Skilaboðin séu skýr: „Sömu laun fyrir sömu störf“

Kjaraviðræður | 7. júní 2023

Skilaboðin séu skýr: „Sömu laun fyrir sömu störf“

Varaformaður BSRB segir Samband íslenskra sveitarfélaga ekki geta boðið starfsfólki upp á að hafa misjöfn laun fyrir sömu störf. Engin skynsemi sé í þess háttar fyrirkomulagi.

Skilaboðin séu skýr: „Sömu laun fyrir sömu störf“

Kjaraviðræður | 7. júní 2023

Samstöðufundur með félagsmönnum BSRB var haldinn í dag.
Samstöðufundur með félagsmönnum BSRB var haldinn í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varaformaður BSRB segir Samband íslenskra sveitarfélaga ekki geta boðið starfsfólki upp á að hafa misjöfn laun fyrir sömu störf. Engin skynsemi sé í þess háttar fyrirkomulagi.

Varaformaður BSRB segir Samband íslenskra sveitarfélaga ekki geta boðið starfsfólki upp á að hafa misjöfn laun fyrir sömu störf. Engin skynsemi sé í þess háttar fyrirkomulagi.

„Það getur ekki valdið nema óánægju og það getur líka eitrað út frá sér til framtíðar. Við bara skiljum ekki af hverju þessi staða er komin upp að vilja ekki leiðrétta þennan mun, sem er í sjálfu sér einföld aðgerð,“ segir Þórarinn Eyfjörð, varaformaður BSRB, í samtali við mbl.is á samstöðufundi í dag.

Samstöðufundur var haldinn fyrir utan húsakynni Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag þar sem tugir voru samankomnir til að sýna samstöðu með félagsmönnum BSRB sem eru í verkfalli.

Þúsund spurningar vakna

„Þetta er eitt flottasta frumkvæði í verkfallsaðgerðum sem ég hef séð. Þetta er algjörlega sjálfsprottið, hér kemur fólk utan höfuðborgarsvæðisins og er að skipuleggja þessa baráttu hér. Skilaboðin eru algjörlega skýr, sömu laun fyrir sömu störf. Það er bara kjarninn, þetta er ekkert flóknara en það,“ segir Þórarinn.

„Við erum með stórt launakerfi sem hefur verið sameiginlegt verkefni. Ég lít svo á að nú sé það undir líka, hvort við eigum að virkja það eða hvort við eigum bara að leggja það niður og taka upp eitthvað allt annað kerfi, sem væri þá miklu flóknara.

Það vakna þúsund spurningar bara út af því misrétti sem verið er að sýna starfsmönnum. Núna verður fólk að stíga fram og ná sátt þannig að við getum haldið áfram.“

„Sömu laun fyrir sömu störf,“ heyrðist hrópað á fundinum.
„Sömu laun fyrir sömu störf,“ heyrðist hrópað á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðtækar verkfallsaðgerðir hófust á mánudaginn í 29 sveitarfélögum, þegar 2.500 manns lögðu niður störf. Síðasta fundi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga lauk í gær og hefur nýr fundur enn ekki verið boðaður.

„Ég vona að ríkissáttasemjari fari að kalla samninganefndirnar saman aftur og fólk hafi það sem þurfi til þess að klára þetta mál,“ segir Þórarinn að lokum.

mbl.is