Sigga á leið til Ítalíu að skoða marmara

Hönnun | 10. maí 2023

Sigga á leið til Ítalíu að skoða marmara

Iðnhönnuðurinn Sigga Heimis er á leið til Ítalíu þar sem hún ætlar að halda námskeið um marmara í Toskana-héraðinu. Hugmyndin kviknaði á HönnunarMars í fyrra þegar Sigga hélt sýningu á listmunum úr marmara sem hún vann ásamt íslenskum og ítölskum hönnuðum.

Sigga á leið til Ítalíu að skoða marmara

Hönnun | 10. maí 2023

Sigga Heimis iðnhönnður er á leið til Ítalíu með hóp …
Sigga Heimis iðnhönnður er á leið til Ítalíu með hóp af fólki til að skoða marmaranámur og búa til afurðir úr þeim í leiðinni. Ljósmynd/Samsett

Iðnhönnuðurinn Sigga Heimis er á leið til Ítalíu þar sem hún ætlar að halda námskeið um marmara í Toskana-héraðinu. Hugmyndin kviknaði á HönnunarMars í fyrra þegar Sigga hélt sýningu á listmunum úr marmara sem hún vann ásamt íslenskum og ítölskum hönnuðum.

Iðnhönnuðurinn Sigga Heimis er á leið til Ítalíu þar sem hún ætlar að halda námskeið um marmara í Toskana-héraðinu. Hugmyndin kviknaði á HönnunarMars í fyrra þegar Sigga hélt sýningu á listmunum úr marmara sem hún vann ásamt íslenskum og ítölskum hönnuðum.

„Ég hef verið svo lánsöm eftir margra ára nám á Ítalíu að halda vinskap og tengingum þar. Sem hönnuður hef ég bæði unnið þar og ferðast víða og einn áhugaverðasti staður sem ég kynnt mér er Carrara sem liggur í Toscana-héraði.

Þar eru elstu marmaranámur í heimi en byrjað var að vinna marmara þar 200 árum fyrir Krist. Marmarinn þar er einstakur enda settust margir högglistamenn þar að líkt og Michelangelo og Thorvaldsen. Fyrir ári síðan, eða á HönnunarMars 2022, tókum við okkur saman íslenskir og ítalskir hönnuðir og héldum sýningu á Listasafni Íslands.

Sú sýning vakti mikla athygli og í kjölfarið fékk ég margar spurningar um marmara og Carrara. Núna erum við búin að skipuleggja vikuferð þar sem við skoðum námurnar með leiðsögn um svæðið og kynnumst efniviðnum og möguleikum hans. Hver og einn þátttakandi hannar og framleiðir sinn hlut sem hann tekur með sér heim. Auk þess að njóta verður boðið upp á ferðir um svæðið en Cinque Terre er einungis í klukkutíma fjarlægð frá Pontremoli þar sem við höfum bækistöðvar,“ segir Sigga. Námskeiðið hefst 25. júní og stendur yfir til 1. júlí. 

Hér má sjá lampa sem Sigga Heimis hannaði úr marmara …
Hér má sjá lampa sem Sigga Heimis hannaði úr marmara og sýndi á HönnunarMars í fyrra.

Þegar hún er spurð að því fyrir hverja ferðin sé segir hún að hún sé fyrir alla sem hafa áhuga á nýsköpun og hönnun. 

„Það skiptir engu hvort fólk sé með bakgrunn og menntun á hönnunarsviðinu. Ítalía er líka land sem allir fíla og engum leiðist þar. Hlutir sem þátttakendur hanna og taka með sér heim verða raungerðir af fagmönnum,“ segir hún. Þátttakendur mæta á sunnudegi og kynnast í sameiginlegum kvöldverði.

„Síðan eru námurnar skoðaðar og samtímis fer fram sköpunarfasi þar sem hugmyndir fæðast. Um miðbik vikunnar er skissum skilað til handverksmanna og þá gefst þátttakendum tækifæri til að ferðast eða hvílast. Í lok viku er kynning á verkum og við endum herlegheitin með góðu partíi á laugardagskvöldið.“

Það er upplifun að koma í marmaranámur á Ítalíu.
Það er upplifun að koma í marmaranámur á Ítalíu.

Marmari á margar hliðar

Þekkir fólk marmara nægilega vel? 

„Nei, alls ekki. Marmari er hráefni sem á sér margar hliðar, til eru margar tegundir sem hafa mismunandi eiginleika. Þetta efni hefur verið dáð og dýrkað enda þótti það tákn velmegunar og glamúrs. Málarar reyndu að líkja eftir munstri og litum þar sem efnið var ófáanlegt, líkt og í kirkjum á Íslandi. Sumar tegundir marmara er uppurnar og námurnar tómar en af öðrum tegundum er blessunarlega nóg til af.“

Talið berst að hönnun og hvað sé að gerast í hönnunarheiminum. Sigga starfaði lengi sem hönnuður hjá IKEA og á tímabili var hún hönnunarstjóri hjá Fritz Hansen sem framleiðir þekkta danska hönnun. Hún segist tengja lítið við það sem er að gerast í hönnunarheiminum á Íslandi. 

„Ég viðurkenni að ég tengi mjög lítið við íslenska hönnunarsenu. Aftur á móti hef ég meiri snertifleti og skilning við nýsköpun og sprotaumhverfið á Íslandi. En, ég fylgist náið með erlendum straumum og stefnum. Húsgagnasýningin í Mílanó, Salone Del Mobile, er til dæmis nýafstaðin og kannski er mest áberandi að „bransinn“ er kominn aftur í gang. Þó litast umhverfið eilítið af stríði og það eru augljóslega minni peningar í umferð. En heilt á litið þá eru langlífu trendin eins og umhverfishugsun og varanleiki áberandi. Yfirlit er ljóst, litir og efni náttúruleg og björt og dekkri litir á algjöru undanhaldi. Þægindi, sveigjanleiki og mannúð er í fyrirrúmi og umburðarlyndi fyrir skoðunum áþreifanlegur.

Pastellitir og kryddaðir náttúrulitir eru áberandi og sagan bak við hlutina er jafn mikilvæg og hluturinn sjálfur. Umræður og pælingar varðandi hvað á að framleiða og hvernig eru sífellt sterkari enda gríðarlega mikilvægar. Hagkerfið í kringum notaðar vörur er mun stærra og mikilvægara en var haldið í fyrstu og loksins eru komnar vel hannaðar verslanir með notaðar vörur enda löngu tímabært.“

Fyrir utan það að fara með hóp til Ítalíu í lok júní er Sigga önnum kafin. 

„Ég gaf færi á mér í nokkur verkefni og þá fór risabolti af stað. Ég er að leggja lokahönd á skrifstofur þar sem tvö stór fyrirtæki eru að sameinast um hluta vinnurýmis, enda öll þróun í þá áttina. Svo er ég að teikna umbúðir fyrir spennandi fyrirtæki og að rissa upp vöruþróunar skipulag fyrir annað frábært fyrirtæki. Ég er svo heppin að starfa við mitt aðaláhugamál og þreytist seint á að krukka í straumum, stefnum og úrlausnum á þeim.“

Hægt er að fá nánari upplýsingar með því að senda póst á info@siggheimis.is.

Það eru til ótaltegundir af marmara.
Það eru til ótaltegundir af marmara.
Þessi mynd var tekin á námskeiði sem Sigga Heimis stóð …
Þessi mynd var tekin á námskeiði sem Sigga Heimis stóð fyrir á Ítalíu fyrir skömmu.
mbl.is