Túlkun Snæfellsbæjar „afar leiðinleg“

Kjaraviðræður | 4. júní 2023

Túlkun Snæfellsbæjar „afar leiðinleg“

Formaður Kjalar, aðildarfélags BSRB, segir það miður að Snæfellsbær líti svo á að verkfallsbrot hafi ekki verið framin þegar starfsfólk og börn voru færð milli leikskóla og gengið var í störf verkfallsfólks.

Túlkun Snæfellsbæjar „afar leiðinleg“

Kjaraviðræður | 4. júní 2023

Verkfallsverðir fóru með bréf á öðrum degi verkfalls í ráðhús …
Verkfallsverðir fóru með bréf á öðrum degi verkfalls í ráðhús Snæfellsbæjar. Ljósmynd/BSRB

Formaður Kjalar, aðildarfélags BSRB, segir það miður að Snæfellsbær líti svo á að verkfallsbrot hafi ekki verið framin þegar starfsfólk og börn voru færð milli leikskóla og gengið var í störf verkfallsfólks.

Formaður Kjalar, aðildarfélags BSRB, segir það miður að Snæfellsbær líti svo á að verkfallsbrot hafi ekki verið framin þegar starfsfólk og börn voru færð milli leikskóla og gengið var í störf verkfallsfólks.

BSRB hyggst stefna Snæfellsbæ fyrir Félagsdóm vegna meintra verkfallsbrota á leikskólum í Ólafsvík og á Hellissandi.

Í tilkynningu frá BSRB segir að annað starfsfólk hafi ítrekað gengið í störf verkfallsfólks og að börn hafi verið færð milli deilda og leikskóla. Bæjarstjóri Snæfellsbæjar vísar ásökunum um verkfallsbrot á bug og telur að sveitarfélagið hafi ekki gert neitt rangt.

„Það er afar leiðinlegt að Snæfellsbær sé að túlka verkfallsrétt með þessum hætti af því að ekkert svona tilvik hefur komið upp í þeim rúmlega 40 leikskólum á félagssvæði BSRB þar sem hefur verið verkfall,“ segir Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, í samtali við mbl.is.

Eigi ekki að breyta skipulaginu

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, sagði við mbl.is í gær það ekki óvanalegt að starfsfólk og börn leikskólanna séu flutt milli deilda og leikskóla. Það sé til dæmis gert þegar börnum fækki á leikskólunum og þegar veður er slæmt og ekki ráðlegt að ferðast milli bæja.

Spurð út í þessi atriði segir Jakobína að slíkt eigi ekki að tíðkast í verkföllum. Ekki eigi að breyta skipulaginu til að draga úr áhrifum verkfallsins.

„Þannig að þarna er hann að rugla saman öðrum uppákomum og verkfalli.“

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar.
Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar. Ljósmynd/Kjölur

Enginn félagsmaður Kjalar á listanum

Þá vísaði bæjarstjórinn til þess að listi hefði verið sendur á Kjöl þar sem farið var fram á að ákveðnir starfsmenn væru undanþegnir verkfallinu, meðal annars aðstoðarleikskólastjórinn.

Innt eftir viðbrögðum við listanum segir Jakobína:

„Þetta er undanþágulisti sem hann setur fram eins og allir aðrir opinberir vinnuveitendur fyrir 1. febrúar ár hvert og það var enginn félagsmaður Kjalar á þessum undanþágulista að mér vitandi, þetta eru fagmenntaðir leikskólastjórar. Þetta er samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og það er mjög takmarkað hvaða starfsstéttir fara á þessa lista.“

Hafði engin áhrif

Í tilkynningu frá BSRB segir að verkfallsbrotin hafi ítrekað verið framin frá upphafi vikunnar þrátt fyrir kröfu Kjalar um að látið yrði tafarlaust af háttseminni.

„Verkfallsverðir fóru með bréf á öðrum degi verkfalls í ráðhús Snæfellsbæjar þar sem óskað var eftir því að gripið yrði tafarlaust inn í. Bæjarstjóri var ekki við þannig að þeir afhentu bæjarritara bréfið en það hafði engin áhrif daginn eftir, það var allt við það sama,“ segir Jakobína.

„Ég hefði náttúrulega óskað þess að þurfa ekki að fara fyrir Félagsdóm með svona sjálfsagt mál að virða verkfall og verkfallsvörslu félagsmanna, en við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ef það verða breytingar á morgun í verkfalli þá kannski endurskoðum við það, en ekki fyrr.“

Samninganefndir BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga funda nú í Karphúsinu. Ef ekki næst að semja í dag munu hátt í 2.500 manns leggja niður störf á morgun.

mbl.is