Lyfjastofnun Íslands hefur ekki heimild til að forgangsraða lyfjabirgðum á Íslandi eða takmarka afgreiðslu lyfja.
Lyfjastofnun Íslands hefur ekki heimild til að forgangsraða lyfjabirgðum á Íslandi eða takmarka afgreiðslu lyfja.
Lyfjastofnun Íslands hefur ekki heimild til að forgangsraða lyfjabirgðum á Íslandi eða takmarka afgreiðslu lyfja.
Þetta segir í skriflegu svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn mbl.is um hvernig bregðast eigi við mikilli eftirspurn eftir sykursýkis- og þyngdarstjórnunarlyfjum á borð við Ozempic.
Skortur hefur verið á sykursýkis- og þyngdarstjórnunarlyfjum í flokki GLP-1 um alla Evrópu og dæmi um slík lyf er Ozempic.
Ozempic hefur notið mikilla vinsælda sem megrunarlyf um allan heim þrátt fyrir að eiga vera notað í meðferð við sykursýki 2, en það inniheldur efnið semaglútið sem hjálpar fólki við að stjórna blóðsykrinum sínum.
Þá hafa verið uppi miklar áhyggjur um að fólk sem þurfi á lyfinu að halda fái ekki aðgang að því vegna vinsælda.
Í svari Lyfjastofnunar segir að stofnunin hafi „átt í góðri samvinnu innan heilbrigðiskerfisins, meðal annars við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og Landspítala, til að auka líkur á að þeir sjúklingar sem þurfa mest á lyfjunum að halda hafi aðgang að þeim.“
Á mánudag fundaði Lyfjastofnun Evrópu um vandann sem fylgir mikilli eftirspurn eftir lyfinu og ræddi mögulegar aðgerðir til að sporna við vandanum.
„Notkun GLP-1 lyfja til þyngdarstjórnunar hjá fólki sem ekki þjáist af offitu, og fólki í yfirþyngd sem er ekki með heilsufarsleg vandamál tengd þyngd, hefur verið reglubundið í umfjöllun í fréttum og á samfélagsmiðlum. Þetta hefur leitt til aukinnar eftirspurnar eftir sumum þessara lyfja, sem ásamt öðrum þáttum, svo sem takmörkum í framleiðslugetu, hefur leitt til skorts um alla Evrópu,“ segir í svari Lyfjastofnunar.
Þá segir einnig að ekki sé skortur á lyfinu á Íslandi en þær birgðir sem berast reglubundið til landsins séu hins vegar takmarkaðar.
„Því er beint til lækna að ávísa lyfjunum eingöngu skv. samþykktum ábendingum.“