Ekki vön að vinna neitt af þessari stærðargráðu

Ferðaráð | 6. maí 2023

Ekki vön að vinna neitt af þessari stærðargráðu

Fyrir tæplega einu ári síðan eða hinn 19. maí 2022 hringdi síminn hjá Söndru Dís Sigurðardóttur. Hún missti af símtalinu en hringdi til baka skömmu síðar og þá svaraði enginn annar en Birgir Jónsson, forstjóri Play. Hann tilkynnti Söndru Dís að hún hefði unnið „gullna miðann“ í gjafaleik flugfélagsins og gæti því flogið frítt á alla áfangastaði félagsins í heilt ár. 

Ekki vön að vinna neitt af þessari stærðargráðu

Ferðaráð | 6. maí 2023

Sandra Dís Sigurðardóttir vann
Sandra Dís Sigurðardóttir vann "gullna miðann" í gjafaleik PLAY á síðasta ári og hefur ferðast víða síðastliðið árið. Samsett mynd

Fyrir tæplega einu ári síðan eða hinn 19. maí 2022 hringdi síminn hjá Söndru Dís Sigurðardóttur. Hún missti af símtalinu en hringdi til baka skömmu síðar og þá svaraði enginn annar en Birgir Jónsson, forstjóri Play. Hann tilkynnti Söndru Dís að hún hefði unnið „gullna miðann“ í gjafaleik flugfélagsins og gæti því flogið frítt á alla áfangastaði félagsins í heilt ár. 

Fyrir tæplega einu ári síðan eða hinn 19. maí 2022 hringdi síminn hjá Söndru Dís Sigurðardóttur. Hún missti af símtalinu en hringdi til baka skömmu síðar og þá svaraði enginn annar en Birgir Jónsson, forstjóri Play. Hann tilkynnti Söndru Dís að hún hefði unnið „gullna miðann“ í gjafaleik flugfélagsins og gæti því flogið frítt á alla áfangastaði félagsins í heilt ár. 

Sandra Dís segir í samtali við Ferðavef mbl.is að síðasta ár hafi verið eftirminnilegt. 

„Ég vann miðann 19. maí og var mætt til Kaupmannahafnar fimm dögum seinna. Það var algjörlega yndislegt að komast í stutt stopp í góða veðrið sem þar er að finna,“ segir Sandra Dís.

Í fyrra þegar Sandra Dís hlaut vinninginn var Play að fagna því að eitt ár væri liðið frá því þau hófu almenna miðasölu. Í tilefni þess gáfu þau einn „gullinn miða“ og datt Sandra svo sannarlega í lukkupottinn enda að eigin sögn ekki vön því að vinna neitt af þessari stærðargráðu. 

Sandra Dís er sjálfstætt starfandi innanhússarkitekt og lýsingarhönnuður sem elskar að ferðast um Ísland sem og erlendis og skoða heillandi heima, töfrandi náttúru, fallegan arkitektúr og byggingar sem gefa henni innblástur í vinnu sinni. Hún er gift Davíð Heimi Hjaltalín og eiga þau saman tvo drengi, Heimi Elí og Sigurð sem einnig hafa dálæti á ferðalögum. 

Sandra Dís ásamt fjölskyldu sinni í Toskana.
Sandra Dís ásamt fjölskyldu sinni í Toskana. Ljósmynd/Sandra Dís Sigurðardóttir

„Ég hef reynt að nýta miðann eins mikið og ég mögulega get. Ég hef verið að fara með manninum mínum, vinkonum og líka ein. Ég hef farið sex sinnum á miðanum frá því ég vann en svo vorum við fjölskyldan búin að bóka eina ferð með Play til Bologna um sumarið áður en ég hreppti „gullna miðann“Þannig að ég er búin að fljúga sjö sinnum með þeim á þessu eina ári,“ segir Sandra Dís.

Sandra Dís hafði um 25 spennandi og ólíka áfangastaði Play að velja. „Ég er búin að fara tvisvar sinnum til Kaupmannahafnar, tvisvar til Alicante, einu sinni til Lundúna og tvisvar til Bologna þar sem við ferðuðumst svo um Ítalíu.“

Sandra Dís ásamt eiginmanni sínum, Davíð Heimi í Flórens.
Sandra Dís ásamt eiginmanni sínum, Davíð Heimi í Flórens. Ljósmynd/Sandra Dís Sigurðardóttir

Allar ferðirnar áttu sín einstöku augnablik

„Ég hef tvisvar ferðast ein á þessu tímabili. Fyrst til Kaupmannahafnar þegar ég var nýbúin að vinna miðann þar sem ég varð bara að komast út fyrst það var í boði þó svo ferðin væri stutt. Svo fór ég í aðeins lengri ferð, ein, þegar ég ferðast til Bologna og tók lest þaðan til Mílanó,“ segir Sandra Dís.

„Ég bjó í Mílanó þegar ég var í háskólanámi og var því mjög gaman að komast þangað aftur og skoða allar hönnunarverslanirnar. Þar gat ég verið ein að dunda mér við að skoða falleg húsgögn og innréttingar,“ bætir hún við.

Þótt allar ferðirnar hafi átt sín einstöku augnablik segir Sandra eftirminnilegustu ferðina hafa verið til Bologna. „Við fjölskyldan fórum ásamt stórum vinahópi og börnunum þeirra. Þá keyrðum við frá Bologna í hús sem við vorum búin að leigja okkur saman í Toskana og áttum æðislegan tíma saman þar,“ rifjar Sandra Dís upp.

Vinahópurinn ásamt börnum í húsinu sem þau leigðu í Toskana.
Vinahópurinn ásamt börnum í húsinu sem þau leigðu í Toskana. Ljósmynd/Sandra Dís Sigurðardóttir

„Við vorum líka dugleg að ferðast um svæðið og skoða alla fallegu bæina þar í kring. Bologna er frábær staður til að fljúga til og ferðast svo þaðan um Ítalíu. Þetta er einnig mjög skemmtilegur bær og tilvalið að kíkja þangað í helgarferð,“ segir Sandra Dís.

„Það hefur líka bara verið frábært að ferðast með Play. Vélarnar eru mjög góðar og það er mikil fjölbreytni áfangastöðum. Ég viðurkenni þó að ég hafi ekki náð að ferðast til eins margra staða og ég hefði viljað á þessu ári.“

Hjónakornin að njóta sín í Kaupmannahöfn fyrir jólin.
Hjónakornin að njóta sín í Kaupmannahöfn fyrir jólin. Ljósmynd/Sandra Dís Sigurðardóttir

Elskar Ítalíu en kolféll fyrir Nice

Áður en Sandra Dís datt í lukkupottinn hjá Play var hún búin að vera ansi dugleg að skoða heiminn bæði ein og ásamt fjölskyldu sinni og vinum. „Það eru svo margar borgir sem ég elska. Þær eru margar í Ítalíu sem standa upp úr. Flórens og Róm eru ótrúlega fallegar og það er alltaf gaman að koma þangað. Mílanó er einnig í sérstöku uppáhaldi hjá mér vegna þess að ég bjó þar í þrjú ár og átti svo ótrúlega góða tíma þar,“ segir Sandra Dís.

„Svo kolféllu ég og maðurinn minn alveg fyrir Nice í Suður–Frakklandi og bæjunum þar í kring þegar við fórum þangað í sumarfrí nýlega. Síðastliðin tvö ár hef ég líka farið til Kaupmannahafnar í desember. Það er æðislegur tími til að heimsækja borgina og komast í jólaskap,“ bætir hún við.

Sandra Dís heimsótti Japan og heillaðist af þeirri þjóð- og borgarmenningu sem þar þrífst en varð sömuleiðis fyrir mesta menningarsjokkinu þar í landi. „Ef fólk hefur tækifæri til þess að heimsækja Tókýó og Kýótó einhvern tímann á lífsleiðinni þá mæli ég eindregið með því að fara til Japan. Að sjá öfgarnar í öllu sem þeir gera og hugmyndaflugið sem þeir hafa,“ segir Sandra Dís.

Það er einn mánuður eftir af fríu flugi á „gullna miðanum“ og langar Söndru Dís að koma einni lokaferð þar að en er óviss um áfangastaðinn. Hún og fjölskylda hennar ætla þó ekki að taka ferðahlé þegar gildistími miðans rennur út. „Nei, heldur betur ekki. Ég og maðurinn minn eigum bókaða ferð með Play til Toronto í október.“

mbl.is