„Þetta er ekki látið viðgangast í þéttbýli“

Ferðamenn á Íslandi | 9. maí 2023

„Þetta er ekki látið viðgangast í þéttbýli“

Háspennustrengur á milli Reykholts og Flúða bilaði í gær. Um sjö klukkustundir tók að laga bilunina og svæðið því rafmagnslaust á meðan. Eigandi Hótels Gullfoss segir það óásættanlegt að byggðin þurfi að vera rafmagnslaus í svo langan tíma.

„Þetta er ekki látið viðgangast í þéttbýli“

Ferðamenn á Íslandi | 9. maí 2023

Ferðaþjónusta var skert vegna sjö klukkustunda rafmagnsleysis á svæðinu við …
Ferðaþjónusta var skert vegna sjö klukkustunda rafmagnsleysis á svæðinu við Gullfoss og Geysi. mbl.is/Sigurður Bogi

Háspennustrengur á milli Reykholts og Flúða bilaði í gær. Um sjö klukkustundir tók að laga bilunina og svæðið því rafmagnslaust á meðan. Eigandi Hótels Gullfoss segir það óásættanlegt að byggðin þurfi að vera rafmagnslaus í svo langan tíma.

Háspennustrengur á milli Reykholts og Flúða bilaði í gær. Um sjö klukkustundir tók að laga bilunina og svæðið því rafmagnslaust á meðan. Eigandi Hótels Gullfoss segir það óásættanlegt að byggðin þurfi að vera rafmagnslaus í svo langan tíma.

Jón Harrý Njarðarson, eigandi hótelsins, segir íbúa og rekstraraðila á svæðinu ekki óvana rafmagnsleysi og truflunum og kippi sér vanalega ekki upp við slíkt, enda vari truflanir yfirleitt ekki lengur en hálftíma. Sjö klukkustundir finnist honum hins vegar fullmikið. 

Skert ferðaþjónusta vegna bilunarinnar

„Ef þetta hefði verið um miðjan vetur, í frostinu í vetur. Sjö tíma stopp á rafmagninu, hvað hefði þá skeð?“ spyr Jón. „Þetta er ekki látið viðgangast í þéttbýli.“

Jón segir bilunina hafa haft töluverð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu, en starfsmenn hans voru að undirbúa morgunverð fyrir hótelgesti þegar rafmagni sló út.

„Það var bara jógúrt og djús í morgunmat, við gátum ekki boðið upp á margt annað,“ segir hann eilítið glettinn. Einnig kveðst hann vita til þess að þjónustur í kringum Gullfoss og Geysi hafi þurft að loka vegna bilunarinnar. 

Að sögn starfsmanns hjá Rarik varð bilun á háspennustreng á svæðinu. Það taki einfaldlega þennan tíma að finna bilunina, sækja viðgerðarefni og lagfæra strenginn.

Hann segir Brúarvirkjun yfirleitt tekna í notkun þegar eitthvað bili hjá Rarik svo íbúar þurfi ekki að finna fyrir óþægindum til lengri tíma. Að þessu sinni hafi hins vegar líka komið upp bilun í virkjuninni og því ekki hægt að grípa til þess ráðs að sinni. 

Rafmagnsbilunin varð á milli Flúða og Reykholts.
Rafmagnsbilunin varð á milli Flúða og Reykholts. mbl.is/Sigurður Bogi

Á ekki að vera svona

Jón kveðst hafa fullan skilning á því að starfsmenn Rarik séu bara að vinna sitt starf, en að ráðstafanir í aðstæðum sem þessum þurfi einfaldlega að vera betri. 

„Rafmagn er náttúrulega mikilvægt í dag og ég hélt að þetta væri betra en þetta,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Kveðst hann hafa talið að rafmagn á svæðinu væri með þeim hætti að slái einn strengur út taki annar við. Sé raunin ekki sú þurfi einfaldlega að gera betri ráðstafanir fyrir atvik sem þessi. 

„Ef það er einhver misskilningur milli Brúarvirkjunar og Rarik þá verða þeir að laga það núna. Það kemur mér ekkert við hvernig, en þetta á ekki að vera svona.“

mbl.is