Verkfallsverðir fengu engin viðbrögð

Kjaraviðræður | 3. júní 2023

Verkfallsverðir fengu engin viðbrögð

„Miðað við hvernig þetta þróaðist teljum við þetta vera þess eðlis að það kalli á málsókn af okkar hálfu,“ segir Dagný Ósk Aradóttir Pind, lögfræðingur BSRB, um ákvörðun bandalagsins að stefna Snæfellsbæ vegna ítrekaðra verkfallsbrota á leikskólum sveitarfélagsins.

Verkfallsverðir fengu engin viðbrögð

Kjaraviðræður | 3. júní 2023

Frá samningaviðræðum í Karphúsinu í vikunni.
Frá samningaviðræðum í Karphúsinu í vikunni. mbl.is/Eyþór

„Miðað við hvernig þetta þróaðist teljum við þetta vera þess eðlis að það kalli á málsókn af okkar hálfu,“ segir Dagný Ósk Aradóttir Pind, lögfræðingur BSRB, um ákvörðun bandalagsins að stefna Snæfellsbæ vegna ítrekaðra verkfallsbrota á leikskólum sveitarfélagsins.

„Miðað við hvernig þetta þróaðist teljum við þetta vera þess eðlis að það kalli á málsókn af okkar hálfu,“ segir Dagný Ósk Aradóttir Pind, lögfræðingur BSRB, um ákvörðun bandalagsins að stefna Snæfellsbæ vegna ítrekaðra verkfallsbrota á leikskólum sveitarfélagsins.

Brotin lýsi sér þannig að börn hafi verið færð á milli deilda og leikskóla og annað starfsfólk ítrekað gengið í störf verkfallsfólks. Aðstoðarleikskólastjóri og sérkennslustjóri hafi til að mynda unnið inni á deildum og leyst þannig af starfsfólk í verkfalli.

„Ef meirihluti starfsfólks á deild er í verkfalli og ekki er hægt að taka við börnum þá má ekki að okkar mati flytja til starfsfólk til að halda ákveðnum deildum opnum og öðrum ekki.

Ef deildarstjórar eru í verkfalli eru deildir lokaðar. Starfsfólk eins og aðstoðarleikskólastjóri og sérkennslustjóri mega ekki ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli, heldur má leikskólastjóri gera það,“ segir Dagný og bætir við að bandalagið líti málið alvarlegum augum.

Engin svör frá Snæfellsbæ

Verkfallsaðgerðir hófust í Snæfellsbæ á þriðjudaginn og stóðu yfir í þrjá daga.

„Staðan breyttist ekki á milli þessara daga þrátt fyrir að bent hafi verið á þetta og erindi sent,“ segir Dagný og bætir við að erindi hafi verið sent strax eftir fyrsta daginn.

„Það komu engin viðbrögð við erindinu og viðmótið sem starfsfólkið fékk var að okkar mati ekki nógu gott.“

Spurð segir Dagný að BSRB hafi ekki fengið nein svör frá sveitarfélaginu, hvorki bæjarstjóra né öðrum í bæjarstjórn.

Starfsfólk sett í slæma stöðu

Þá bendir hún á að með verkfallsbrotunum hafi annað starfsfólk verið sett í mjög slæma stöðu.

„Leikskólakennarar og fólk í öðrum stéttarfélögum sem starfa þarna vilja ekki vera í þeirri stöðu að þurfa að ganga í störf starfsfélaga sinna, en við höfum fundið gríðarlega mikla samstöðu á þeim stöðum sem við höfum verið í verkfalli.“

Hún segir að önnur verkfallsbrot, sem séu minni í sniðum, hafi komið upp í öðrum sveitarfélögum, en að látið hafi verið af brotunum eftir ábendingar verkfallsvarða.

„Almennt hefur verið hlustað á okkar verkfallsverði. Þetta er annars eðlis og við teljum rétt að bregðast við því. Við viljum auðvitað að verkfallið sé virt.“

mbl.is