Voru 12 ára þegar þau sáu hvort annað fyrst

Brúðkaup | 6. maí 2023

Voru 12 ára þegar þau sáu hvort annað fyrst

Það var mikið stuð í Vestmannaeyjum þegar Arna Sif Pálsdóttir, grafískur hönnuður á Hér & Nú, og Þorkell H. Sigfússon söngvari gengu í hjónaband í fyrra. Stemningin hófst strax á föstudagskvöldinu þegar boðið var í grillveislu í hesthúsi sem er í eigu fjölskyldu Örnu.

Voru 12 ára þegar þau sáu hvort annað fyrst

Brúðkaup | 6. maí 2023

Þorkell og Arna Sif nýgift.
Þorkell og Arna Sif nýgift. Ljósmynd/Dóra Dúna

Það var mikið stuð í Vestmannaeyjum þegar Arna Sif Pálsdóttir, grafískur hönnuður á Hér & Nú, og Þorkell H. Sigfússon söngvari gengu í hjónaband í fyrra. Stemningin hófst strax á föstudagskvöldinu þegar boðið var í grillveislu í hesthúsi sem er í eigu fjölskyldu Örnu.

Það var mikið stuð í Vestmannaeyjum þegar Arna Sif Pálsdóttir, grafískur hönnuður á Hér & Nú, og Þorkell H. Sigfússon söngvari gengu í hjónaband í fyrra. Stemningin hófst strax á föstudagskvöldinu þegar boðið var í grillveislu í hesthúsi sem er í eigu fjölskyldu Örnu.

„Við höfðum vitað hvort af öðru frá 12 ára aldri vegna sameiginlegra vina en kynntumst ekki persónulega fyrir en eitt gott kvöld í Reykjavík þegar við vorum komin með lögaldur,“ segir Arna um hvernig þau Þorkell kynntust.

Arna var alltaf harðákveðin í því að gifta sig í Vestmannaeyjum. „Ég fæddist í Eyjum og megnið af minni fjölskyldu er þaðan þannig að þegar við Þorkell kynntumst tilkynnti ég honum að ég hefði alltaf hugsað mér að gifta mig í Eyjum,“ segir Arna. Þorkell var sammála um að gifta sig utan höfuðborgarsvæðisins.

„Við ólumst bæði upp erlendis þar sem hefðin er að gestir koma saman daginn fyrir brúðkaupið og blanda geði. Okkur fannst það algjörlega frábært vegna þess að þá þekkjast fleiri og stemningin betri á daginn sjálfan. Við héldum því grillveislu á föstudagskvöldinu með lopapeysu- og hattaþema. Okkur þótti vænt um að geta boðið gestum upp á öðruvísi upplifun og því var partíið í hesthúsinu og við grilluðum í tunnum á túninu þar sem útsýni nær yfir sjóinn og eyjar. Gestir tóku með sér hljóðfæri og var dansað og sungið. Þegar ég yfirgaf svæðið til að næla mér í fegurðarsvefninn þá var cancan-röð í fullri sveiflu inni og krakkar að grilla sykurpúða yfir varðeldi fyrir utan,“ segir Arna. Grillveislan fór fram þar sem afi hennar var með hesta og kindur en nú rekur systir hennar gistihús þar.

Mikil stemning var í hesthúsinu á föstudagskvöldinu.
Mikil stemning var í hesthúsinu á föstudagskvöldinu. Ljósmynd/Dóra Dúna

Vinir og fjölskylda sáu um tónlistina

Þegar þau Arna og Þorkell giftu sig mættust tveir ólíkir heimar þar sem Arna er úr mikilli íþróttafjölskyldu en fólkið hans Þorkels er tónlistarfólk og hann sjálfur söngvari. Tónlistin í brúðkaupinu setti því mikinn svip á daginn.

„Tónlist er afar stór partur af lífi Þorkels og hans fólks og við fengum þvílíka aðstoð í þeim málum. Vinirnir hafa svolítið séð um tónlistina í brúðkaupum hver hjá öðrum. Í athöfninni sjálfri gekk ég inn undir strengjakvartett sem samanstóð af fjölskyldumeðlimum og vini Þorkels. Vinir Þorkels sungu og spiluðu í athöfninni lög sem okkur þykir hvað vænst um, bæði einsöngur og kór. Svo um leið og athöfninni lauk beið Defender fyrir utan kirkjuna með bjór sem gestir tóku með sér í skrúðgöngu upp í salinn sem var leidd áfram af fánabera með merki okkar A&Þ, tveimur saxófónum og trommu þar sem leiknir voru marsar. Okkur fannst eitthvað kómískt við að láta fólkið okkar fylgjast að í skrúðgöngu en mér skilst að það hafi vakið mikla lukku.“

Vinir sáu um tónlistina í skrúðgöngu eftir kirkjuna.
Vinir sáu um tónlistina í skrúðgöngu eftir kirkjuna.
Arna Sif hannaði letrið í brúðkaupinu. Hér má sjá fana …
Arna Sif hannaði letrið í brúðkaupinu. Hér má sjá fana með stöfum hjónanna.

Vinir Þorkels sáu einnig um að leika ljúfa tóna í fordrykknum auk þess sem þeir spiluðu undir í einskonar karókí að loknum kvöldmatnum. Söngvararnir skiptust á að koma upp á svið og syngja lög sem var ótrúlega skemmtilegt og skapaði þvílíka dansstemningu.

Leikarinn Guðjón Davíð Karlsson, eða Gói eins og hann er kallaður, var veislustjóri en hann er frændi Þorkels. Hann hjálpaði til við að búa til létta og skemmtilega stemningu og sá til að mynda um söngvakeppni milli hjónanna. „Hann fékk Þorkel til að standa upp og leiða fólkið sitt í samsöng sem þau gripu um leið. Það var eins og við værum mætt á kórtónleika í Hörpu þannig að mitt fólk var orðið vel stressað þar sem keppnisskapið er allsráðandi. Svo kom að mér og mínum en þá var hann svo góður við okkur og gaf okkur Ole ole, lag sem er oft raulað á íþróttaviðburðum. Mitt fólk var svo létt að það stakk á fætur og gaulaði úr sér lungun,“ segir Arna.

Arna Sif Pálsdóttir og Þorkell Sigfússon.
Arna Sif Pálsdóttir og Þorkell Sigfússon. Ljósmynd/Dóra Dúna

Skreytingar endurspegluðu staðinn

Arna og Þorkell vildu spegla þá fallegu og hráu náttúru sem finna má í Vestmannaeyjum í veislusalnum. Sjávarútvegurinn er stór hluti af Vestmanneyjum og var hann þeim einnig innblástur.

„Við vorum með fiskinet sem hékk í lofti salarins sem við fengum úr veiðarfærahúsi frændfólks míns. Þaðan tókum við einnig tvær baujur sem héngu í salnum sem voru til þess að róla á, svipað og við lékum okkur oft að sem krakkar. Borðin voru skreytt með gömlum ginflöskum, glærum eða brúnum, og voru þurrkuð strá sem ég hefði tínt af túnum úr sveitinni í Eyjum fyrr um sumarið í flöskunum. Einnig létum við fjölskyldumeðlimi taka þátt í að safna korktoppum sem við nýttum til að setja nafnaspjöldin í. Hvítar tauservétturnar voru brotnar saman á einfaldasta máta og þurrkuð strá bundin föst við. Allir gestirnir voru með mismunandi skreytingu.“

Hjónin skreyttu salinn á skemmtilegan hátt með góðri hjálp.
Hjónin skreyttu salinn á skemmtilegan hátt með góðri hjálp. Ljósmynd/Dóra Dúna

„Við keyptum einfalda svarta misháa kertastjaka og settum löng kerti sem dugðu vel út veisluna. Svo fengum við lánaðar stórar lugtir og vasa frá vinum og ættingjum til að vera víðsvegar um salinn. Með kertunum og seríunni fannst mér við fanga þessa notalegu stemningu sem við sóttumst eftir,“ segir Arna.

Arna er grafískur hönnuður og það skipti hana því máli að allt prentað efni væri einstakt og í takt við anda veislunnar. „Ég hannaði því merki fyrir veisluna úr upphafsstöfunum okkar sem var á boðskortum, nafnaskiltum, matseðlum, drykkjakortum, fána og fleira. Til að mynda var myndaveggurinn gerður úr viði sem fannst á víð og dreif í sveitinni hjá systur minni, köðlum úr veiðarfærahúsi frændfólks míns og svo neonljósi sem ég lét útbúa með merki veislunnar.“

Hér sést hvernig korktappi var fyrir merkispjald.
Hér sést hvernig korktappi var fyrir merkispjald.

Þau Arna og Þorkell voru ekki bara útsjónarsöm þegar kom að skreytingum. „Þegar við byrjuðum saman byrjuðum við, tiltölulega ómetvitað, að safna rauðvíni fyrir veisluna þannig að svoleiðis hlutir voru græjaðir. Við deildum niður skipulaginu, Þorkell sá um tónlist og drykki og ég fékk að stýra skreytingum og stemningu.“

Mikilvægt að þiggja aðstoð

Arna er ánægð með í hvað þau nýttu peningana, skreytingarnar sáu þau um sjálf og vildu frekar verja meiri peningum í mat, drykki og tónlist. „Einsi kaldi í Eyjum sem sá um veitingarnar og fór á kostum. Við báðum um suðuramerískt/íslenskt fusion og hann fór fram úr okkar væntingum. Honum tókst að láta matinn virka eins og maður væri á flottum veitingastað en ekki í 150 manna veislu.“

Voruð þið sérstaklega ánægð með einhverjar ákvarðanir sem þið tókuð?

„Við ákváðum seint í ferlinu að fá plötusnúð til að taka við af hljómsveit kvöldsins og við erum ótrúlega ánægð að hafa gert það. Bæði til að lengja partíið enn meira og til þess að fólkið hans Þorkels sem var að spila myndi líka fá að njóta og dansa við góða tónlist. Við vorum mjög heppin að DJ Doctor Victor var akkúrat á eyjunni þessa helgi og hélt stuðinu gangandi fram á nóttu.“

Tvær baujur héngu í salnum.
Tvær baujur héngu í salnum.

Er eitthvað sem er gott að hafa í huga þegar veisla er plönuð fjarri heimilinu?

„Ætli skipulag skipti ekki mjög miklu máli því það er ekki auðvelt að skottast heim eða í salinn ef eitthvað gleymist. Einnig fannst mér gaman að geta verið með skreytingar í anda staðarins. Mér fannst líka mjög gott að sjá hvað ég gæti tekið úr umhverfinu og nýtt í skreytingar til dæmis. Við fengum ómælda hjálp frá fjölskyldu og vinum en þetta hefði aldrei gengið upp án þeirra – maður þarf að muna að þiggja aðstoðina sem verið er að bjóða þó það sé oft erfitt,“ segir Arna og bætir við að það skipti mjög miklu máli að nýta bílferðir fyrir og eftir veisluna.

Hvað stóð upp úr þegar þið horfið til baka?

„Það var eiginlega magnað að finna fyrir væntumþykjunni, fólkið okkar allt saman komið á lítilli eyju þannig að maður var alltaf að rekast á gestina um helgina og allir svo kátir. Svo voru líka litlir fyndnir hlutir, til dæmis þegar við Þorkell keyrðum frá kirkjunni eftir athöfn og sáum langa slöngu rata í áttina að veislusalnum með fánabera og undirleik,“ segir Arna og á þar við vel heppnaða skrúðgöngu.

Fólk á öllum aldri fékk að taka þátt í grillveislunni …
Fólk á öllum aldri fékk að taka þátt í grillveislunni fyrir brúðkaupið. Ljósmynd/Dóra Dúna
mbl.is