Áskorun að passa í búninginn sem saumaður var 1988

Fatastíllinn | 20. júní 2024

Áskorun að passa í búninginn sem saumaður var 1988

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra skartaði þjóðbúningi á 17. júní. Búningurinn á sér langa sögu en hún fékk upphlut í fermingargjöf frá foreldrum sínum. Hún var ekkert yfir sig hrifin af þessari gjöf á sínum tíma því hana langaði meira í stórt kassettutæki svo hún gæti blastað Madonnu. 

Áskorun að passa í búninginn sem saumaður var 1988

Fatastíllinn | 20. júní 2024

Guðrún Hafsteinsdóttir fékk upphlutinn í fermingargjöf og var búningurinn saumaður …
Guðrún Hafsteinsdóttir fékk upphlutinn í fermingargjöf og var búningurinn saumaður á hana þegar hún var 18 ára. Samsett mynd

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra skartaði þjóðbúningi á 17. júní. Búningurinn á sér langa sögu en hún fékk upphlut í fermingargjöf frá foreldrum sínum. Hún var ekkert yfir sig hrifin af þessari gjöf á sínum tíma því hana langaði meira í stórt kassettutæki svo hún gæti blastað Madonnu. 

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra skartaði þjóðbúningi á 17. júní. Búningurinn á sér langa sögu en hún fékk upphlut í fermingargjöf frá foreldrum sínum. Hún var ekkert yfir sig hrifin af þessari gjöf á sínum tíma því hana langaði meira í stórt kassettutæki svo hún gæti blastað Madonnu. 

Við systurnar erum þrjár og einn bróðir og foreldrar okkar gáfu okkur systrunum upphlut í fermingargjöf. Þegar við vorum 18 ára, gjafvaxta eins og sagt var, var upphluturinn saumaður á okkur. Ég er alltaf að gera grín að þessu því árlega fer ég á þjóðbúningakúrinn. Það fer ekki framhjá neinum í kringum mig þegar þetta er í gangi. Þetta verður alltaf meiri og meiri áskorun því baráttan við þyngdarlögmálið eykst með árunum,“ segir hún og hlær. 

Hvernig er þjóðbúningakúrinn? 

„Ég borða minna af kökum á kaffistofu Alþingis og reyni svona yfir höfuð að halda aðeins í við mig.“

Aðspurð um búninginn sjálfan segir hún að gullið á honum komi úr nokkrum áttum. 

„Eitthvað af gullinu fékk ég í fermingargjöf en aðra hluti erfði ég frá báðum ömmum mínum. Búningurinn minn er samsettur frá formæðrum mínum og svo er eitthvað pínu nýtt inni á milli,“ segir hún. 

„Móðuramma mín, sem ég er skírð í höfuðið á, Guðrún Albertsdóttir, átti peysuföt. Ég er með skúfhólk á minni húfu sem er frá henni. Föðuramma mín átti bæði peysuföt og upphlut. Hún var af þeirri kynslóð að hún komst í gegnum lífið án þess að fara í buxur. Hún var í skósíðu pilsi í öllum sínum verkum hvort sem hún var að taka upp kartöflur eða mjólka. Alltaf var hún í pilsi,“ segir hún. 

Var amma þín bóndakona?

„Nei, hún bjó á Selfossi og átti eina kú til að fá mjólk til heimilisins og svo var hún með hænur. Til að gera sér dagamun á sunnudögum þá fór hún í upphlutinn sinn eftir hádegi, settist í betri stofuna og púaði vindil til að fá gestalykt í húsið og beið eftir gestum. Hún var fædd 1902 og föðurafi minn var fæddur 1893. Hann færði konu sinni alltaf morgunhressingu í rúmið á sunnudögum. Hann vann mjög mikið og hún passaði upp á að hann fengi nóg að borða alla virka daga. Hann launaði henni á sunnudögum,“ segir Guðrún. 

Guðrún Hafsteinsdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Áslaug …
Guðrún Hafsteinsdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þóra Margrét Baldvinsdóttir klæddust allar þjóðbúningum á 17. júní.

Mikið þjóðbúningablæti

Guðrún kynntist formæðrum sínum ekki því þær voru báðar látnar þegar hún fæddist og þess vegna finnst henni gaman að klæðast þjóðbúningi þar sem hluti af búningnum kemur frá þeim. 

„Föðuramma mín lést fjórum árum áður en ég fæddist og móðuramma mín tveimur mánuðum eftir að ég fæddist.“

Móðursystur Guðrúnar eiga þjóðbúninga ásamt fleiri konum í ættinni. 

„Mín fjölskylda er alveg með þjóðbúningablæti. Mamma saumaði búninga á dætur sínar þrjár og á sjálfa sig.“

Guðrún var 18 ára árið 1988 þegar upphluturinn var saumaður á hana og er hennar búningur svolítið undir næntís-áhrifum. 

„Þegar ég var 18 ára þá þótti mér þetta mjög flott,“ segir Guðrún um hvítu svuntuna og skyrtuna.

„Núna langar mig í litríka svuntu og ég gæti nú kannski saumað hana. Það er ekki mjög flókinn saumaskapur,“ segir hún. 

Ertu handlagin?

„Nei, ég get ekki sagt það. Ég get saumað, en móðir mín er einstaklega handlagin. Það leikur allt í höndunum á henni. Svo var ég með stokkabelti á 17. júní sem er mikill ættargripur sem systir mín á. Ég fæ það oft lánað hjá henni en það er frá langömmu okkar. Beltið mitt er frá föðurömmu minni. Millurnar framan á boðungunum og borðarósirnar voru keyptar nýjar þegar ég fermdist fyrir 40 árum,“ segir hún. 

Þessi mynd var tekin 2022 við þingsetningu Alþingis.
Þessi mynd var tekin 2022 við þingsetningu Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er í útlöndum þegar búningurinn passar ekki

Notar þú þjóðbúninginn þinn mikið?

Já alltaf eitthvað á hverju ári. Ég hef reynt að vera í honum á 17. júní, nema þegar ég passa ekki í hann. Þá er ég í útlöndum,“ segir hún og hlær.  

„Ég hef óskaplega gaman að þessu. Þetta er sérstakur klæðnaður og á engan sinn líkan. Ég bjó erlendis í nokkuð mörg ár og þegar ég fór í búninginn þá féll fólk í stafi. Færeyingar nota þjóðbúninga miklu meira en við gerum. Það er algengt að nota hann í brúðkaupum, skírnarveislum og viðburðum. Ég hef tvisvar farið á Ólavsvöku í Færeyjum og það er ólýsanleg stemning. Þar eru bara allir í þjóðbúningi. Þetta er alveg jafndýrt þar eins og hér. Það er byrjað að gefa fólki silfurhnappa þegar það fæðist. Ég er alltaf að reyna að hvetja konur til þess að klæðast þjóðbúningum. Þegar ég fékk upphlutinn í fermingargjöf þá var ég nú ekkert of ánægð, en ég kann að meta þessa gjöf miklu betur í dag.“

Langaði þig frekar í eitthvað annað?

„Ég skildi ekkert í því hvers vegna ég fékk ekki stórt kassettutæki svo ég gæti hlustað á Madonnu,“ segir hún og hlær. 

Guðrún notar þjóðbúning sinn þó ekki bara á 17. júní því hún hefur klæðst honum við þingsetningu Alþingis. Hún gerði þó mistök á fyrstu þingsetningunni, 2021, og mætti í jakkadruslu eins og móðir hennar kaus að kalla flíkina. 

„Mamma beið spennt fyrir framan sjónvarpið og móðgaðist mikið þegar ég var í jakkadruslu. Síðan þá hef ég haft það fyrir reglu að vera í búningnum við þingsetningu.“

„Við eigum að sýna meiri sveigjanleika í kringum búninginn okkar. Konur verða að fá svigrúm til að skarta honum við fleiri tækifæri og fá að aðlaga hann,“ segir hún. 

Finnst þér sem sagt að konur geti verið í plastbuxum við upphlut?

„Nei, biddu fyrir þér það þarf að sýna honum virðingu,“ segir Guðrún. 

mbl.is