Bakaði brúðartertuna sjálf

Brúðkaup | 1. maí 2023

Bakaði brúðartertuna sjálf

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir, matarbloggari á Döðlur & smjör, og Gunnlaugur Már Briem, formaður Félags sjúkraþjálfara, gengu í hjónaband í ágúst í fyrra. Hjónin voru með sterkar skoðanir á hvernig kakan ætti að bragðast og fannst Guðrúnu ekki koma annað til greina en að baka tertuna sjálf.

Bakaði brúðartertuna sjálf

Brúðkaup | 1. maí 2023

Gunnlaugur og Guðrún með fjölskyldunni á brúðkaupsdaginn í fyrra.
Gunnlaugur og Guðrún með fjölskyldunni á brúðkaupsdaginn í fyrra. Ljósmynd/Halldóra Kristín

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir, matarbloggari á Döðlur & smjör, og Gunnlaugur Már Briem, formaður Félags sjúkraþjálfara, gengu í hjónaband í ágúst í fyrra. Hjónin voru með sterkar skoðanir á hvernig kakan ætti að bragðast og fannst Guðrúnu ekki koma annað til greina en að baka tertuna sjálf.

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir, matarbloggari á Döðlur & smjör, og Gunnlaugur Már Briem, formaður Félags sjúkraþjálfara, gengu í hjónaband í ágúst í fyrra. Hjónin voru með sterkar skoðanir á hvernig kakan ætti að bragðast og fannst Guðrúnu ekki koma annað til greina en að baka tertuna sjálf.

„Það var ekki erfitt að ákveða hvernig köku við vildum bjóða upp á en súkkulaðikakan mín með hindberjum og lakkrís hefur verið í uppáhaldi hjá okkur báðum lengi svo það var mjög einföld ákvörðun,“ segir Guðrún þegar hún er spurð út í brúðartertuna. Guðrún vissi líka hvað hún vildi þegar kom að útliti kökunnar. „Ég var ákveðin í því að vilja köku á hæðum sem væri ekki skreytt með ekta blómum líkt og hefur verið svo vinsælt heldur vildi ég að hún væri skreytt smjörkremsblómum.“

Guðrúnu fannst það spennandi verkefni að baka kökuna sjálf. „Ég vissi þó að ég vildi ekki að það yrði stress í kringum daginn sjálfan og var það ákvörðun alveg frá byrjun að ég ætlaði að baka kökuna og sjá um fyllingar en ætlaði ekki að setja hana saman eða skreyta, því það er verkefni sem þarf að gera stuttu fyrir brúðkaupið sjálft og þá er bara nóg að gera hjá brúðinni,“ segir Guðrún sem bakaði brúðartertuna í vikunum fyrir brúðkaupið í rólegheitunum og frysti jafnóðum.

Guðrún fékk Katrínu á Instagram-síðunni Katrínbakar til liðs við sig og segir hana hafa verið algjörlega frábæra í samstarfi þeirra. „Ég hafði samband við hana á Instagram og við hittumst mánuðum fyrir brúðkaupið og fórum yfir mínar hugmyndir og útfærslur. Svo héldum við sambandi þangað til leið að deginum. Hún var búin að teikna upp skissu af kökunni og allt svo frábærlega vel að þessu staðið af hennar hálfu. Svo á föstudeginum þegar við komum og skreyttum salinn mætti hún og setti kökuna saman og skreytti. Hún var nákvæmlega það sem ég hafði óskað mér.“

Brúðartertan var glæsileg en Guðrún fékk góða hjálp frá Katrínbakar.
Brúðartertan var glæsileg en Guðrún fékk góða hjálp frá Katrínbakar. Ljósmynd/Halldóra Kristín

Naut sín í botn í gömlum kjól á dansgólfinu

Það var ekki bara kakan sem var eins og hjónin óskuðu sér. Guðrún segir daginn í heild sinni hafa verið frábæran og hún á erfitt með að velja eitt augnablík.

„Við giftum okkur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og þar sem við búum stutt frá, þá labbaði ég í kirkjuna með pabba mínum, vinkonum og stelpunum okkar, það var algjörlega dásamleg upplifun. Athöfnin var ótrúlega falleg og lífleg. Veislan var svo haldin í Sjónarhól, sal FH.

Þegar við fórum af stað í að plana þennan dag, þá hugsuðum við að við óskuðum okkur dags þar sem við myndum horfa til baka og hugsa vá hvað var gaman! og það stóðst! Við ákváðum snemma í ferlinu að hafa hljómsveit og það gerði kvöldið en hljómsveitin sem spilaði hjá okkur var Í nýju fötum keisarans. Það var svo gaman, mikið dansað, maturinn frábær, veislustjórarnir frábærir, allt gekk svo vel upp og upplifunin okkar af deginum var allt sem við óskuðum okkur.“

Var eitthvað sem kom skemmtilega á óvart?

„Það var ýmislegt sem kom upp á þennan dag en ekkert sem hafði nein áhrif og gerði daginn bara skemmtilegri og eftirminnilegri. Ég hafði keypt mér hvíta strigaskó til að dansa í um kvöldið en lét mér ekki detta í hug að skipta um kjól en þegar að deginum kom fann ég það að ég myndi seint dansa í þessum kjól og bað mömmu mína að grípa eina hvíta kjólinn sem ég átti heima hjá mér sem var 3.000 króna H&M-kjóll og það var kjóllinn sem ég skipti yfir í um kvöldið og naut mín í botn í honum og strigaskóm. Því átti ég svo sannarlega ekki von á!“

Ertu með góð ráð fyrir brúðhjón?

„Ég held að það sé mikilvægast að fara inn í svona dag og hugsa hvað finnst okkur skipta máli, hvað finnst okkur gaman, fallegt og gott. Það gaf mér svo mikið þegar fólk kom til okkar eftir brúðkaupið og fannst við skína svo í gegnum allt, frá skreytingum, yfir í mat og skemmtun.“

Ljósmynd/Halldóra Kristín
mbl.is