Kynntust á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum

Brúðkaup | 20. maí 2023

Kynntust á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum

Salóme Guðmundsdóttir, forstöðumaður hjá PayAnalytics, og Ársæll Óskarsson pípulagningameistari kynntust á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þann 3. september í fyrra gengu þau í hjónaband, sjö árum eftir að þau urðu formlega par.

Kynntust á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum

Brúðkaup | 20. maí 2023

Ársæll Óskarsson og Salóme Guðmundsdóttir giftu sig í september í …
Ársæll Óskarsson og Salóme Guðmundsdóttir giftu sig í september í fyrra. Ljósmynd/ Laimon­as hjá Sunday & White Studio

Salóme Guðmundsdóttir, forstöðumaður hjá PayAnalytics, og Ársæll Óskarsson pípulagningameistari kynntust á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þann 3. september í fyrra gengu þau í hjónaband, sjö árum eftir að þau urðu formlega par.

Salóme Guðmundsdóttir, forstöðumaður hjá PayAnalytics, og Ársæll Óskarsson pípulagningameistari kynntust á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þann 3. september í fyrra gengu þau í hjónaband, sjö árum eftir að þau urðu formlega par.

„Það hafði legið í loftinu í nokkurn tíma en þegar ég var ólétt að öðru barninu okkar fór Alli á skeljarnar eina stjörnubjarta vornótt. Við giftum okkur rúmu ári síðar,“ segir Salóme þegar hún er spurð hvernig það atvikaðist að þau tóku ákvörðun um að ganga í hjónaband.

„Við vorum fljótt sammála um að kirkjubrúðkaup í höfuðborginni myndi henta best. Það hitti þannig á að á brúðkaupsdaginn voru liðin sjö ár síðan við urðum par. Við giftum okkur í byrjun september. Veðrið á þessum árstíma hefur oft verið nokkuð gott og okkur þótti sjarmerandi að það væri aðeins farið að rökkva.“

Hjónin vildu borgarbrúðkaup.
Hjónin vildu borgarbrúðkaup. Ljósmynd/ Laimon­as hjá Sunday & White Studio

Börnin gátu tekið lúr og allir vel stemmdir

Börnin voru fjögurra ára og eins árs þegar þau Salóme og Ársæll giftu sig.

„Það skipti okkur máli að þau ættu þátt í deginum en á sama tíma þótti okkur mikilvægt að skapa afslappað andrúmsloft fyrir alla. Það er að mörgu að huga þegar kemur að börnunum. Við skipulögðum því daginn þeirra vel. Hádegislúrinn þurfti að fá sinn stað, það þurfti að fæða þau og klæða og passa upp á að þau væru snyrtileg og fín þegar kom að myndatökunni. Svo þurfti líka að huga að næturgistingu og deginum á eftir. Fjölskyldan bar hitann og þungann af því að þetta gengi allt snurðulaust fyrir sig, en við vorum búin að fara í gegnum daginn margoft í huganum og undirbúa allt mjög vel,“ segir Salóme.

Sonurinn stóð sig vel í brúðkaupinu.
Sonurinn stóð sig vel í brúðkaupinu. Ljósmynd/ Laimon­as hjá Sunday & White Studio

„Við giftum okkur seinnipart dags. Í anda þess að lágmarka allt stress og setja fókusinn á að njóta augnabliksins ákváðum við að hafa myndatökuna fyrir athöfnina. Margir vilja upplifa andartakið þar sem brúðguminn sér brúðina í fyrsta sinn í öllum skrúðanum þegar hún gengur inn kirkjugólfið, ég tengi við það, en við vorum svo lánsöm að vinna með einum færasta brúðkaupsljósmyndara landsins, honum Laimonas, eiganda Sunday&White Studio, sem sá til þess að skapa sambærilegt augnablik í upphafi myndatökunnar. Ég get mælt mikið með þessu fyrirkomulagi. Börnin voru betur stemmd og veisluhöld gátu hafist fljótlega eftir athöfn.

Sonur okkar sem er eldri var hringaberi og stóð sig eins og herforingi í því hlutverki. Dóttir okkar sem var nýorðin eins árs var í fanginu á ömmu sinni þegar athöfnin hófst en fór fljótlega að láta í sér heyra. Við höfðum þá fyrir fram ákveðið að ef upp kæmi sú staða myndi frænka mín fara með hana út. Við höfðum verið með dóttur okkar í aðlögun hjá henni í nokkur skipti fyrir brúðkaupið og þar gisti hún síðan fyrstu nóttina sína án okkar foreldranna í heldur betur góðu yfirlæti. Eftir athöfnina fór sonur okkar heim með frænda sínum, sem er á svipuðum aldri, þar sem hann var í pössun og dekri fram á næsta dag.“

Hjónin fóru í myndatöku fyrir brúðkaupið sem Salóme mælir með.
Hjónin fóru í myndatöku fyrir brúðkaupið sem Salóme mælir með. Ljósmynd/ Laimon­as hjá Sunday & White Studio

Pantaði kjólinn á netinu

Hvernig gekk ykkur að finna föt fyrir stóra daginn?

„Eins og í lygasögu. Strákarnir í Suit-up sáu um að græja Alla frá toppi til táar. Ég pantaði mér brúðarkjól hjá ástralskri vefverslun sem heitir Bo&Luca. Það var vissulega töluverð áhætta að hafa ekki mátað hann áður, en ég hafði verið í sambandi við saumakonu hér heima sem var tilbúin að vera mér innan handar ef það þyrfti að sníða kjólinn eitthvað til. Draumaskóna fann ég á Pinterest sem reyndust líka vera frá ástralskri verslun, Forever Soles.“

Salóme tók áhættu og keypti kjólinn á netinu.
Salóme tók áhættu og keypti kjólinn á netinu. Ljósmynd/ Laimon­as hjá Sunday & White Studio
Ljósmynd/ Laimon­as hjá Sunday & White Studio

Hvernig var athöfnin?

„Athöfnin var afslöppuð, persónuleg og hugljúf. Fríkirkjuprestur, séra Hjörtur Magni, gifti okkur í Dómkirkjunni í Reykjavík og Jón Jónsson brilleraði í söng og tónlist. Við lögðum mikla vinnu í að velja lögin og áttum margar góðar stundir í aðdragandanum þar sem við hlustuðum á tónlist og rifjuðum upp skemmtilegar minningar.“

En veislan?

„Veislan fór fram í björtum og fallegum sal í Kaplakrika í Hafnarfirði þar sem frænka mín sá um veislustjórn. Við buðum upp veitingar frá Sælkerabúðinni og fengum aðstoð við val á drykkjarföngum hjá Ölgerðinni. Sylvía Hauksdóttir vinkona okkar bakaði og skreytti brúðartertuna og við réðum barþjóna til að hrista kokteila fyrir gesti.“

Mikið stuð var í veislunni.
Mikið stuð var í veislunni. Ljósmynd/ Laimon­as hjá Sunday & White Studio

Hugsað var út í öll smáatriði til þess að skapa góða stemningu í veislunni.

„Systir mín sem er annar eigandi Pastel blómastúdíós sá um allar blómaskreytingar og tók stóran þátt í að hanna upplifunina frá morgni til kvölds. Litapallettan varð til snemma í ferlinu og við fengum Einar og Aron í Mikado, sem hanna bréfsefni undir nafninu Brotið blað, til liðs við okkur. Það var mikið nostrað við val á efni og útliti og áhersla lögð á heildrænt yfirbragð í allri upplifun og ásýnd.“

Hugað var út í öll smáatriði í veislunni.
Hugað var út í öll smáatriði í veislunni. Ljósmynd/ Laimon­as hjá Sunday & White Studio

Fjölskylda og vinir hjálpuðu mikið til

Salóme segir að undirbúningurinn hafi gengið glimrandi vel en hún er mjög skipulögð og var í essinu sínu þegar kom að því að skipuleggja og undirbúa brúðkaupið.

„Við skipulögðum brúðkaupið með góðum fyrirvara og fyrir vikið fylgdi deginum lítið stress. Það skal þó tekið fram að ég hef einstaklega gaman af stússi og tilstandi og því varð undirbúningurinn í mínum huga aldrei fyrirhöfn. Undirbúningurinn og dagurinn sjálfur er það allra skemmtilegasta sem ég hef upplifað. Hverrar einustu mínútu virði í tíma og peningum,“ segir Salóme. Hún bætir við að þau Ársæll hafi átt mjög góðar stundir í aðdraganda stóra dagsins. Þegar kom að því að velja veitingar og drykki buðu þau til dæmis heim til að njóta enn betur.

„Það er mikilvægt að halda vel utan um alla þræði með skipulegum hætti því stóru smáatriðunum fjölgar eftir því sem nær dregur. Við mamma þræddum nytjamarkaði til að finna hina fullkomnu kertastjaka á borðin. Dúka og servíettur fengum við hjá þvottahúsi A Smith, allt nýstraujað og fínt í þeim stærðum sem okkur vantaði. Við fengum síðan hvít sætaáklæði og seríur í loftið hjá Skreytingarþjónustunni og getum vel mælt með þeim fyrir alls konar svona stúss. Fjölskylda og vinir áttu stóran þátt í undirbúningnum með ráðum og dáð, aðstoð við uppsetningu á salnum og ýmsu öðru sem setti punktinn yfir i-ið.“

Sylvía Haukdal sá um kökuna.
Sylvía Haukdal sá um kökuna. Ljósmynd/ Laimon­as hjá Sunday & White Studio

Góður ljósmyndari ómetanlegur

Er eitthvað sem þið mælið með fyrir verðandi brúðhjón?

„Það er að svo ótrúlega mörgu að huga að ég mæli helst með því að gefa sér góðan tíma til undirbúnings því dagurinn sjálfur líður mjög hratt. Þannig eru líka meiri líkur á því að staðsetning, tónlistarfólk og fleira sé laust á þeim tíma sem þið óskið helst. Við leituðum ráða hjá nokkrum sem höfðu nýlega farið í gegnum ferlið til að þurfa ekki að finna upp hjólið.

Ég safnaði öllum upplýsingum í eitt skjal, hélt utan um kostnað, helstu verkefni, alla tengiliði, tímasetta dagskrá, gestalistann, hugmyndir og allt í þessum dúr. Fyrir þau sem hafa ekki jafn gaman af skipulaginu þá er hægt að ráða með sér fagfólk sem býður upp á þess konar þjónustu.

Hvað viðkemur kostnaðarhliðinni, þá er gott að setja sér markmið og oftast þarf að velja og hafna. Að eiga góðar ljósmyndir og upptöku frá deginum skipti okkur miklu máli. Að vinna með jafn reyndum og færum ljósmyndara og Laimonas hjá Sunday & White Studio var ómetanlegt. Hann var með okkur allan daginn, frá morgni til kvölds. Hann hefur margoft fylgt brúðhjónum í gegnum stóra daginn, er uppfullur af hugmyndum, leggur allt í verkefnið, með góða nærveru og nær að fanga þessi einstöku augnablik á mynd.

Á praktískum nótum fórum við þá leið að leigja hótelherbergi nóttina fyrir brúðkaupið þar sem nánasta fjölskylda átti samastað frá morgni brúðkaupsdags fram að athöfn. Þar gátum við tekið okkur til, stokkið í myndatöku sem fram fór í næsta nágrenni, skálað og gengið síðan yfir götuna þegar mæta átti til kirkju. Mæli mikið með því þægilega fyrirkomulagi!“

Ljósmynd/ Laimon­as hjá Sunday & White Studio

Salóme mælir með að sleppa tökunum á brúðkaupsdaginn.

„Ég var lánsöm að eiga eina reyndustu konu í bransanum að. Hún hafði ráðlagt mér að skilja við allan undirbúning á því augnabliki sem ég gengi út úr salnum þar sem við höfðum verið að græja og gera kvöldið fyrir brúðkaupið. Ég fór heilagt eftir því ráði og ákvað meðvitað að njóta hverrar einustu mínútu, restin var í höndunum á öllu því frábæra fólki sem lagði okkur lið við að gera daginn okkar einstakan og ógleymanlegan,“ segir Salóme að lokum.

Ljósmynd/ Laimon­as hjá Sunday & White Studio
mbl.is