Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í samtali við mbl.is. að færa megi rök fyrir því að vextir hafi farið of langt niður hjá Seðlabankanum á tímabili á sama tíma og kaupmáttur var að vaxa jafn hratt og hann gerði.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í samtali við mbl.is. að færa megi rök fyrir því að vextir hafi farið of langt niður hjá Seðlabankanum á tímabili á sama tíma og kaupmáttur var að vaxa jafn hratt og hann gerði.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í samtali við mbl.is. að færa megi rök fyrir því að vextir hafi farið of langt niður hjá Seðlabankanum á tímabili á sama tíma og kaupmáttur var að vaxa jafn hratt og hann gerði.
Stýrivextir voru lægstir 0,75% undir lok árs 2020 og fram á vorið 2021. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kynnir vaxtaákvörðun sína síðar í mánuðinum.
Bjarni segir að í sínum huga skipti mestu að á Íslandi sé hátt atvinnustig og nýlega hafi verið gerðir kjarasamningar.
„Ef okkur tekst að halda áfram á þessari braut mun verðbólgan koma niður. Þá getum við með réttu haft væntingar um að vextir lækki en það er ekki tímabært í dag að hafa væntingar um vaxtalækkanir núna í aðdraganda vaxtaákvörðunar.“
Þá segir hann verðbólguna á niðurleið þó að sú þróun þurfi að halda áfram.
„Ég held að það sé allt of snemmt að segja að við höfum sigrast á verðbólgunni vegna þess að verðbólgutölurnar eru ennþá nokkuð háar og mjög óvarlegt að vera uppi með væntingar um vaxtalækkanir á þeim tímapunkti.“
Segist ráðherrann hafa talað fyrir því að allir legðust á árarnar núna.
„Ég tel að launahækkanir hér á Íslandi undanfarna 12-18 mánuði hafi verið meiri en innstæða var fyrir.“ Segir hann kastljósið hafa verið sett á ríkisfjármálin og við því hafi hann sagt að þau séu að taka við sér mjög ört - hraðar en vonir gerðu ráð fyrir.
Bjarni segir okkur komin langt fram úr væntingum á þessu ári á tekjuhliðinni og að afkoman í ár verði miklum mun betri heldur en fjárlög gera ráð fyrir.
„Það sýnir að krafturinn í hagkerfinu skilar sér til baka eins og við sögðum í upphafi.“
Afkoman er langt á undan áætlun að sögn Bjarna og segir hann tekjuhliðina vera komna fram úr því sem spáð var í vor.
„Þannig að það styttist í að við náum afgangi í ríkisfjármálum og það er afkomubatinn í ríkisfjármálum sem skiptir máli við þessar aðstæður, það er að segja að þessi miklu umsvif í hagkerfinu skili sér á tekjuhliðinni og það er akkúrat að gerast núna.“
Segir Bjarni stóru spurninguna nú vera hvernig okkur tekst að stilla saman strengi til þess að halda þeim ávinningi sem við höfum landað á undanförnum árum og misserum og byggja á þeim grunni inn í framtíðina.
„Þar kannski skiptir hvað mestu hvernig spilast úr kjarasamningalotunni næstu.“
Nú hafa aðilar vinnumarkaðarins talað um að næsta kjarasamningalota gæti einkennst af slagsmálum...
Bjarni tekur af blaðamanni orðið og segir: „Já, ég hef aldrei heyrt þá tala öðruvísi.“
Hann segir að nálgast þurfi verkefnið út frá reynslu og staðreyndum og hvað reynsla kynslóðanna hefur kennt okkur.
„Það er einfaldlega það að menn þurfa að sýna hófsemd og taka ekki meira út en innstæða er fyrir því annars mun það koma í bakið á þeim. Ef menn meina eitthvað með því að þeir vilji fá verðbólguna niður og þar með vextina þá þarf að haga sér í samræmi við það.“
Þá segir hann að mikilvægt sé að menn falli ekki í þá gryfju að reyna að finna sökudólg.
„Ég flutti einu sinni ræðu á Alþingi þar sem ég sagði: Nú hefst leikurinn, hver er sökudólgurinn? Það mun engu skila að menn byrji að benda fingri hver á annan.
Við í ríkisstjórninni erum að auka aðhaldið og við erum að þrengja verulega að ráðuneytum og undirstofnunum þeirra. Við erum þá að fresta útgjaldamálum og munum fara nánar ofan í saumana á því núna þegar fjárlögin verða kynnt.“
Ráðherrann segir lykilatriðið varðandi svigrúm til launahækkana vera framleiðniaukningu í landinu. Segir hann framleiðniaukningu á Íslandi einfaldlega hafa verið of litla undanfarin ár.
„Þegar laun voru hækkuð eins og gert var í síðustu lotu – ég held að það sé augljóst af einkaneyslunni í landinu að launahækkanir hafi verið hluti af þeirri spennu sem hefur myndast hér á landi. Haldi menn áfram á þessari braut þá mun það viðhalda verðbólgunni.“
Segist hann halda að vaxtalækkanir hafi einnig verið hluti af spennunni.
„Hefði mátt vera með meira aðhald í ríkisfjármálum? Já, mögulega, en við vorum að reyna að rífa hagkerfið upp úr lægðinni eftir Covid-ið. Við höfum stóraukið aðhaldið eftir það. Aðhaldið árið 2022 var til dæmis gríðarlegt og var vanmetið á þeim tíma sem við vorum að ræða um það í fyrra. Ég tel að ríkisreikningurinn árið 2022 muni sýna það.“
Það er ljóst að verkefnið fram undan er verðugt en Bjarni er bjartsýnn á framhaldið ef allir leggjast á árarnar núna. Segir hann jákvæð teikn á lofti og að staðan á Íslandi sé jafnframt á margan hátt mjög öfundsverð.