„Auðvitað upplifði ég hræðslu að vera 26 ára með krabbamein“

Heilsurækt | 2. september 2023

„Auðvitað upplifði ég hræðslu að vera 26 ára með krabbamein“

Hinn 27. júlí 2022 fagnaði Ísak Eldjárn Tómasson tveggja ára edrúafmæli sínu. Hann var þá  nýbúinn að opna kaffihús á Selfossi ásamt föður sínum og var með marga spennandi bolta á lofti. Degi síðar, eða hinn 28. júlí, greinist hann hins vegar með krabbamein aðeins 26 ára gamall. Við tóku krefjandi mánuðir af veikindum og lyfjameðferðum. Þrátt fyrir það einkenndist hugarfar hans frá byrjun af mikilli jákvæðni og þrautseigju, en í dag hefur hann sigrast á krabbameininu og horfir öðrum augum á lífið og heilsuna.

„Auðvitað upplifði ég hræðslu að vera 26 ára með krabbamein“

Heilsurækt | 2. september 2023

Ísak Eldjárn Tómasson var 26 ára gamall og í blóma …
Ísak Eldjárn Tómasson var 26 ára gamall og í blóma lífsins þegar hann greindist með sjaldgæft krabbamein.

Hinn 27. júlí 2022 fagnaði Ísak Eldjárn Tómasson tveggja ára edrúafmæli sínu. Hann var þá  nýbúinn að opna kaffihús á Selfossi ásamt föður sínum og var með marga spennandi bolta á lofti. Degi síðar, eða hinn 28. júlí, greinist hann hins vegar með krabbamein aðeins 26 ára gamall. Við tóku krefjandi mánuðir af veikindum og lyfjameðferðum. Þrátt fyrir það einkenndist hugarfar hans frá byrjun af mikilli jákvæðni og þrautseigju, en í dag hefur hann sigrast á krabbameininu og horfir öðrum augum á lífið og heilsuna.

Hinn 27. júlí 2022 fagnaði Ísak Eldjárn Tómasson tveggja ára edrúafmæli sínu. Hann var þá  nýbúinn að opna kaffihús á Selfossi ásamt föður sínum og var með marga spennandi bolta á lofti. Degi síðar, eða hinn 28. júlí, greinist hann hins vegar með krabbamein aðeins 26 ára gamall. Við tóku krefjandi mánuðir af veikindum og lyfjameðferðum. Þrátt fyrir það einkenndist hugarfar hans frá byrjun af mikilli jákvæðni og þrautseigju, en í dag hefur hann sigrast á krabbameininu og horfir öðrum augum á lífið og heilsuna.

Ísak er fæddur og uppalinn á Selfossi og býr þar í dag ásamt sambýliskonu sinni Emelíu Sól Gústavsdóttur. Hann vann lengi vel hjá Nova en í árslok 2021 fékk hann símtal frá föður sínum sem bað hann um að opna kaffihús með sér. 

„Pabbi minn hefur verið lengi í kokkabransanum og ég vann hjá honum frá unglingsaldri á einum af veitingastöðum hans, Kaffi Krús á Selfossi. Mér fannst virkilega spennandi að opna kaffihús og eftir fjögur góð ár hjá Nova þá fór ég á fullt í það. Við opnuðum kaffihúsið á sumardaginn fyrsta 2022,“ segir Ísak.

Nokkrum mánuðum eftir að feðgarnir opnuðu dyrnar að kaffihúsinu greindist Ísak með sjaldgæft krabbamein og við tóku krefjandi mánuðir af lyfjameðferðum og endurhæfingu.

„Ég greindist hinn 28. júlí 2022 með Non-hodgkins eitilfrumukrabbamein á þriðja stigi sem heitir á ensku T-cell Anaplastic Large Cell Lymphoma (ALCL). Týpan sem ég fékk var mjög sjaldgæf, en það eru einungis 2-3% sem fá þessa tilteknu tegund af krabbameininu,“ segir Ísak.

Krabbameinið sem Ísak greindist með er afar sjaldgæft og fáir …
Krabbameinið sem Ísak greindist með er afar sjaldgæft og fáir sem greinast með það.

Fyrstu einkennin undir handarkrikanum

Ísak byrjaði að finna fyrir einkennum vorið 2022, en fyrsta einkennið voru miklar bólgur sem hann vaknaði með undir handarkrikanum einn morguninn. Hann leitaði strax til læknis sem gaf honum sýklalyf og viku síðar var bólgan horfin. 

„Síðan sirka 4-7 vikum seinna byrjaði ég að vera rosalega veikur með háan hita, mikinn nætursvita, var verkjaður í baki og nára og með ljótan hósta. Ég var veikur allt sumarið en hélt þó áfram að vinna,“ segir hann.

Ísak fór í allskyns rannsóknir hjá mismunandi læknum sem héldu að hann væri með gigtarsjúkdóminn sarklíki. Það var ekki fyrr en Ísak fór í jáeindaskanna sem krabbameinið kom í ljós.

„Ég fékk því tíma hjá gigtarlækni og hann tilkynnti mér að ég væri með eitilfrumukrabbamein, sem var svo sem mjög skrítið, að ég hafi ekki fengið tíma hjá krabbameinslækni. Ég hélt að ég væri með gigtarsjúkdóm þegar ég fékk tíma hjá gigtarlækninum og það var í raun bara heppni að konan mín var með mér inni í tímanum,“ segir Ísak.

Ísak upplifði mikil veikindi og var til dæmis með háan …
Ísak upplifði mikil veikindi og var til dæmis með háan hita og mikinn nætursvita.
Ísak var veikur allt sumarið og fór í hinar ýmsu …
Ísak var veikur allt sumarið og fór í hinar ýmsu rannsóknir hjá mismunandi læknum.

Ákveðinn léttir að fá greininguna

Aðspurður segir Ísak ákveðinn létti hafa fylgt fréttunum þó svo þær hefðu verið ákveðið högg fyrir hann. „Emelía segir að ég hafi verið full rólegur þegar ég heyrði fréttirnar en það var bara svo mikill léttir yfir því að vita hvað væri að mér. Auðvitað upplifði ég hræðslutilfinningu að vera 26 ára gamall með krabbamein, en fyrsta hugsun þegar ég fékk fréttirnar var þó jákvæð. Óvissan sem var búin að taka yfir allt sumarið var loks á enda og maður gat farið að einbeita sér að því að sigrast á þessu,“ segir hann.

„Spilin sem maður fékk í hendurnar voru engir ásar og …
„Spilin sem maður fékk í hendurnar voru engir ásar og stundum þarf að vinna með það sem maður fær á hendi. Það er alltaf hægt að vinna borðið með tígul tvist og laufa fjarka.“

Ísak segir dagana eftir greininguna hafa verið erfiða enda var hann orðinn mjög veikur á þeim tímapunkti. Hann fór í fyrstu lyfjagjöfina sína hinn 9. ágúst 2022, þremur dögum eftir 27 ára afmælisdaginn sinn. „Ég vaknaði þann morgun með 41 stigs hita og þurfti að fá næringu í æð í tvo tíma áður en lyfjagjöfin hófst. Eftir lyfjagjöfina fór ég í magaspeglun vegna þess að ég gat ekki kyngt og var með þvílíka verki við að borða og drekka. Þá kom í ljós að ég var með sveppasýkingu í munni og vélinda og það var, fannst mér, það versta við þessa meðferð,“ rifjar hann upp.

„Ég léttist um einhver 12 - 14 kíló þarna á mjög stuttum tíma vegna þess að ég gat ekkert borðað né drukkið. eina sem ég kom niður voru pönnsurnar frá ömmu, sem í dag hljóma reyndar bara nokkuð vel,“ bætir hann við. 

Ísak léttist mikið í lyfjameðferðinni og átti erfitt að borða …
Ísak léttist mikið í lyfjameðferðinni og átti erfitt að borða og drekka vegna sýkingar í munni og vélinda.

Í innlögn á krabbameinsdeild með blóðtappa

Eftir fyrstu lyfjagjöfina lá Ísak inni á krabbameinsdeild í 4-5 daga. „Ég var svo lágur í hvítu blóðkornunum og þurfti að fá sprautu tvisvar á dag við því. Svo uppgötvaðist að ég hafði fengið blóðtappa þarna nokkrum dögum síðar sem var svona fínasti bónus ofan á allt,“ segir hann.

Í heildina fór Ísak í sex lyfjagjafir með þriggja vikna millibili og kláraði hann síðustu meðferðina í nóvember 2022. „Lyfjagjafirnar eftir þá fyrstu gengu mjög vel og sérstaklega eftir að ég fékk lyfjabrunninn í september. Krabbameinið var nánast horfið eftir fjórðu lyfjagjöfina og ég tók í raun mjög vel í þessi lyf,“ segir Ísak.

„Einu aukaverkanirnar sem ég fann fyrir voru rosaleg þreyta og slappleiki. Ég hef unnið mikið í gegnum tíðina og oft tekið 12 til 14 tíma kokkavaktir, en þreytan sem fylgdi þessum lyfjum var á allt öðru leveli,“ bætir hann við. 

Ísak segir þreytuna sem fylgdi lyfjameðferðinni ólíka öllu sem hann …
Ísak segir þreytuna sem fylgdi lyfjameðferðinni ólíka öllu sem hann hefur upplifað áður.

„Eftir meðferðina tók við ákveðinn kvíði“

Ísak segir það hafa verið mjög krefjandi verkefni að ná heilsunni aftur eftir meðferðina og segist enn vera á þeirri vegferð. Hann snéri nýverið aftur á fótboltavöllinn og spilaði sinn fyrsta leik eftir veikindin með Árborg gegn Tindastól. „Þolið náttúrulega fór alveg og það er skrítið að fara frá því að vera hraustur fótboltakappi í að geta ekki labbað upp stiga,“ segir hann.

Það var krefjandi verkefni að ná fyrri heilsu eftir lyfjameðferðina.
Það var krefjandi verkefni að ná fyrri heilsu eftir lyfjameðferðina.

„Eftir meðferðina tók við ákveðinn kvíði, en þá fattaði maður kannski hvað maður hafði gengið í gegnum. Þetta var og er ennþá svo óraunverulegt. Það sem fólk fattar oft ekki er að þegar þú færð svona verkefni í hendurnar þá ferðu bara í „zone“ og þú ert bara á fullu að vinna gegn þessu. Og svo þegar allt klárast og maður verður betri, þá hugsar maður: „Og hvað svo? Allt búið núna?“ Og þá kemur kvíðinn,“ segir Ísak.

„Það hefur verið erfitt að díla við andlegu heilsuna í þessu ferli og þeir sem hafa fengið krabbamein og aðstandendur þeirra vita hvernig það er. Ég er að vinna í því,“ bætir hann við. 

Aðspurður lýsir Ísak tilfinningunni að stíga aftur inn á völlinn sem virkilega góðri og er þakklátur fyrir stuðninginn sem hann fékk. „Ég er kominn á fullt aftur og mæti á fótboltaæfingar 2-3 sinnum í viku. Ég spilaði í þar síðustu viku tíu mínútur í 6-0 sigri,“ segir hann.

View this post on Instagram

A post shared by Z A K I (@isakeldjarn)

Hugarfarið jákvætt frá byrjun

Ísak segir hugarfar hafa spilað lykilhlutverk og hjálpað honum að komast í gegnum meðferðina og bataferlið. „Hugarfarið mitt frá byrjun hefur verið jákvætt og ég held að það skipti öllu máli. Eins og ég hef sagt áður þá gengur ekki að fara í fórnarlambsleikinn og það er mjög auðvelt í svona ferli að fara að hugsa: „Af hverju ég?“,“ útskýrir Ísak.

„Ég var til dæmis búinn að vera edrú í tvö ár hinn 27. júlí 2022 og daginn eftir, 28. júlí, greindist ég með krabbamein. Það hefði verið rosalega auðvelt að vorkenna sjálfum mér og gefast hreinlega bara upp, en ég er bara ekki þar. Mín leið var svona og ég er á því að það hafi hjálpað mér mikið í gegnum þetta.

H-in þrjú eins og ég kalla þetta – hausinn, hreyfing og hollur matur er númer eitt tvö og þrjú. Jafnvel þó svo að hreyfingin sé lítil, bara það að labba stuttan hring í kringum hverfið gerir helling fyrir mann,“ bætir hann við.

Í dag lifir Ísak allt öðruvísi lífsstíl og setur heilsuna …
Í dag lifir Ísak allt öðruvísi lífsstíl og setur heilsuna í fyrsta sæti.

Hugsaði ekki vel um heilsuna

Þótt Ísak hafi verið edrú þegar hann greindist með krabbameinið segist hann alls ekki hafa hugsað vel um heilsuna mánuðina áður en hann greindist. „Dagurinn minn byrjaði klukkan 8:00 á kaffihúsinu með kanilsnúð, kókómjólk og oft einum orkudrykk. Síðan var það bara skyndibiti í hádeginu, nokkrir kaffibollar í millitíðinni og svipað rusl um kvöldið. Blóðsykurinn var keyrðir upp og niður allan daginn. Ég hreyfði mig líka lítið sem ekkert á þessum tíma þar sem ég var hættur í fótbolta og ætlaði að fókusa bara á vinnuna,“ rifjar hann upp.

„Ég horfi ennþá í dag á þetta sem skilaboð frá …
„Ég horfi ennþá í dag á þetta sem skilaboð frá Guði að segja mér að breyta til of forgangsraða þó svo leiðin hans hafi kannski verið nokkuð brútal.“

Eftir krabbameinsmeðferðina hefur lífsstíll Ísaks tekið miklum breytingum og segist hann hugsa mun betur um sig í dag en hann gerði fyrir meðferðina. „Í dag hreyfi ég mig 5 - 6 sinnum í viku, hvort sem það er fótbolti, ræktin eða út að hlaupa. Ég er mun meðvitaðri um það sem ég læt ofan í mig og borða mjög mikið af ávöxtum og smoothie-skálum, en við Emelía fórum til Balí núna í mars á þessu ári og ég smitaðist alveg af smoothie-skála æðinu þar,“ segir Ísak.

„Við vorum í þrjá mánuði á flakki og fórum til Balí, Singapore og enduðum síðan hjá tengdó í Danmörku. Það hjálpaði mér mjög mikið, að kúpla mig aðeins út og upplifa nýja menningu og nýtt umhverfi,“ bætir hann við. 

Ísak og Emelía snéru til baka úr ferðalaginu endurnærð.
Ísak og Emelía snéru til baka úr ferðalaginu endurnærð.

Stuðningi við aðstandendur ábótavant

Þótt krabbameinsgreiningin og meðferðin hafi verið krefjandi verkefni fyrir Ísak tók það einnig mikið á fjölskyldu hans. Að mati Ísaks er stuðningi við aðstandendur krabbameinsveikra ábótavant. „Í krabbameinsferlinu gleymast oft aðstandendur en þau fá verkefni upp í hendurnar og engar leiðbeiningar. Mamma var að einhverju leyti undirbúin en hún skrifaði meistararitgerð í félagsráðgjöf árið 2019 um aðstandendur krabbameinsveikra sem bar heitið „Aðstandandi er hlutverk án handrits eða leiðbeininga“ þannig að hún var búin að fá ákveðna innsýn inn í þetta hlutverk,“ útskýrir hann.

„Ferlið fyrir hana hefur verið mjög skrítið vegna þess að rétt áður en ég greindist þá greindist mamma hennar, amma mín, með brjóstakrabbamein. Mamma tók að sér hlutverkið að sjá um allt, panta tíma og sjá um lyfin hjá mér og fyrir það er ég mjög þakklátur – þvílík ofurkona sem hún mamma er. En mér finnst að það ætti að vera miklu meira aðhald utan um aðstandendur,“ bætir hann við. 

Það eru bjartir tímar framundan hjá Ísaki sem er um þessar mundir á fullu í endurhæfingu og verður fram í nóvember. „Svo er spurning hvað maður gerir en ég er með endalaust af góðum hugmyndum sem þarf að framkvæma. Það kemur allt á sínum tíma en ég trúi því að allt gerist af ástæðu,“ segir hann.

„Stuðningurinn sem ég hef fengið frá samfélaginu, fjölskyldunni og konunni minni hefur verið alveg óraunverulegur og ég er óendanlega þakklátur fyrir hann. Ég er líka þakklátur öllum þeim læknum og hjúkrunarfræðingum sem komu að mér, og þá sérstaklega krabbameinslækninum mínum henni Sigrúnu Reykdal, en einnig Rakel Lind lækni á Selfossi sem sendi mig í frekari rannsóknir á sínum tíma,“ segir Ísak að lokum.

mbl.is