„Hver einasta mínúta var skemmtileg“

Brúðkaup | 13. maí 2023

„Hver einasta mínúta var skemmtileg“

Anna Guðrún Ingadóttir, tölvunarfræðingur hjá Advania og hóptímakennari í World Class, og Magnús Már Einarsson, þjálfari meistaraflokks karla í fótbolta hjá Aftureldingu, gengu í hjónaband 8. október í fyrra og fögnuðu í kjölfarið með því að bjóða í gott partí.

„Hver einasta mínúta var skemmtileg“

Brúðkaup | 13. maí 2023

Það var mikið stuð í veislunni.
Það var mikið stuð í veislunni. Ljósmynd/Hildur Erla

Anna Guðrún Ingadóttir, tölvunarfræðingur hjá Advania og hóptímakennari í World Class, og Magnús Már Einarsson, þjálfari meistaraflokks karla í fótbolta hjá Aftureldingu, gengu í hjónaband 8. október í fyrra og fögnuðu í kjölfarið með því að bjóða í gott partí.

Anna Guðrún Ingadóttir, tölvunarfræðingur hjá Advania og hóptímakennari í World Class, og Magnús Már Einarsson, þjálfari meistaraflokks karla í fótbolta hjá Aftureldingu, gengu í hjónaband 8. október í fyrra og fögnuðu í kjölfarið með því að bjóða í gott partí.

„Við kynntumst árið 2015 á kannski smá óhefðbundinn máta. Sameiginleg vinkona okkar hafði sagt við mig að hún væri viss um að við ættum vel saman. Ég var búinn að vera með númerið hjá Önnu lengi og ákvað eitt kvöldið að senda henni SMS. Eftir það fórum við að hittast og hér stöndum við í dag, gift og eigum tvo stráka saman. Ég bað Önnu árið 2021 en við höfðum áður rætt um að giftast á næstu árum,“ segir Magnús um hvernig vegir þeirra Önnu lágu saman.

Anna og Magnús búa í Mosfellsbæ og fóru ekki langt á brúðkaupsdaginn en athöfnin og veislan fóru fram í bænum. „Lágafellskirkja er bæði glæsileg og stendur á fallegum stað. Því var auðvelt að ákveða hvar athöfnin myndi fara fram. Ég vissi að Guðni Már Harðarson væri skemmtilegur prestur og hann fór gjörsamlega á kostum í athöfninni. Hann sló á létta strengi og gerði athöfnina ógleymanlega bæði fyrir okkur og aðra gesti,“ segir Magnús sem gefur Guðna Má fullt hús stiga.

Anna tekur undir með manni sínum og segir athöfnina hafa verið fullkomna. „Hver einasta mínúta var skemmtileg. Fallegur söngur frá Guðrúnu Árnýju og Guðni prestur frábær. Fólk hló og grét til skiptis, ógleymanlegt,“ segir hún.

Hjónin giftu sig í Lágafellskirkju.
Hjónin giftu sig í Lágafellskirkju. Ljósmynd/Hildur Erla

Frábær stemning og stjörnuljós

Voruð þið með ákveðnar hugmyndir fyrir daginn?

„Aðalmarkmiðið var að halda gott partí sem ég held að hafi tekist mjög vel. Við vildum alveg halda í einhverjar hefðir en bæði tilbúin að fara út af brautinni líka. Við gátum til dæmis ekki hugsað okkur að taka þennan klassíska brúðkaupsdans og slepptum brúðkaupstertu þar sem áhuginn fyrir því var enginn hjá okkur. Við pössuðum líka sérstaklega vel upp á að njóta vel frá morgni til kvölds og vorum þar af leiðandi búin að tryggja að við þyrftum ekkert að gera á stóra deginum. Bara mæta og njóta,“ segir Anna.

Magnús segir að veislan sem fram fór á Bliki hafi verið í beinu framhaldi af athöfninni. „Fólk mætti í fordrykk á meðan við fórum heim í fataskipti og höfðum smátíma til að skála, bara við tvö. Við höfðum tekið myndatökuna fyrir athöfn með strákunum okkar og það kom vel út. Við byrjuðum veisluna á að taka á móti fólki og hella í kampavínsturn. Elvar Páll Sigurðsson og Eyrún Rakel Agnarsdóttir, vinir okkar, sáu um veislustjórn og stóðu sig mjög vel í því hlutverki. Vinir og ættingjar komu með skemmtiatriði og ræður og vorum við mjög ánægð hvernig tókst til þar. Við bókuðum sjálf engin skemmtiatriði þar sem við vildum að fólk hefði líka tíma til að spjalla saman og njóta. Sóli Hólm kom þó óvænt og söng You’ll Never Walk Alone sem var mjög skemmtilegt. Eftir að ræðuhöldum var lokið fengum við alla gestina út fyrir staðinn þar sem allir voru með stjörnuljós og við tókum skemmtilegt labb undir tónlist framhjá öllum gestunum. Þegar inn var komið tók svo við partí þar sem DJ Victor skemmti fólki fram eftir. Þetta var persónuleg veisla og frábær stemning allan tímann.“

Nýgift hjón.
Nýgift hjón. Ljósmynd/Hildur Erla

Klæddist dragt í veislunni

Hvernig gekk að finna föt?

„Ég var búin að hugsa lengi hvort ég ætti að fara ódýra leið og panta kjól til dæmis á Asos, ég hef séð marga flotta kjóla þaðan en það gekk ekki nógu vel svo ég ákvað að bóka mátun hjá Loforði. Þar fann ég bæði kjólinn og dragtina sem ég klæddist í veislunni. Ég fílaði mig miklu betur í dragtinni og sé smá eftir að hafa ekki verið í henni allan daginn. En gaman samt að prófa að klæðast alvöru brúðkaupskjól með slóða og slöri. Fyrir Magga var þetta frekar auðvelt, ein heimsókn í Suitup,“ segir Anna.

Anna klæddist kjól í kirkjunni en skipti síðan í dragt.
Anna klæddist kjól í kirkjunni en skipti síðan í dragt. Ljósmynd/Hildur Erla

Hvað stóð upp úr eftir daginn?

„Athöfnin kom mest á óvart og stóð líklega upp úr ásamt stjörnuljósunum um kvöldið. Allt sem við höfðum vonast eftir stóðst og gott betur. Það var rosalega gaman að skemmta sér með vinum og ættingjum okkar og allir fóru glaðir heim,“ segir Anna.

Anna segir það bæði skemmtilega og mikla vinnu að skipuleggja brúðkaup. Þau fóru þá leið að lokum að fá hjálp þegar kom að skreytingum. „Ég fékk mestan hausverk þegar ég hugsaði um skreytingar og ákvað því að fá brúðkaupsplanara sem heitir Alina til að taka það að sér ásamt blómaskreytingakonunni, Luna Studio. Alina brúðkaupsplanari var einnig veislustjóri á bak við tjöldin í veislunni og sá til þess að allt gengi smurt og vel fyrir sig. Við mælum klárlega með að hafa brúðkaupsplanara ásamt því að hugsa út fyrir boxið og gera nákvæmlega það sem fólk vill.“

Hvernig er að vera hjón?

„Okkur finnst það vera frekar lítil breyting frá því að vera par áður eða trúlofuð. Mesta breytingin fyrir mig var að vera með hring á hendinni alla daga,“ segir Magnús að lokum.

Ljósmynd/Hildur Erla
mbl.is