Hægir á vexti og þrálát verðbólga

Vextir á Íslandi | 22. maí 2023

Hægir á vexti og þrálát verðbólga

Útlit er fyrir 3,1% hagvöxt á þessu ári og þráláta verðbólgu, að því er kemur fram í nýrri hagspá ASÍ.

Hægir á vexti og þrálát verðbólga

Vextir á Íslandi | 22. maí 2023

Byggingakranar í Reykjavík.
Byggingakranar í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlit er fyrir 3,1% hagvöxt á þessu ári og þráláta verðbólgu, að því er kemur fram í nýrri hagspá ASÍ.

Útlit er fyrir 3,1% hagvöxt á þessu ári og þráláta verðbólgu, að því er kemur fram í nýrri hagspá ASÍ.

Hagspáin gerir ráð fyrir að hægja muni á þeim mikla hagvexti sem einkennt hefur hagkerfið á þessu ári og því næsta.

„Mikill hagvöxtur síðasta árs var einkum drifinn áfram af einkaneyslu og bata ferðaþjónustunnar. Samkvæmt spá ASÍ verða áfram töluverð umsvif í hagkerfinu á þessu ári en hægja mun á vexti einkaneyslu og innlendrar eftirspurnar er líður á spátímann. Skýrist það meðal annars af minni kaupmætti ráðstöfunartekna og aukinni vaxtabyrði heimila. Skýr merki eru um að nú þrengi að stöðu heimila,” segir í tilkynningu.

Spáin gerir ráð fyrir að verðbólga hafi náð hámarki en verði áfram þrálát. Verði spáin að veruleika hjaðnar verðbólgan og verður 7,1% undir lok þessa árs eða að meðaltali 8,5% á árinu. Á næsta ári má vænta að verðbólga verði 5,7% að jafnaði en verði orðin 5% í lok ársins.

Fjárfestingastig í hagkerfinu lækkar lítillega yfir spátímabilið. Áætlað er að fjármunamyndun aukist um 3,3% á þessu ári en haldist að mestu óbreytt á næsta ári. Útlit er fyrir að draga muni úr opinberri fjárfestingu á þessu ári en að fjárfesting atvinnuveganna og íbúðafjárfesting aukist á sama tíma.

Íbúðafjárfesting dragist saman

Hætta er á því að íbúðafjárfesting dragist saman á næsta ári, þar sem hærri fjármagnskostnaður og minni eftirspurn eftir húsnæði kunna að hafa neikvæð áhrif á byggingaráform verktaka. Gangi það eftir er ólíklegt að áform stjórnvalda um stórfellda uppbyggingu íbúða á næstu tíu árum muni raungerast. Slík framboðstregða samhliða hraðri fólksfjölgun er líkleg til að viðhalda spennu á húsnæðismarkaði, einkum leigumarkaði í fyrirsjáanlegri framtíð, segir einnig í tilkynningunni.

Finnbjörn A. Hermannsson.
Finnbjörn A. Hermannsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru vonbrigði að sjá svo dökkar verðbólguhorfur út næsta ár. Kaupmáttur heimilanna hefur farið minnkandi og útlit fyrir að verðbólga muni áfram þrengja að fjárhagi heimilanna.  Öllu alvarlega er að sjá úrræða- og aðgerðaleysi stjórnvalda. Samkvæmt spánni er hætta á að draga muni úr íbúðafjárfestingu og því ljóst að áform um metnaðarfulla uppbyggingu íbúða gætu verið í uppnámi. Það myndi viðhalda spennu á húsnæðismarkaði, einkum leigumarkaði á næstu árum,” segir Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ.

„Ljóst er að stjórnvöld þurfa að ráðast í stórfellt átak til að ná markmiðum um húsnæðisuppbyggingu. Dragi almennir verktakar úr umsvifum verður ríkið að grípa inn í með auknu lóðaframboði og viðbótarstofnframlögum. Jafnframt verða stjórnvöld að mæta versnandi kjörum heimila, efla húsnæðisstuðning, styrkja réttindi leigjenda og endurreisa tilfærslukerfin.“

mbl.is