn ljósbleikri hulu.

Þrengsta húsasund Stokkhólmsborgar má þar finna, Mårten Trotzigs gränd, sem er eingöngu 90 sentimetrar á breidd þar sem það er þrengst. Fyrir áhugafólk um fantasíubókmenntir og vísindaskáldskap má finna verslunina Science Fiction-bokhandel við Västerlånggatan 48, sem er eins konar sænsk útgáfa af versluninni Nexus hér á landi.

Gamla Stan.
Gamla Stan. Unsplash/Alexandre Van Thuan

List í neðanjarðarlestinni

Neðanjarðarlestarkerfi Stokkhólmsborgar er eitt stórt listagallerí. Af þeim 110 stöðvum sem tilheyra kerfinu eru yfir 90 þeirra skreyttar ýmsum listaverkum eftir um 150 listamenn.

Nánast allar stöðvarnar í og í kringum miðbæ Stokkhólms eru með listaverk til sýnis. Það er því auðvelt að nálgast þessa almenningslist, hvort sem hún er í formi höggmynda, málverka, innsetninga, mósaíkverka eða lágmynda.

Helstu stöðvarnar eru T-Centralen, Kungsträdgården, Rådhuset, Fridhemsplan og Solna Centrum.

Listaverk á einni af neðanjarðarlestarstöðvum borgarinnar.
Listaverk á einni af neðanjarðarlestarstöðvum borgarinnar. Unsplash/Max Avans

Að gera

Djurgården

Ef þér finnst gaman á söfnum er Djurgården frábær staður. Hvort sem þú vilt sökkva þér í sögu Svíþjóðar, dást að bókmenntaverkum Astridar Lindgren eða læra allt um hljómsveitina ABBA, þá finnur þú það á eyjunni Djurgården.

Þar er einnig að finna skemmtigarðinn Gröna Lund, þar sem meðal annars er hægt er að bruna um í rússíbana sem nær yfir stóran hluta garðsins. Á hverju sumri fer í gang tónleikaröð þar sem bæði erlendar og innlendar stjörnur stíga á svið. Tónleikarnir eru innifaldir í aðgangsmiðanum, svo ef þú ert á leiðinni til Stokkhólms að sumri til er um að gera að kíkja á dagskrána.

Gröna Lund skemmtigarðurinn.
Gröna Lund skemmtigarðurinn. Unsplash/Nicolas Nezzo

Sigling

Stokkhólmur er borg byggð á mörgum eyjum og því liggur það í augum uppi að skoða borgina frá vatni. Hægt er að fara í alls konar styttri skoðunarferðir þar sem hægt er að sjá helstu kennileiti borgarinnar. 

Ef þú ert til í að eyða aðeins meiri tíma í siglinguna er tilvalið að fara í skoðunarferð um skerjagarðinn sem umlykur borgina. Þar má sjá aragrúa af eyjum og skerjum af öllum stærðum og gerðum og á mörgum þeirra má koma auga á litla bústaði.

Einnig er hægt að nýta sér svokallaða bátastrætóa, sem er hluti af almenningssamgöngukerfi borgarinnar. Með því er hægt að slá tvær flugur í einu höggi og fá stutta skoðunarferð í kaupbæti á meðan þú kemur þér á milli staða.

SkyView-lyftan með útsýni yfir Stokkhólm

Hvað er betra en að fá gott útsýni yfir borgina sem þú ert að heimsækja? Með SkyView-lyftunni ferðast þú með eins konar glergondóla 130 metra upp á þak Avicii-hallarinnar í suðurhluta Stokkhólms. Þaðan er 360 gráðu útsýni yfir alla borgina og nágrannasveitir. 

Nálægt höllinni er Globen-verslunarmiðstöðin, þar sem finna má ýmsar verslanir og veitingastaði. Það er því auðvelt að gera góðan dag úr ferðinni.

Matur og drykkur

Café Blå Lotus, Södermalm

Lítið og krúttlegt kaffihús sem hefur verið í eigu sömu aðila síðan það opnaði árið 1995. Allur matur er útbúinn á staðnum og á hverjum degi er boðið upp á böku dagsins, salat dagsins og súpu dagsins. Einnig er hægt að fá bæði köld og heit smurbrauð, heimabakað bakkelsi og að sjálfsögðu kaffi.

Staðurinn er fullkominn fyrir hollan og góðan morgunverð eða hádegisverð. Einnig er hann tilvalinn fyrir hið eina og sanna sænska „fika“.

Koh Phangan, Södermalm og Östermalm

Einstaklega litríkur tælenskur veitingastaður sem er á tveimur stöðum, á Södermalm annars vegar og Östermalm hins vegar. Kvöldstund á staðnum er mikil upplifun, litríkir og ljúffengir kokteilar, fallega framreiddur matur og skemmtilegir básar í anda tælenskra tuk-tuk vagna. Til að toppa stemmninguna er slökkt á öllum ljósum reglulega á hverju kvöldi og þrumur og eldingar settar í gang, svo þér líður nánast eins og þú sért kominn til Tælands.

Matarmarkaðurinn við Hötorget

Fyrir matgæðinga er matarmarkaðurinn við Hötorget algjör paradís. Á efri hæðinni má finna ýmsa veitingastaði þar sem hægt er að setjast niður og fá sér snæðing. Á neðri hæðinni eru svo eins konar sölubásar, þar sem hægt er að versla ferskvörur líkt og fisk og kjöt, ásamt ýmsu öðru hnossgæti líkt og súkkulaði og sultur. Ef þú ert einn af þeim ferðamönnum sem tekur heim með þér minjagripi í formi matvæla er þetta hinn fullkomni staður.

Á hverjum sunnudegi er haldinn markaður á torginu fyrir utan, þar sem hægt er að versla ferskt grænmeti og ávexti.

mbl.is