„Okkur dreymir líka um að taka bílskúrinn í gegn“

Heimili | 14. maí 2023

„Okkur dreymir líka um að taka bílskúrinn í gegn“

Viðskiptafræðingurinn Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir, oftast kölluð Vinga, er fagurkeri fram í fingurgóma. Hún er búsett í sjarmerandi íbúð á Seltjarnarnesi ásamt unnusta sínum, Sveini Ragnari Sigurðssyni, og sonum þeirra tveimur. 

„Okkur dreymir líka um að taka bílskúrinn í gegn“

Heimili | 14. maí 2023

Samsett mynd

Viðskiptafræðingurinn Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir, oftast kölluð Vinga, er fagurkeri fram í fingurgóma. Hún er búsett í sjarmerandi íbúð á Seltjarnarnesi ásamt unnusta sínum, Sveini Ragnari Sigurðssyni, og sonum þeirra tveimur. 

Viðskiptafræðingurinn Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir, oftast kölluð Vinga, er fagurkeri fram í fingurgóma. Hún er búsett í sjarmerandi íbúð á Seltjarnarnesi ásamt unnusta sínum, Sveini Ragnari Sigurðssyni, og sonum þeirra tveimur. 

Vinga starfar sem stjórnandi innan markaðsmála hjá bandaríska Fortune 500-hátæknifyrirtækinu Netapp. Í frítíma sínum fær Vinga útrás fyrir sköpunargáfuna á Instagram þar sem hún deilir undurfögrum myndum af heimili sínu, hinum ýmsu verkefnum og fegurðinni sem hún sér í hinu daglega lífi.

Rúm tvö ár eru liðin frá því Vinga og Sveinn luku allsherjarframkvæmdum á heimili sínu, en þau tóku íbúð sína í gegn frá a til ö. Við fengum að skyggnast inn á heimili Vingu sem sagði okkur meðal annars frá framkvæmdunum og ferlinu við að innrétta draumaheimilið.

Arinninn gerði útslagið

Vinga og Sveinn Ragnar voru búin að vera í leit að stærri eign í nokkra mánuði þegar þau rákust á draumaeignina, en þau voru fastráðin í því að halda sig á Seltjarnarnesi. „Við heyrðum af þessari eign hjá fasteignasala og fengum að kíkja á hana. Hún var alveg hrá og ekkert inni í henni, en það hafði allt verið rifið út og framkvæmdir rétt hafnar við að skipta íbúðinni upp í tvær íbúðir,“ segir Vinga.

„Það runnu tvær grímur á fjölskyldurnar okkar þegar þær komu með okkur að skoða því hvorki ég né maðurinn minn höfðum reynslu af framkvæmdum og vorum með ungbarn. Við aftur á móti sáum svo mikla möguleika í íbúðinni, en hér gátum við útbúið eign sem tikkaði í öll boxin okkar á verði sem við réðum við. Og arinninn – hann gerði útslagið og við skrifuðum undir,“ segir Vinga.

Vinga og Sveinn Ragnar réðust í miklar framkvæmdir um leið og þau fengu íbúðina afhenta, en þar sem hún var alveg hrá þurftu þau aðeins að taka niður nokkra veggi áður en uppbyggingin gat hafist af alvöru.

Þau fengu verktaka með sér í framkvæmdirnar, en Vinga segir ferlið í heild sinni hafa tekið um sex mánuði. „Það er skrítið að hugsa til þess að öll íbúðin sé hugarfóstur okkar, allt frá skipulagningu á fermetrum og innréttingum yfir í parket, flísar, málningu og innanhússmuni. Við höfðum aldrei gert neitt í líkingu við þetta áður og í dag, tveimur árum síðar, erum við ennþá jafn himinlifandi með afraksturinn,“ útskýrir hún.

„Eina nóttina var ég vakandi með syni mínum að gefa honum að drekka þegar ég fékk einhvers konar hugljómun um hvaða skipulag væri sniðugast fyrir íbúðina. Ég teiknaði allt upp í iPadnum mínum og sendi svo á arkitekt sem við könnumst við sem hjálpaði mér að útfæra hugmyndina í faglegu formi,“ rifjar Vinga upp.

„Það voru alls kyns uppákomur og við vorum sífellt að reka okkur á hindranir sem verktakinn okkar aðstoðaði okkur við að leysa. Auðvitað lærðum við helling af þessu og þegar við lítum til baka er ýmislegt sem við hefðum gert öðruvísi,“ segir Vinga.

„Stundum horfum við Sveinn Ragnar hvort á annað og hlæjum …
„Stundum horfum við Sveinn Ragnar hvort á annað og hlæjum og hrósum hvort öðru fyrir þetta afrek.“

„Eins og að sitja á skólabekk í sex mánuði“

Spurð hvað hafi komið mest á óvart í framkvæmdunum segir Vinga flestallt hafa komið sér á óvart, enda hafi hún aldrei farið í slíkar framkvæmdir áður. „Þetta var í raun eins og að sitja á skólabekk í sex mánuði. Ég held að ég hafi komið sjálfri mér mest á óvart – hvað ég var fær um miklu meira en mig grunaði,“ segir hún.

Í framkvæmdunum settu Vinga og Sveinn Ragnar sitt daglega líf í forgrunn og settu íbúðina upp eftir því. „Við elskum til dæmis að elda svo við gerðum eldhúsið að miðpunktinum og nýttum marga fermetra þar. Við hönnuðum stofuna þannig að við gætum notið þess að sitja við arininn á meðan við horfum á bíómyndir og með góðu plássi fyrir leik. Á sama tíma vildum við að stofan væri staður þar sem við gætum boðið fjölskyldu og vinum að eiga notalega stund,“ segir Vinga. 

„Ég vildi líka hafa gott flæði í gegnum alla íbúðina og tengingu á milli rýma. Hvert rými hefur sína sérstöðu en þér líður samt alltaf eins og þú sért á sama heimilinu. Ég gerði það með því að tengja saman liti, efni og form sem dæmi,“ bætir hún við.

Tók klassíkina fram yfir tískustrauma

Þegar kom að því að innrétta heimilið lagði Vinga áherslu á að skapa bjart, hlýlegt og þægilegt andrúmsloft þar sem allir fjölskyldumeðlimir geta unað sér. Þá þótti henni einnig mikilvægt að innrétta íbúðina á klassískan máta frekar en að fylgja tískustraumum. „Ég vildi að íbúðin myndi endurspegla okkur, hver við værum og hvernig við lifum,“ útskýrir Vinga.

„Það er svo gaman og notalegt að blanda gömlu saman við nýtt og umgangast vandaða muni sem hafa sögu og tengja okkur kannski við minningar eða fólk. Það er skemmtileg list að setja eldri og notaða hluti í nýtt samhengi og sjá þá koma til lífsins í öðru umhverfi. Til verður áhugaverð dýnamík sem gerir heimili persónuleg og heillandi,“ bætir hún við. 

Spurð hvaðan hún sótti innblástur þegar kom að því að innrétta heimilið segist Inga hafa fengið innblástur úr nokkrum mismunandi áttum, meðal annars frá Spáni og Bandaríkjunum þar sem hún stundaði nám um tíma. 

„Á sama tíma og við vorum í þessu ferli var ég að ljúka MBA-náminu mínu á Spáni og mér hefur alltaf liðið vel á þeim slóðum. Arkitektúr og litir frá Suður-Evrópu heilla mig og því er ég og var klárlega undir miklum áhrifum þaðan,“ segir hún. 

„Við maðurinn minn bjuggum líka um tíma í Wyoming í …
„Við maðurinn minn bjuggum líka um tíma í Wyoming í Bandaríkjunum og það sést alveg glitta í áhrif þaðan frá ferðalögum okkar um Utah, Arizona og New Mexico.“

Á sama tíma var Vinga að lesa áhugaverða bók sem fjallaði um tíma Rómaveldisins og varð yfir sig heilluð af rómverskum böðum. „Ég ákvað að ég yrði að hafa svoleiðis heima hjá mér. Sem betur fer á ég mann sem er oftast til í að láta reyna á hugdettur mínar og var með verktaka sem var til í að hjálpa við að framkvæma þetta með okkur. Við erum öll hæstánægð með útkomuna,“ segir Vinga.

„Mér þykir ófullkomleikinn heillandi

Vinga sótti einnig innblástur til fjölskyldu sinnar sem leggur áherslu á að hafa hlýleika í fyrirrúmi og taka náttúruna inn á heimilið. „Amma mín, Ingibjörg Hannesdóttir, var mikil listakona og við deildum ástríðu á list og hönnun. Hún féll frá fyrir ári og ég er með húsmuni út um allt frá henni,“ segir Vinga.

„Hún var svolítið frönsk og konungleg í sér svo ég er með ýmsa tignarlega og fyrirferðarmikla muni frá henni eins og stóra dramatíska spegla, útskorin borð, gyllta rómverska klukku og handgerða lampa,“ bætir hún við, en henni þykir afskaplega vænt um þessa muni og hannaði sum rými út frá því að þeir fengju að njóta sín til fulls.

„Ég vil vera umkringd handgerðum hlutum og náttúrulegum efnum og ég held að íbúðin í heild sinni og val á innréttingum og húsmunum endurspegli það að miklu leyti. Mér þykir ófullkomleikinn heillandi og líður vel innan um hráleikann, náttúruleg form og áferð. Það má allavega segja að það er ekki mikið um háglans heima hjá mér,“ segir Vinga og hlær.

Vinga viðurkennir að hún tengist oft húsmunum sínum nánum böndum, en það séu þó nokkrir munir í sérstöku uppáhaldi hjá sér. „Eitt af þeim er hundrað ára gamalt norskt eikarnáttborð frá mömmu minni sem hún keypti út frá smáauglýsingu í Morgunblaðinu þegar hún var tvítug. Svo er það útskorna hliðarborðið frá ömmu minni sem hún flutti inn frá Ítalíu og sólblómalampinn sem hún gerði sjálf,“ segir hún.

„Svo er eldri strákurinn okkar með skrifborð inni hjá sér og hillueiningu sem er sambland af fermingargjöfum tengdaforeldra minna. Svo verð ég að nefna matjurtakassann í garðinum sem pabbi smíðaði handa mér – telst það ekki líka sem húsmunur?“ segir Vinga.

Í ferlinu komst Vinga að því að hún hefði mikla ástríðu fyrir framkvæmdum og innanhússhönnun, en hún uppgötvaði fljótt hve mikilvægt það er að þora að stíga út fyrir boxið. „Við búum á litlu landi þar sem markaðurinn er lítill, en framboð í verslunum á Íslandi endurspeglar svolítið einsleita þjóðina. Þá er alltaf hægt að skoða nytjamarkaði, bæði hérlendis og erlendis, eða kíkja í geymsluna hjá foreldrum eða hjá ömmu og afa,“ segir Vinga.

„Það er líka hægt að sérpanta, sérhanna út frá hugmyndum eða panta sjálfur að utan. Það er ekki eins dýrt og margir halda – Íslendingar ættu að nýta sér hnattvæðinguna betur,“ bætir hún við.

Eldhúsið er uppáhaldsrými fjölskyldunnar

Þótt Vingu þyki erfitt að gera upp á milli rýma fannst henni skemmtilegast að innrétta barnaherbergi eldri sonar síns. „Það var eiginlega mesta áskorunin og þar af leiðandi skemmtilegast. Syni mínum fylgir alls kyns hafurtask sem þarf að skipuleggja, en við þurftum líka að finna milliveginn á milli Spiderman-lita og tímalausrar hönnunar sem hann fær ekki nóg af eftir korter,“ rifjar hún upp.

Uppáhaldsrými fjölskyldunnar er án efa eldhúsið, enda miðpunktur heimilisins. „Eldhúsið er mjög rúmgott og algjörlega hannað eftir okkar þörfum. Við erum alltaf sæl með það og við fjölskyldan njótum þess virkilega að elda, spjalla og borða þar saman,“ segir Vinga.

Þótt það séu aðeins liðin tvö ár frá því Vinga og Sveinn Ragnar luku framkvæmdum á heimili sínu segist Vinga alltaf vera í framkvæmdarhugleiðingum, Sveini Ragnari til mismikillar gleði. Þau tóku nýverið á móti sínu öðru barni og segir Vinga því fylgja ýmsar framkvæmdir.

„Okkur dreymir líka um að taka bílskúrinn í gegn og gera eitthvað skemmtilegt við hann. Svo er líka í plönunum að dekra við garðinn í sumar. Við búum svo vel að við eigum bæði frábærar fjölskyldur sem eru alltaf boðnar og búnar að aðstoða okkur og veita ráðgjöf við framkvæmdir, svo þetta er tilkynning til þeirra – það verður nóg að gera í sumar,“ segir Vinga að lokum og hlær.

mbl.is