„Neikvæðasta veisla sem við höfum haldið“

Brúðkaup | 21. maí 2023

„Neikvæðasta veisla sem við höfum haldið“

Dr. Sigurvin Lárus Jónsson, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík, valdi guðfræði af því að hann hefur áhuga á að starfa með fólki en einn þáttur prestsstarfsins er að gefa saman hjón. Þegar hjónavígslur eru annars vegar segir hann innileikann skipta mestu máli. 

„Neikvæðasta veisla sem við höfum haldið“

Brúðkaup | 21. maí 2023

Sigurvin Lárus Jónsson prestur og Rakel Brynjólfsdóttir
Sigurvin Lárus Jónsson prestur og Rakel Brynjólfsdóttir Ljósmynd/Þröstur Már Bjarnason

Dr. Sigurvin Lárus Jónsson, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík, valdi guðfræði af því að hann hefur áhuga á að starfa með fólki en einn þáttur prestsstarfsins er að gefa saman hjón. Þegar hjónavígslur eru annars vegar segir hann innileikann skipta mestu máli. 

Dr. Sigurvin Lárus Jónsson, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík, valdi guðfræði af því að hann hefur áhuga á að starfa með fólki en einn þáttur prestsstarfsins er að gefa saman hjón. Þegar hjónavígslur eru annars vegar segir hann innileikann skipta mestu máli. 

Sigurvin er sérfræðingur í Nýja testamentinu og lærði bæði í Danmörku og Bandaríkjunum. Áður en hann setti stefnuna á guðfræði kom til greina að læra raungreinar. „Ég á þrjár eldri systur og þær hafa verið mér fyrirmyndir í lífinu. Í menntaskóla langaði mig að læra efnaverkfræði eins og elsta systir mín, en þegar á hólminn var komið ákvað ég að ég ætti betur heima í að vinna með fólki,“ segir Sigurvin.

Sigurvin er eini presturinn í fjölskyldunni en hann er ekki sá eini sem hefur gefið saman hjón. Miðsystir hans er lögfræðingur og gaf saman samkynhneigð pör frá fyrsta degi en hún var þá að vinna fyrir sýslumann.

„Systir mín heitir Ágústa R. Jónsdóttir og er samkynhneigð. Hún var á þessum tíma í stjórn Samtakanna '78 þegar ein hjúskaparlög voru sett. Hún var í þessum hópi sem þrýsti þessu í gegn og vann með stjórn samtakanna til að tryggja það sem hinsegin samfélagið vildi, að þetta yrðu ein hjúskaparlög í reynd. Hún var á þessum tíma að vinna fyrir sifjadeild sýslumanns og það var bara biðröð. Þegar lögin voru sett var hún að gefa saman fólk. Ég man hvað þetta var stór stund, bæði fyrir hana persónulega og fyrir samfélagið. Hún er ein af mínum fyrirmyndum í lífinu,“ segir Sigurvin sem er einnig mjög stoltur af yngstu systur sinni sem er í stjórnmálum og lætur jafnrétti sig mikið varða.

Réttindi hinsegin fólks standa Sigurvini og fjölskyldu því ansi nærri og er hann ánægður með kirkjuna sína.

„Fríkirkjan í Reykjavík var fyrsta kirkjan til að blessa samkynhneigt par og hefur staðið með mannréttindabaráttu hinsegin fólks fyrir ástinni í tíð Hjartar Magna Jóhannssonar kollega míns. Þá vann sr. Ólafur Ólafsson prestur Fríkirkjunnar marga sigra í kvenréttindabaráttu Íslendinga, m.a. að tryggja kosningarétt kvenna. Það eru því forréttindi að fá að þjóna í Fríkirkjunni í Reykjavík og í anda þeirra fyrirmynda sem ég ólst upp við.“

Allir eru velkomnir í Fríkirkjuna.
Allir eru velkomnir í Fríkirkjuna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjónaband byggist á jafningjaást

Sigurvin bendir á að ákvörðun um að ganga í hjónband hafi lagalegar, félagslegar og trúarlegar víddir. Hann kýs þó að tala um giftingu í staðinn fyrir brúðkaup.

„Hin lagalega er mikilvægust og ungt fólk sem er að taka að sér mikla ábyrgð saman, í barneignum og húsnæðiskaupum, þarf að þekkja réttarstöðumun á milli sambúðar og hjónabands. Hin félagslega er að fagna ástinni, að bjóða þeim sem að parinu standa að fagna ást þeirra og verða vitni að því þegar ný fjölskylda myndast. Trúarlega víddin byggist síðan á þeirri forsendu að líf okkar sé hlaðið merkingu, þannig er hjónavígsla fyrirbæn til þjónustu sem jafningjar og lífsförunautar. Ég hef talað fyrir því að orðinu „brúðkaup“ verði skipt út fyrir önnur orð. Brúðkaup merkir bókstaflega það sem orðið segir; að kaupa brúði, og það endurspeglar ekki nútímahugmyndir okkar um hjónaband sem byggjast á jafningjatengslum og jafningjaást.“

Þurfa verðandi hjón að íhuga eitthvað áður en þau játast hvort öðru?

„Ég ræði inntak hjónavígslunnar sjálfrar við hjónaefni og táknmyndir þess. Íslenskan okkar er svo rík að myndmáli og eitt sem ég tala um er orðið fjölskylda en það er einstakt í okkar tungumáli. Ólíkt nágrannamálum okkar, sem eiga orð yfir blóðtengsl og líkindi, merkir orðið fjölskylda að við berum fjölþættar skyldur til þeirra sem tilheyra okkar ástvinaneti. Fjölskyldur eru alls konar og hafa alltaf verið og blóðtengsl eru einungis hluti af því sem tengir okkur sem fjölskyldur. Skylda sprettur af ást, annars notum við önnur orð.“

Sigurvin segir hjónavígslur geta verið allskonar og þurfa ekki að …
Sigurvin segir hjónavígslur geta verið allskonar og þurfa ekki að fara fram í kirkjum. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Hjónavígsla má vera hvar sem er

Giftingardagur fólks er einn stærsti dagur í lífi hjóna og hefur Sigurvin gefið mörg pör saman. Sum hjón kjósa að gifta sig í kirkju en önnur fara frumlegar leiðir.

„Hjónaefni heimsækja mig stundum til að „taka mig út“ og leggja mér línurnar fyrir athöfnina. Það er fallegt og sýnir að þessi dagur skiptir fólk ögurmáli. Hjónavígsla má vera hvar sem er, ég hef gift á strönd, uppi á fjalli, inni í dal, undir fossi, inni í tjaldi og sumarbústað, og síðan að sjálfsögðu í kirkjum og sölum. Það mikilvægasta er að innileikinn týnist ekki í umgjörðinni og boginn sé ekki spenntur of hátt fjárhagslega.“

Eru einhverjar hjónavígslur sérstaklega eftirminnilegar?

„Já þær eru margar og það eru forréttindi þess að vera prestur, að eiga hlutdeild í lífi fólks á mikilvægustu dögunum. Það sem stendur upp úr eru þó tvær mjög látlausar athafnir. Sú fyrri var í skugga sjúkdóms, hjón sem vissu að þau áttu ekki langan tíma saman og ætluðu að njóta hverrar stundar, hverrar mínútu. Hitt var í samstarfi við Pink Iceland. Menn frá Kanada sem komu til Íslands til að gifta sig og völdu kirkjuna á Árbæjarsafni til þess. Þeir höfðu upplifað það í lífi sínu að ást þeirra var ekki velkomin í þeim kirkjum sem þeir ólust upp í en voru þrátt fyrir það mjög trúaðir. Þeir báðu um altarisgöngu í hjónavígslunni og fengu að heyra að Guð elskar þá og vill blessa ást þeirra og líf. Það var sterk og heilandi stund sem ég gleymi aldrei,“ segir Sigurvin.

Þrátt fyrir að látlausu athafnirnar standi upp úr að mati Sigurvins hefur hann líka gefið fólk saman á mjög óvenjulegan og skemmtilegan hátt. Fyrir nokkrum árum gifti hann Svarthöfða og konu hans úti í náttúrunni. Konan var í hefðbundnum hvítum kjól en maðurinn í svarthöfðabúningi og með grímu. „Ég sagði honum að taka niður hjálminn,“ segir Sigurvin og hlær þegar hann segir frá athöfninni.

Aldrei haldið jafn neikvæða veislu

Sigurvin ljóstraði upp leyndarmáli þegar blaðamaður spurði hann út í giftingu hans og konu hans, Rakelar Brynjólfsdóttur.

„Það vita það fáir en við Rakel Brynjólfsdóttir giftum okkur í leyni fyrir mörgum árum og sögðum einungis tveimur kærum vinum frá. Blaðaviðtal klúðrar því leyndarmáli líklega. Þannig vorum við að taka ábyrgð á þeim skuldbindingum sem við höfðum gengist undir gagnvart hvort öðru og börnum okkar. Stór hluti para sem ég gifti hafa verið saman í 10 ár eða meira og það á við um okkur en við reyndum þrisvar áður en það tókst. Við buðum fyrst í hjónavígslu 21. nóvember 2020 og þá skall á fyrsti kórónufaraldur. Næst buðum við 20. febrúar 2021 og í aðdragandanum skall á ný smitbylgja. Fólkið okkar var farið að grínast með að það væri sóttvarnarhætta af boðskortunum. Loks giftum við okkur 13. nóvember 2021 en þá helgi voru settar strangar sóttvarnarreglur og allir þurftu að fara í hraðpróf á leiðinni í kirkjuna. Þetta var neikvæðasta veisla sem við höfum haldið, allir komu neikvæðir úr hraðprófi, en yndislegur dagur í alla staði.“

Sigurvin og Rakel gerðu nokkrar tilraunir til að halda almennilega …
Sigurvin og Rakel gerðu nokkrar tilraunir til að halda almennilega veislu sem tókst vel að lokum. Ljósmynd/Þröstur Már Bjarnason

Öll mannleg reynsla nýtist vel í prestsstarfinu og það er ekki hægt að læra allt í skólabókum.

„Fagmenntun presta snýst fyrst og fremst um að forða manni frá því að gera ógagn, að maður sé ekki að bera á borð hugmyndir sem standast ekki nána skoðun. Gagnið sem við gerum byggist allt á eigin reynslu og þótt maður beri ekki endilega ævisögu sína á borðið, þá er það reynsla manns sem gerir manni kleift að vera til staðar. Ég er foreldri og þess vegna veit ég hvernig það er að skíra barn og ferma barn. Við prestar störfum á báðum endum hjónabandsins, undirbúum hjónavígslur og aðstoðum fólk í skilnaði, og þar kemur reynsla mín af því að hafa gengið í gegnum skilnað að notum við að setja mig í spor annarra.

Þegar ég tala um ástina við fólk geri ég það meðvitaður um að hjónabönd geta beðið skipbrot og að ástina þarf að rækta og varðveita í hversdeginum. Ástin er heilög, sama í hvaða mynd hún birtist, og að vera heilagur þýðir að vera frátekinn. Ég er frátekinn fyrir konuna mína, fyrir fjölskylduna mína, og ég þarf að muna það alla daga. Ástin er forréttindi,“ segir Sigurvin.

mbl.is