„Algjör svívirða“

Húsnæðismarkaðurinn | 24. ágúst 2023

„Algjör svívirða“

„Mér finnst bara algjör svívirða að fara svona með eignir Kópavogsbúa. Það er ekkert jafnræði í þessu og ákvörðunin dregur úr virkri samkeppni á byggingarmarkaði,“ segir Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata, um ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs um að úthluta lóðum með verðmætum byggingarrétti við sjávarsíðuna í Kársnesi, til Fjallasólar ehf.

„Algjör svívirða“

Húsnæðismarkaðurinn | 24. ágúst 2023

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti Pírata í Kópavogi, gagnrýnir meðferð málsins …
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti Pírata í Kópavogi, gagnrýnir meðferð málsins um þróunarreit 13 á Kársnesi hjá Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra. Samsett mynd

„Mér finnst bara algjör svívirða að fara svona með eignir Kópavogsbúa. Það er ekkert jafnræði í þessu og ákvörðunin dregur úr virkri samkeppni á byggingarmarkaði,“ segir Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata, um ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs um að úthluta lóðum með verðmætum byggingarrétti við sjávarsíðuna í Kársnesi, til Fjallasólar ehf.

„Mér finnst bara algjör svívirða að fara svona með eignir Kópavogsbúa. Það er ekkert jafnræði í þessu og ákvörðunin dregur úr virkri samkeppni á byggingarmarkaði,“ segir Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata, um ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs um að úthluta lóðum með verðmætum byggingarrétti við sjávarsíðuna í Kársnesi, til Fjallasólar ehf.

Lóðunum var úthlutað án auglýsingar og samkomulagið undirritað af Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra án þess að það væri lagt fyrir bæjarráð, að sögn Sigurbjargar. Um er að ræða lóðir á þróunarreit nr. 13 á svokölluðu þróunarsvæði Kársnes í Kópavogi, þar sem gert er ráð fyrir 150 íbúðum.

Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti svo samkomulagið á fundi á þriðjudag með sex atkvæðum, gegn fimm atkvæðum minnihlutans sem jafnframt lagði fram bókun á fundinum þar sem samningurinn var meðal annars fordæmdur, sem og meðferð málsins.

Núverandi ásjón svæðisins.
Núverandi ásjón svæðisins. Kort/ja.is

Fjallasól í eigu Langasjávar 

Fjallasól ehf. er í eigu eignarhaldsfélagsins Langasjávar ehf. en það félag er í eigu systkinanna Eggerts, Halldórs, Guðnýjar Eddu og Gunnars Þórs Eggertsbarna, sem gjarnan eru kennd við Mata fyrirtækið.

Sigurbjörg segir umrædda fjárfesta hafa verið að kaupa upp eignir á reitnum og eftir þau kaup hafi þeir verið lóðarhafar af rúmlega helmingi lóðanna áður en samkomulagið var gert. Kópavogsbær hafi átt nokkrar lóðir og einnig Hjálparsveit skáta í Kópavogi.

Að sögn Sigurbjargar höfðu fjárfestarnir reynt að ná samkomulagi við hjálparsveitina um kaup á húsnæði þeirra, án árangurs. Óskuðu fjárfestar því eftir því að Kópavogsbær hefði milligöngu og myndi kaupa húsnæðið af hjálparsveitinni og finna þeim annað húsnæði, sem bærinn gerði.

Alvarlegt að fara gegn reglum Kópavogs

„Í öllu þessu ferli á síðasta kjörtímabili var það alltaf skýrt í umræðunni að þetta yrði svo auglýst eða boðið út, sem og aðrar lóðir Kópavogsbæjar á reitnum. Þetta kom okkur því að óvörum þegar samningurinn kom inn í bæjarráð í síðustu viku, undirritaður af bæjarstjóra. Þetta var aldrei rætt hérna,“ segir Sigurbjörg.

Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki bæjarráðs, en Sigurbjörg segir það bara formsatriði að meirihlutinn afgreiði málið.

Svæðið á reit 13 á Kársnesi samkvæmt nýjum deiliskipulagshugmyndum. Miklar …
Svæðið á reit 13 á Kársnesi samkvæmt nýjum deiliskipulagshugmyndum. Miklar breytingar yrðu þar. Kort/Kópavogur

Hún bendir á að í Kópavogi séu í gildi reglur um úthlutun á byggingarrétti þar sem kveðið sé á um að allar lóðir skuli auglýstar á vef Kópavogsbæjar í að minnsta kosti tvær vikur áður en þeim sé úthlutað.

„Mér finnst alvarlegast að fara gegn reglum sem Kópavogsbær hefur sett sér um úthlutanir.“

Rökin halda ekki vatni 

Meirihlutinn lagði jafnframt fram bókun á fundinum á þriðjudag þar sem segir að til að standa vörð um hagsmuni Kópavogsbæjar sé nauðsynlegt að ganga frá samkomulagi við lóðarhafa um byggingarréttargjald áður en deiliskipulagið sé sett í auglýsingu. Með samkomulaginu sé tryggt að uppbyggingaraðilar taki þátt í kostnaði við innviðauppbyggingu á svæðinu.

„Til að tryggja heildstæða uppbyggingu á reitnum er nauðsynlegt að úthluta hluta af lóðum bæjarins á reitnum, til uppbyggingaraðila. Við úthlutun á lóðum bæjarins var tekið mið af markaðsverði og vandlega farið yfir allar forsendur í því samhengi," segir jafnframt í bókuninni.

„Þau segja að þetta sé eina færa leiðin, að allar þessar lóðir séu á einni hendi því skipulagið sé svo flókið. Þau rök halda þó engu vatni því í samkomulaginu sem er undirritað er talað um að lóðunum verði svo skipt upp og að aðrir aðilar geti komið að einstaka lóðum,“ segir Sigurbjörg.

„Þarna er bara verið afhenda gífurlega mikla fjármuni í einar og sömu hendurnar.“

Aðeins gert ráð fyrir lúxusíbúðum 

Þá geri skipulagið ekki ráð fyrir félagslegri blöndun, og því allar líkur á að aðeins verði um dýrar lúxus íbúðir að ræða. Aðeins sé kvöð um að 10 prósent íbúða verði 1-3 herbergja íbúðir undir 90 fermetrum.

Engin krafa sé um að eitthvað hlutfall íbúða falli undir hlutdeildarlán eða verði á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga.

„Allt frá upphafi máls hefur allt í kringum þennan reit verið einn stór skrípaleikur á vegum fjárfesta annars vegar og meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hins vegar. Deiliskipulagið var alfarið unnið á forsendum fjárfestanna og einhvern veginn sitja Kópavogsbúar uppi með skipulag sem felur í sér 30% meira byggingarmagn en samþykkt deiliskipulagslýsing kveður á um,” segir Sigurbjörg.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti Pírata í Kópavogi.
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti Pírata í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is