„Nú á hún skóna“

Brúðkaup | 17. maí 2023

„Nú á hún skóna“

Hulda Björk Guðmundsdóttir og Ingi Örn Kristjánsson létu pússa sig saman hjá sýslumanni í mars. Eftir hjónavígsluna var notaleg veisla heima hjá foreldrum Huldu Bjarkar rétt eins og þegar foreldrar hennar giftu sig fyrir rúmlega aldarfjórðungi. Það er þó ekki það eina sem mæðgurnar Hulda Björk og Kristbjörg Guðmundsdóttir eiga sameiginlegt þar sem Hulda Björk gifti sig í brúðarskóm móður sinnar. 

„Nú á hún skóna“

Brúðkaup | 17. maí 2023

Ingi Örn og Hulda Björk á brúðkaupsdaginn í mars. Á …
Ingi Örn og Hulda Björk á brúðkaupsdaginn í mars. Á gömlu myndinni er Hulda Björk í brúðkaupi foreldra sinna.

Hulda Björk Guðmundsdóttir og Ingi Örn Kristjánsson létu pússa sig saman hjá sýslumanni í mars. Eftir hjónavígsluna var notaleg veisla heima hjá foreldrum Huldu Bjarkar rétt eins og þegar foreldrar hennar giftu sig fyrir rúmlega aldarfjórðungi. Það er þó ekki það eina sem mæðgurnar Hulda Björk og Kristbjörg Guðmundsdóttir eiga sameiginlegt þar sem Hulda Björk gifti sig í brúðarskóm móður sinnar. 

Hulda Björk Guðmundsdóttir og Ingi Örn Kristjánsson létu pússa sig saman hjá sýslumanni í mars. Eftir hjónavígsluna var notaleg veisla heima hjá foreldrum Huldu Bjarkar rétt eins og þegar foreldrar hennar giftu sig fyrir rúmlega aldarfjórðungi. Það er þó ekki það eina sem mæðgurnar Hulda Björk og Kristbjörg Guðmundsdóttir eiga sameiginlegt þar sem Hulda Björk gifti sig í brúðarskóm móður sinnar. 

„Við kynntumst í gegnum sameiginlega vini fyrir um 12 árum og vorum búin að ræða þetta í smá tíma. Við ákváðum svo að slá til og drifum í að bóka tíma hjá sýslumanni,“ segir Hulda Björk um hvernig þau Ingi Örn ákváðu að ganga í hjónaband.

Undirbúningurinn var ekki langur og það eina sem þurfti að gera var að fá svaramenn en mæður þeirra tóku það hlutverk að sér. Kristbjörgu móður Huldu Bjarkar langaði hins vegar að gera aðeins meira fyrir þau. „Ég ákvað að halda smá veislu fyrir nærfjölskyldu, þá sem yrðu viðstaddir brúðkaupið sjálft og nokkra nákomna til viðbótar. Við útbjuggum smárétti og sushi, skáluðum í kampavíni og auðvitað var brúðarterta,“ segir Kristbjörg um veisluna.

Kristbjörg er ekki óvön að skipuleggja brúðkaupsveislur. Hún gerði það einnig þegar hún giftist eiginmanni sínum Guðmundi Magnússyni. „Við giftum okkur árið 1996, þá var dóttir okkar átta ára. Ég gifti mig í dragt og við vorum með látlausa 30 til 40 manna veislu heima sem ég undirbjó sjálf en við vorum þá nýflutt í húsið okkar,“ segir Kristbjörg.

Hulda Björk segir að þau hafi aldrei ætlað að gera mikið úr brúðkaupinu. Dagurinn varð þó yndislegur í alla staði. „Dóttir Inga kom snemma heim um morguninn og hjálpaði mér með hár og förðun, sem var yndislegur tími. Það er ekki neitt sem stóð áberandi upp úr nema kannski bara dagurinn sjálfur, við áttum yndislegan tíma með fjölskyldunni og dagurinn var frábær í alla staði. Ég hefði ekki viljað hafa hann neitt öðruvísi,“ segir hún.

Brúðkaupsveisla Kristbjargar og Guðmundar árið 1996.
Brúðkaupsveisla Kristbjargar og Guðmundar árið 1996.

Gaman að nýta gamalt frá mömmu

Hvernig fannstu kjólinn?

„Planið var aldrei að vera endilega í hvítu en ég hef alltaf verið smá prinsessa inn við beinið og því gat ég ekki látið þetta fram hjá mér fara. Ég var búin að skoða ýmsa kjóla á netinu og einn daginn ákvað ég að kíkja inn á heimasíðu Kjóla og konfekts. Þar sá ég þennan kjól sem höfðaði til mín þar sem ég hef alltaf verið hrifin af fatnaði frá sjötta áratug síðustu aldar. Ég stökk af stað einn daginn í hádeginu ásamt vinkonu minni og það tók held ég um 15 mínútur frá því að við fundum bílastæði á Laugaveginum og þangað til við vorum komnar út í bíl aftur,“ segir Hulda Björk, sem bar brúðarskó móður sinnar við kjólinn.

Varstu alltaf ákveðin í að gifta þig í skóm móður þinnar?

„Nei, ég var það nú ekki, en ég hef í gegnum tíðina beðið hana um að fá þá lánaða, enda fallegir skór. Skiljanlega vildi hún ekki að þeir færu á eitthvert árshátíðardjamm. Þegar ég var að vesenast með skó eftir að hafa valið kjólinn bauð hún mér þá og ég var ekki lengi að segja já við því. Enda mjög gaman að geta nýtt eitthvað frá því að mamma gifti sig í mínu eigin brúðkaupi.“

Þegar Kristbjörg fann skóna á sínum tíma var það ást við fyrstu sýn. „Mér hefur alltaf þótt vænt um þá og aldrei tímt að láta þá eða henda þeim. Mér fannst tilvalið, þar sem dóttir mín passaði í skóna, að bjóða henni þá ef hún vildi gifta sig í þeim.“

Hvað verður um skóna núna?

„Nú á hún skóna og ræður hvað hún gerir við þá,“ segir Kristbjörg.

Sjálf gifti Kristbjörg sig í ljósblárri dragt en ekki hvítum kjól en brúðarfatatískan var öðruvísi á tíunda áratugnum. „Ég á ennþá dragtina og einnig á ég brúðarkjól móður minnar sem ég passaði ekki í þá en passa í í dag og hefði átt að klæðast honum við brúðkaup dóttur minnar,“ segir Kristbjörg sem bíður nú eftir góðu tækifæri til að klæðast búðarkjól móður sinnar en sá kjóll er svartur.

Nýbökuð hjón hjá sýslumanni með nánustu fjölskyldu.
Nýbökuð hjón hjá sýslumanni með nánustu fjölskyldu.
mbl.is