„Ég átti aldrei auðvelt með athyglina“

Samhjálp | 24. ágúst 2023

„Ég átti aldrei auðvelt með athyglina“

Gunnbjörg Óladóttir og fjölskylda hennar voru meðal þeirra sem mótuðu og byggðu upp starf Samhjálpar á upphafsárum samtakanna. Faðir hennar, Óli Ágústsson, var framkvæmdastjóri þeirra í yfir tuttugu ár. Hann var þekktur rokksöngvari þegar hann var ungur maður og því lá nokkuð beint við að setja saman fjölskylduhljómsveit og gefa út plötur. Gunnbjörg og bræður hennar sungu með föður sínum og þessar plötur náðu metsölu, langt umfram gullplötur þess tíma. Hún segir sögu sína í tímariti Samhjálpar. 

„Ég átti aldrei auðvelt með athyglina“

Samhjálp | 24. ágúst 2023

Gunnbjörg Óladóttir er prestur í Noregi.
Gunnbjörg Óladóttir er prestur í Noregi. Ljósmynd/Samsett

Gunnbjörg Óladóttir og fjölskylda hennar voru meðal þeirra sem mótuðu og byggðu upp starf Samhjálpar á upphafsárum samtakanna. Faðir hennar, Óli Ágústsson, var framkvæmdastjóri þeirra í yfir tuttugu ár. Hann var þekktur rokksöngvari þegar hann var ungur maður og því lá nokkuð beint við að setja saman fjölskylduhljómsveit og gefa út plötur. Gunnbjörg og bræður hennar sungu með föður sínum og þessar plötur náðu metsölu, langt umfram gullplötur þess tíma. Hún segir sögu sína í tímariti Samhjálpar. 

Gunnbjörg Óladóttir og fjölskylda hennar voru meðal þeirra sem mótuðu og byggðu upp starf Samhjálpar á upphafsárum samtakanna. Faðir hennar, Óli Ágústsson, var framkvæmdastjóri þeirra í yfir tuttugu ár. Hann var þekktur rokksöngvari þegar hann var ungur maður og því lá nokkuð beint við að setja saman fjölskylduhljómsveit og gefa út plötur. Gunnbjörg og bræður hennar sungu með föður sínum og þessar plötur náðu metsölu, langt umfram gullplötur þess tíma. Hún segir sögu sína í tímariti Samhjálpar. 

Mikið var um tónlist og tónlistariðkun í fjölskyldu Gunnbjargar. Hún söng í Fíladelfíukórnum og spilaði á gítar og bræðurnir spiluðu á hljóðfæri. Þau systkinin og faðir þeirra kölluðu sig Fjölskyldan fimm og fyrsta platan kom út árið 1984. Hét hún Heyr þú minn söng og tveimur árum síðar kom önnur, Þú ert mér nær.

Hver var aðdragandinn að því að ákveðið var að ráðast í plötuútgáfu til styrktar Samhjálp? „Þetta voru hvoru tveggja breiðskífur og bækur sem voru útgefnar. Það var gagngert til að styrkja starfið og auka það, byggja upp og bæta við aðstöðuna,“ segir Gunnbjörg. „Mig minnir að alls hafi komið út fimm plötur. Tvær með kór Fíladelfíu, ein með Garðari og Önnu og Ágústu, ein með Fjölskyldunni fimm og svo var ég með sólóplötu undir lokin. Loks var gefinn út geisladiskur með safni af þessu öllu.“

Plötuútgáfa á Íslandi er almennt ekki talin neinn gróðavegur. Höfðuð þið fyrir fram gert einhverja könnun á áhuga eða selt í forsölu? „Ekkert slíkt. Eins og ég segi var þetta fyrst og fremst hugsað sem styrktarleið og salan fór þannig fram að það var farið í hvert hús á landinu til að vekja athygli á starfinu og selja varninginn.“

Gunnbjörg prestur í Noregi söng inn á vinsælar hljómplötur.
Gunnbjörg prestur í Noregi söng inn á vinsælar hljómplötur.

Hitti Leonard Cohen

Plöturnar ykkar náðu metsölu og fóru margar umfram það sem vinsælustu listamenn þessara ára gátu vænst í sölu á verkum sínum. Hverju þakkar þú það? „Það er að þakka velvilja þjóðarinnar í garð þeirra sem verst voru settir, trúi ég,“ segir Gunnbjörg. „Og svo hefur söngur Hvítasunnumanna á Íslandi alltaf notið ákveðinna vinsælda, eða gerði það hér áður allavega.“

Þú varst sennilega fyrst Íslendinga til að syngja hið vinsæla lag Leonards Cohen, Hallelujah, inn á plötu, með íslenskum texta föður þíns, en margir hafa spreytt sig á því síðan. En lagið kom út á Þú ert mér nær. Hvernig kom það til? 

„Það var tilviljun að við sáum þátt um Leonard Cohen og heilluðumst af honum öll sem eitt. Hallelujah-lagið lá vel við höggi í ljósi andans sem ræktaður var í starfinu og ábreiðan okkar var reyndar sú fyrsta í heiminum, segja þeir sem best vita.“

Við höfum heyrt að þú hafir hitt Leonard Cohen sjálfan og hann verið ánægður með flutning þinn á laginu sínu. Er það rétt? „Ég hitti Leonard Cohen í Höfða, þá var Listahátíð í Reykjavík 1988, og mér var boðið að vera við móttökuna og hitta hann,“ segir Gunnbjörg. „Hann var afskaplega viðkunnanlegur, hlýr maður, enda vitur. Enginn hafði hugboð þá um vinsældir Hallelujah-lagsins, þannig að ég veit svo sem ekki hvað honum fannst um það en veit að hann breytti textanum síðar. Hann kemur úr gyðinglegum bakgrunni og var búddisti þannig að kannski vildi hann gæta þess að hafa textann innan síns eigin hugmyndaheims.“

Hamingjan býr í hinu ósýnilega

Við þetta tækifæri færði Gunnbjörg honum eintak af plötunni. Söngur þinn á þessum plötum vakti athygli og þú fórst í viðtöl í fjölmiðlum. Hvað fannst þér um athyglina? „Ég átti aldrei auðvelt með athyglina og ákvað strax þá að það ætti ekki við mig. Hamingjan býr í hinu ósýnilega, segja franskir vitringar.“

Faðir Gunnbjargar, Óli Ágústsson, var forstöðumaður Samhjálpar frá árinu 1977 til 2000. Hann tók virkan þátt í vinnu við útgáfustarfsemina og samdi texta við mörg laganna. Allar voru plöturnar vandaðar og fjöldi þekktra íslenskra tónlistarmanna kom að gerð þeirra, meðal annars Björn Thoroddsen og Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla). En syngur Gunnbjörg enn?

„Ég syng bara með mínu nefi hér í Guðbrandsdalnum. Það kemur sér vel í guðsþjónustum því það eru engir kirkjukórar í sveitinni,“ segir hún, en Gunnbjörg lauk BA-prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í trúarbragðafræði frá Háskólanum í Edinborg. Hún er nú búsett í Noregi og gegnir prestsembætti í Guðbrandsdal.

Vann með skóla hjá Samhjálp

Í árdaga starfsins hjá Samhjálp komu margar hendur að uppbyggingunni. Óli og öll hans fjölskylda sýndu óþrjótandi dugnað og eldmóð í því starfi. Tókst þú þátt í starfinu að öðru leyti en að leggja til röddina þína á plötum? „Já, já, ég vann í Hlaðgerðarkoti og við göngudeildina. Ég var meira og minna með í öllu prógramminu með skóla. Ég vann að dagskrárgerð í Hlaðgerðarkoti, það voru hópfundir og kennslufundir í Hlaðgerðarkoti. Það var samkomuhald og á göngudeildinni snerist starfið meira og minna um viðtöl við þá sem voru komnir út í lífið og eða aðstandendur.“

Gunnbjörg tók líka virkan þátt í starfi Dorkas-hópsins, hóps kvenna sem komu saman til að styðja hver aðra. Í síðasta tölublaði Samhjálpar birtist viðtal við séra Sigrúnu Óskarsdóttur. Þar lýsir hún því hve einstakt henni fannst andrúmsloftið í Dorkas-hópnum og það bænastarf sem þar fór fram. Getur þú sagt okkur frá Dorkas-hópnum, hvenær hann var stofnaður og hver tilgangurinn var?

„Dorkas-hópurinn var stofnaður 1982 og við byrjuðum að hittast í Þríbúðum í Hverfisgötu árið eftir. Markmiðið var að búa til hóp sem eingöngu væri skipaður konum þannig að konur gætu opnað sig betur um sértæk mál kvenna. Það getur verið auðveldara fyrir konur að tala við konur. Það gefur augaleið. Ég var alin upp í þannig umhverfi að fyrir mér var opið samtal og að biðja saman mjög eðlilegt. Þetta var allt nýtt fyrir Sigrúnu. Ég áttaði mig ekkert á því hversu stórt mál þetta var fyrir henni fyrr en ég las þetta viðtal. Ég held að það sé ekkert endilega hægt að lýsa andrúmsloftinu en held að þar sem skapast rými fyrir manneskjuna að opna á viðkvæmustu reynslu sína eða hliðar, þar býr það heilaga.“

Krefjandi umhvörf að taka við preststarfi í Noregi

Í dag er Gunnbjörg starfandi prestur í Noregi. Hvers vegna flutti hún þangað? „Það kom til af tvennu, ég hafði farið aftur í HÍ til að taka þau fög sem á vantaði til prestsstarfs. Fékk vinnu hér hratt og örugglega og það hjálpaði að vera í Guðbrandsdal, þar sem bróðir minn er starfandi prestur hér. Þau hjónin voru búin að vera hér í áratug þegar ég kom og það hjálpaði til við hvar ég endaði.“

Hvenær tókstu við starfinu og hvernig líkar þér? „Ég kom hingað í Guðbrandsdalinn í ágúst 2021. Þetta hafa verið krefjandi umhvörf, nýtt umhverfi, nýtt tungumál og nýtt starf að fást við, og eiginlega brjálað að gera í þann tíma sem ég hef verið hér. Hefði aldrei komið í hug að óreyndu að prestsstarf í sveit væri svo annasamt. Skipulag og starfsumhverfi kirknanna hér er mjög gott og það hjálpar. Umhverfið er heillandi en ég hef lítinn tíma haft til að kanna króka og kima vegna anna. Það lagast vonandi með vaxandi reynslu í starfi. Annars verð ég gömul og lúin fyrir aldur fram,“ segir Gunnbjörg.

Vildir þú ekki vera prestur á Íslandi? „Jú og nei, andúðin í garð kirkjunnar á Íslandi gengur stundum fram af mér, en það eru sjálfsagt margar ástæður þar að baki. Ég vildi kannski frekar byrja á nýjum slóðum, þar var lítil bið á tækifærunum. En það er hins vegar aldrei að vita hvað verður í framtíðinni. Ekkert er endanlegt.“

Samhjálp stórkostlegur skóli

Er Guðbrandsdalur afskekktur staður? „Nei, alls ekki. Hann er frekar sunnarlega og liggur frá Lillehammer út til Leisja. Um Guðbrandsdalinn liggur þessi fræga Ólafs helga pílagrímaleið en hún nær frá Ósló til Niðaróss (Þrándheims) og drýgstur hlutinn um dalinn. Hér er vinsælt sumarbústaðasvæði og á sumrin og í öllum fríum eru hér mjög margir Norðmenn. Svo á Haraldur Noregskonungur hér hestabúgarð í fjöllunum og þar höfum við sér guðsþjónustu fyrir hann og fylgilið hans á föstudaginn langa. Það verður mitt hlutverk næsta ár ef við lifum bæði.“

Hugsar þú stundum til baka til þeirra tíma þegar þú vannst fyrir Samhjálp og saknar þú þeirra á einhvern hátt? „Nei, ég geri það nú ekki en þetta var alveg stórkostlegur skóli að fara í gegnum og alveg einstakt að vera þátttakandi í þessu starfi og uppbyggingunni allri. Fólkið sem ég hitti í þessum aðstæðum er ógleymanlegt og verður mér alltaf mjög kærkomið. Ég gat líka tengt þetta við guðfræðinámið en starf á stofnun er hluti af náminu þannig að það nýttist inn í námið, fyrir utan alla reynsluna af samskiptum við fólk sem deilir hlut sínum með öðrum á einarðan hátt,“ segir Gunnbjörg að lokum.

mbl.is