Getur ekki hætt að hugsa um álit annarra

Andleg heilsa | 18. júlí 2023

Getur ekki hætt að hugsa um álit annarra

Kona hefur áhyggjur af því að hún velti áliti annarra á sér of mikið fyrir sér. Hún á erfitt með að hætta því og leitar því ráða hjá sérfræðingi.

Getur ekki hætt að hugsa um álit annarra

Andleg heilsa | 18. júlí 2023

Unsplash/Ben White

Kona hefur áhyggjur af því að hún velti áliti annarra á sér of mikið fyrir sér. Hún á erfitt með að hætta því og leitar því ráða hjá sérfræðingi.

Kona hefur áhyggjur af því að hún velti áliti annarra á sér of mikið fyrir sér. Hún á erfitt með að hætta því og leitar því ráða hjá sérfræðingi.

Ég ólst upp hjá ástríkum foreldrum og átti ánægjulega æsku. Ég hef þó áttað mig á því að viðvarandi lágt sjálfsálit er farið að hamla mér.

Þegar ég var að alast upp átti ég slæmt samband við bróður minn, sem ég held að hafi verið illa við mig vegna þess að ég var barn fjölskyldunnar sem var námslega hæfileikaríkast. Ég þoldi illa stöðuga höfnun hans og að vera sífellt aðhlátursefni í augum hans. Síðustu árin mín í skólanum varð ég fyrir einelti frá hópi sem ég reyndi, en mistókst, að verða hluti af. Þau gerðu stöðugt lítið úr mér undir því yfirskini að það væri grín.

Núna er ég í framhaldsnámi og ég hef stundað nám í bestu háskólunum en er uggandi yfir því að lífsval mitt sé háð þörfinni fyrir að sanna mig. Mögulega stafar það af rótgróinni óöryggistilfinningu. Í menntaskóla byggði ég sjálfsvirði mitt á námsárangri. Í háskólanum þróaði ég með mér þráhyggju fyrir ræktinni og í kjölfarið átröskun. Mér leið eins og yrði vinsælli ef ég væri með fullkomna líkamsbyggingu. 

Ég hugsa stöðugt um hvað öðrum finnst um mig og ég þoli ekki tilhugsunina um að þóknast ekki fólki. Hvernig get ég hætt að hugsa stöðugt um álit annarra á mér?

Svar sérfræðingsins:

Þú lifir lífi þínu út frá ytri tilvísunum. Það þýðir að allt sem þú gerir er afleiðing þess sem þú ímyndar þér að annað fólk haldi um þig. Áskorun þín er að vísa frekar inn á við, sem þýðir að þú þarft að hafa það að leiðarljósi hvernig gjörðir þína láta þér líða. Gerðu það sem þér þykir gott, ekki það sem þú heldur að myndi líta vel út fyrir aðra.

Eldri börn finna oft fyrir því að yngra systkini steli af þeim athyglinni og í stað þess að ávíta foreldrana fyrir að hafa eignast annað barn, láta þau það bitna á yngra systkininu. Hlutverk fórnarlambsins og gerandans verða vanabundin og yngra systkini getur haldið að ef það myndi gera allt rétt í augum eldra systkinisins þá yrði allt í lagi, en það gerist aldrei. Samböndin sem við myndum á barnsaldri verða fyrirmyndin að samböndum okkar sem unglingar og fullorðnir.

Þú lýsir sambandi þínu við bróður þinn sem höfnun og háði. Hann stóð fyrir það sem í þínum augum var vinsælt, þér fannst þú utangarðs en þráðir vinsældir. Þú sóttist eftir svipaðri dýnamík þegar þú varst í menntaskóla. Þetta er það sem mannshugurinn gerir við ókláruð verkefni, við leitum ómeðvitað uppi svipaða dýnamík og við fundum fyrir heima til að reyna að klára þau. Það er eins og við teljum okkur trú um að þessu sinni fáum við þau til að samþykkja okkur. En það sem gerist er að sama mynstrið endurtekur sig, í þínu tilviki höfnun og háð. Við þráum að hafa stjórn á þessum eitruðu samböndum en það er ómögulegt.

Átraskanir þróast oft vegna þess að ólíkt samböndunum getur viðkomandi stjórnað því sem fer ofan í hann. Í raun og veru vitum við að hið fullkomna líkamsræktarkerfi gerir okkur ekki vinsælli. Á hverjum degi sjáum við alls konar fólk sem líður þægilega í eigin skinni. Því líður vel án þess að þurfa að leggja áherslu á að eitthvað sérstakt. Ég held að þú vitir þetta allt en ég skrifa þetta samt til að hjálpa þér að skilja þig frá því sem gæti verið eitrað hugsanamynstur og heldur aftur af þér.

Sýndu tilfinningum þínum áhuga og þegar þú áttar þig á því að þú vilt vekja hrifningu eða að þér finnist þú vera skilin útundan, skaltu óska þér til hamingju með að hafa komið auga á tilfinninguna en ekki bregðast við henni. Segðu sjálfri þér að þetta sé stóri bróðir þinn að tala og það tilheyri fortíðinni, ekki nútíðinni. Þú þarft samt að æfa þetta.

Okkur er annt um álit annarra á okkur. Við viljum eiga vingjarnlegt samstarfsfólk og nána vini, það skiptir máli. Fólk mun vilja vera í kringum þig út af því hver þú í raun ert, ekki vegna þess sem þú vilt eða þykist vera. Verðleikar þínir snúast ekki um það sem þú gerir, heldur að vera umhyggjusöm og góð manneskja.

Vertu þú sjálf, frekar en sú sem þú heldur að þú ættir að vera. Hið fyrra er hið raunverulega og hið seinna er fölsuð útgáfa af sjálfri þér. Slepptu takinu á því að reyna að stjórna því hvernig aðrir sjá þig og skildu fortíðina eftir í fortíðinni. 

Guardian

mbl.is