Ákváðu í fæðingarorlofinu að gifta sig

Brúðkaup | 22. apríl 2023

Ákváðu í fæðingarorlofinu að gifta sig

Tónlistarkonan Greta Salóme Stefánsdóttir og unnusti hennar, Elvar Þór Karlsson, ætla að ganga í hjónaband eftir viku. Þau ákváðu dagsetninguna í febrúar og þrátt fyrir að undirbúningstímabilið hafi ekki verið langt hefur allt gengið eins og í sögu. 

Ákváðu í fæðingarorlofinu að gifta sig

Brúðkaup | 22. apríl 2023

Greta Salóme Stefánsdóttir ætlar að giftast ástinni sinni um næstu …
Greta Salóme Stefánsdóttir ætlar að giftast ástinni sinni um næstu helgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tónlistarkonan Greta Salóme Stefánsdóttir og unnusti hennar, Elvar Þór Karlsson, ætla að ganga í hjónaband eftir viku. Þau ákváðu dagsetninguna í febrúar og þrátt fyrir að undirbúningstímabilið hafi ekki verið langt hefur allt gengið eins og í sögu. 

Tónlistarkonan Greta Salóme Stefánsdóttir og unnusti hennar, Elvar Þór Karlsson, ætla að ganga í hjónaband eftir viku. Þau ákváðu dagsetninguna í febrúar og þrátt fyrir að undirbúningstímabilið hafi ekki verið langt hefur allt gengið eins og í sögu. 

„Við erum búin að vera trúlofuð síðan 2018 og svo kom covid og það allt. Það setti öll plön úr skorðum. Við eignuðumst lítinn strák í nóvember og ákváðum eiginlega núna í fæðingarorlofinu að henda í skyndibrúðkaup,“ segir Greta Salóme um stóra daginn sem er á næsta leiti.

Dagurinn 29. apríl varð fyrir valinu þar sem þau voru bæði spennt að gifta sig en einnig var ástæðan praktísk.

„Ég er að fara að spila svo mikið í sumar að það var hægara sagt en gert að finna helgi sem hentaði. Okkur langaði bara að drífa í þessu. Við vorum fyrst að pæla í að fara til sýslumanns eða til prests með okkar nánustu fjölskyldu en svo langaði okkur að gera aðeins meira úr þessu,“ segir Greta Salóme.

Greta Salóme með soninn Bjart Elí.
Greta Salóme með soninn Bjart Elí. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sterk tenging við brúðkaup mömmu og pabba

„Við vorum búin að fara fram og til baka með það hvernig við vildum gera þetta. Mig langaði í lítið brúðkaup og manninn minn langaði í stærra brúðkaup. Við ákváðum að fara milliveginn. Við verðum með svona 55 manns í brúðkaupinu. Við ætlum að fara upp í Mosfellskirkju sem er uppi í Mosfellsdal og gifta okkur þar. Við giftum okkur í sömu kirkju og mamma og pabbi giftu sig í árið 1976.“

Það verður ekki bara kirkjan sem tengir brúðkaup foreldra Gretu Salóme við brúðkaup hennar og Elvars, þar sem Greta Salóme ætlar að gifta sig í brúðarkjól móður sinnar.

„Þegar við fórum og sögðum mömmu og pabba að við værum búin að taka frá daginn þá segir systir mín: „Mamma, ertu ekki með brúðarkjólinn þinn hérna heima?“ Við ætluðum bara að máta hann til að gera grín að honum. Þetta var bara í einhverju djóki. Í minningunni var þetta kjóll sem ég hafði aldrei pælt í. Svo máta ég kjólinn og við einhvern veginn urðum öll orðlaus. Hann er bara fullkominn. Maðurinn minn segir strax að hann vilji að ég klæðist honum,” segir hún. Aðspurð segist hún ekki hafa áhyggjur af því að verðandi eiginmaður hennar sé búinn að sjá hana í kjólnum.

Brúðkaupið er aðeins minna í sniðum en mörg brúðkaup en Greta Salóme segir það bjóða upp á persónulegri fagnað og aðeins óhefðbundnari. Þegar þau skipulögðu daginn voru þau einnig með það í huga að frumburðurinn Bjartur Elí verður einungis nýorðinn fimm mánaða á brúðkaupsdaginn.

„Við erum með litla veislu og erum búin að leigja einkaherbergi á veitingastaðnum Eiriksson fyrir fjölskylduna. Svo verðum við með galapartí heima hjá okkur um kvöldið. Ég er með annan kjól fyrir partíið. Okkur langaði ekki að vera með sitjandi borðhald. Okkur langaði að gera þetta að okkar,“ segir Greta Salóme.

Hvað verður um soninn um kvöldið?

„Við erum svo róleg í djamminu foreldrarnir að hann ætlar bara að vera með okkur heima. Hann er svo mikill meistari í að sofa þannig að hann mun örugglega bara sofa vært. Okkur langaði bara að hafa hann með okkur allan daginn og um kvöldið líka. Þess vegna ákváðum við líka að gera þetta að okkar. Hann verður með í partíinu.“

Bjartur Elí er fyrsta barn foreldra sinna.
Bjartur Elí er fyrsta barn foreldra sinna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að gifta sig í fyrsta sinn en þaulvön á sama tíma

Greta Salóme játar að vera skipulögð og nýtist reynslan úr vinnunni í brúðkaupsundirbúningnum. „Það hjálpar alveg 100 prósent að ég er vön að setja upp stórar sýningar og tónleika. Það hjálpar að vera með þá reynslu. Ég er búin að vera í viðburðahaldi og viðburðastjórn síðan ég var unglingur,” segir Greta Salóme.

Á meðan sumt fólk tekur tvö ár í að skipuleggja hefur stuttur undirbúningurinn gengið ótrúlega vel hjá þeim Gretu Salóme og Elvari. „Við vorum búin að ákveða hvernig við vildum hafa hlutina í kirkjunni eins og að velja kirkjuna og velja prest. Þegar kirkjan, presturinn og kjóllinn er kominn þá er allt hitt svo auðvelt. Það var svo margt sem við vorum búin að ákveða og vorum sammála um,“ segir hún.

„Það er í rauninni fáránlegt hvað þetta hefur gengið vel upp. Við erum að gifta okkur í kirkju sem er ekki þéttbókuð en hún er lengst inni í dal og við erum með frekar lítið brúðkaup. Eins og ég segi þá var kjóllinn tilbúinn, ég þurfti ekki einu sinni að fara og velja mér kjól. Ég fór og mátaði fullt af kjólum en ég fór alltaf til baka í kjólinn hennar mömmu. Þessir hlutir sem tekur langan tíma að finna út úr voru bara komnir áður en við fórum af stað. Það munaði ótrúlega miklu,“ segir hún.

Þegar þau fóru að tala saman um hvað þau vildu fá út úr deginum kom í ljós að þau vildu persónulegan dag. Hún segir formið mögulega hafa kallað á aðeins minni undirbúning þó svo hún segi vissulega endalaust af hlutum sem þarf að pæla í. Parið er samstiga en líka duglegt að skipta á milli sín verkum. Greta Salóme segist ekki drekka áfengi og þó svo Elvar smakki sjaldan vín þá var hann fenginn til að velja áfengið, í staðinn fékk hún að velja kökuna.

Ætlar að leyfa öðrum að sjá um sönginn

Tónlistin skipar stóran sess í lífi fjölskyldunnar og segir Greta Salóme að þau hafi gefið sér góðan tíma í að velja tónlistina fyrir brúðkaupið. Þrátt fyrir að hún sé fagmanneskjan hefur verðandi eiginmaður hennar ekki síður skoðanir á tónlistinni.

„Maðurinn minn er bankamaður. Við erum alveg sitt á hvorum pólnum en hann hefur miklar skoðanir hvað hann vill þannig að ég fæ ekki alveg að ráða þessu sjálf. Við höfum þurft að leggjast yfir þetta og finna hvað okkur finnst báðum flott og finnst passa,” segir Greta Salóme.

Ætlar þú að syngja sjálf í athöfninni?

„Nei, ég ætla að vera í algjöru fríi frá því í brúðkaupinu. Ég held að ég gæti það ekki, ég myndi örugglega klökkna. Ragga Gröndal vinkona mín ætlar að koma og spila hjá okkur og Guðrún Árný ætlar líka að koma,“ segir Greta Salóme og segir aldrei að vita hvort boðið verði upp á meiri músík.

mbl.is