Töff að sauma eigin föt

Fatastíllinn | 10. september 2023

Töff að sauma eigin föt

Tara Mobee saumaði pils á saumanámskeiði í fyrra sem hún er dugleg að nota. Hún segir pínu töff að geta sagt öðru fólki að hún hafi saumað eigin flík. Næsta haust verður saumavélin minna uppi á borði þar sem hún er að hefja nám í Listaháskóla Íslands.

Töff að sauma eigin föt

Fatastíllinn | 10. september 2023

Tara Mobee er þekkt fyrir tónlistina er færri vita að …
Tara Mobee er þekkt fyrir tónlistina er færri vita að hún er flink í höndunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tara Mobee saumaði pils á saumanámskeiði í fyrra sem hún er dugleg að nota. Hún segir pínu töff að geta sagt öðru fólki að hún hafi saumað eigin flík. Næsta haust verður saumavélin minna uppi á borði þar sem hún er að hefja nám í Listaháskóla Íslands.

Tara Mobee saumaði pils á saumanámskeiði í fyrra sem hún er dugleg að nota. Hún segir pínu töff að geta sagt öðru fólki að hún hafi saumað eigin flík. Næsta haust verður saumavélin minna uppi á borði þar sem hún er að hefja nám í Listaháskóla Íslands.

Tara, sem er að verða 25 ára, var lítið í heimasaumuðum fötum þegar hún var telpa en sem yngsta stelpan í barnabarnahópnum fékk hún aragrúa af notuðum fötum. „Þegar maður fær svona poka af alls konar byrjar maður að púsla saman hinum ólíklegustu flíkum sem getur endað skemmtilega. Hvað þá þegar þú sérð gamlar myndir og ert kannski ekki lengur eins sammála öllum þeim samstæðum sem urðu til,“ segir Tara.

Þegar hún var orðin aðeins eldri byrjaði hún að fikta við saumavélina og sauma það sem henni datt í hug. „Þegar ég var í grunnskóla saumaði ég prinsessukjóla fyrir öskudaginn og ef mig langaði í eitthvað sem ég sá ekki úti í búð þá fékk ég aðstoð frá frænku eða mömmu til að búa það til sjálf,“ segir Tara sem nýtti saumanámskeiðið til að rifja upp taktana og ná almennilegum tökum á grunnatriðum hjá frábærum kennara.

Tara saumaði pilsið á saumanámskeiði.
Tara saumaði pilsið á saumanámskeiði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gerir allt flóknara

„Ég set mér það markmið þegar ég fer á námskeið og þegar ég læri eitthvað nýtt að reyna að fara ekki endilega einföldustu leiðina. Af hverju ekki að gera eitthvað aðeins erfiðara og læra meira, og þá sérstaklega ef þú ert komin með ágætis skilning á því sem þú ert að gera? Á saumanámskeiðinu gerði ég hins vegar akkúrat öfugt og ætlaði að gera eitthvað einfaldara af því mig langaði að læra grunntæknina. En svo kikkaði eitthvað inn, sem gerist eiginlega alltaf, og ég byrjaði að flækja stykkið með einhverjum borðum og erfiðara efni. Það erfiðasta var efnið sem ég valdi, bæði viðkvæmt en mikil þyngd í því svo ég þurfti að finna út úr hvernig væri hægt að láta það ganga upp.“

Tara valdi að sauma sér pils á námskeiðinu.

„Við byrjuðum öll með fyrirframtilbúin snið en ég þarf alltaf að vera með sérþarfir og gera allt aðeins erfiðara. Ég tók grunnsnið af kjól en gerði pils. Ég gerði það svo miklu síðara en sniðið. Það áttu að vera vasar á kjólnum en ég sleppti þeim og gerði rykkingar.“

Notarðu pilsið?

„Heldur betur, bara seinast fyrir þremur dögum. Ég geng reglulega í því.“

Borðarnir voru hugmynd Töru.
Borðarnir voru hugmynd Töru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Langar þig alltaf að klæða þig öðruvísi?

„Ég held að það gerist bara ósjálfrátt, það er ekki planað. Ég fæ hugmyndir sem ég þarf að koma frá mér. Ég sé jafnvel fyrir mér mynd af mér í ákveðnum fötum eða að gera eitthvað ákveðið og þá byrjar nýtt ferli. Þá reyni ég að finna út hvernig ég get raðað fötunum saman, jafnvel búið þau til eða einfaldlega skrái mig á nýtt námskeið.“

Ertu að eltast við tískuna í dag?

„Ég er ekki reglulega að leita að hvað er í tísku en mér finnst gaman að fylgjast með því svona almennt. Tískan hefur klárlega einhver áhrif eins og kannski hjá flestum, maður kemst eiginlega ekki hjá því. En kannski spurning um „hvaða“ tísku því hún hefur aldrei verið eins fjölbreytt og núna.“

Tara hefur auga fyrir smáatriðum.
Tara hefur auga fyrir smáatriðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hægt að læra svo margt

„Eitt það besta við heiminn í dag er hvað þú hefur aðgengi að miklu af efni og hvað þú hefur mörg tækifæri til þess að læra mikið og frekar auðveldlega. Ef þú hefur ekki tíma eða peninga til að skella þér á námskeið þá er þetta á netinu. Þú getur horft á tíu mínútna YouTube-myndband til þess að læra á saumavél og annað tíu mínútna til þess að sauma pils. Ef þú vilt ekki lesa, þá geturðuú horft og ef þú vilt ekki horfa þá geturðu hlustað. Þetta kemur í öllum formum. Ég held að fólk nýti þetta ekki eins mikið og það gæti, svo það þarf ekki að vera einhver ástæða heldur má líka bara gera eitthvað nýtt og krydda lífið.“

Nýr kafli hófst hjá Töru í haust þegar hún hóf nám við Listaháskóla Íslands. „Maður er oft spurður hvort það sé eitthvert stress fyrir skóla en ég sé ekki fram á það. Það er gaman að læra nýtt, skapa og búa til, hvað þá í umhverfi þar sem er verið að styðja við það.“

Tara vakti athygli fyrir tónlistarhæfileika sína þegar hún tók þátt í Söngvakeppninni árið 2019. Hún segist ekki hætt í tónlist þótt hún sé að mennta sig á öðru sviði. „Þetta hefur alltaf verið smá togstreita en nýlega áttaði ég mig á því að ég gæti gert hvort tveggja. Þetta er í rauninni allt tengt og þú getur unnið þetta allt saman ef þig langar til. Tónlistin er stór hluti af mér svo hún fer ekki neitt í bráð,“ segir Tara.

mbl.is