Hulda Fanný Pálsdóttir varð ástfangin af hlaupum í kórónuveirufaraldrinum og æfir í dag hjá FH undir leiðsögn Sigurðar P. Sigmundssyni, eða Sigga P. eins og hann er gjarnan kallaður. Samhliða því stundar hún nám við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Hulda Fanný Pálsdóttir varð ástfangin af hlaupum í kórónuveirufaraldrinum og æfir í dag hjá FH undir leiðsögn Sigurðar P. Sigmundssyni, eða Sigga P. eins og hann er gjarnan kallaður. Samhliða því stundar hún nám við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Hulda Fanný Pálsdóttir varð ástfangin af hlaupum í kórónuveirufaraldrinum og æfir í dag hjá FH undir leiðsögn Sigurðar P. Sigmundssyni, eða Sigga P. eins og hann er gjarnan kallaður. Samhliða því stundar hún nám við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Hulda byrjaði ekki að hlaupa af alvöru fyrr en í heimsfaraldrinum, en foreldrar hennar eru miklir hlauparar og fór hún því að hlaupa með þeim. „Mér fannst fyrst ekkert frábært að hlaupa, fannst það eiginlega bara mjög leiðinlegt, en ég gerði það bara því ég var að halda mér í formi,“ segir Hulda.
„Það var í rauninni bara eitt hlaup sem breytti öllu. Ég var með fjölskyldunni minni í Orlando árið 2020 og ætlaði að fara út að skokka með mömmu og pabba einhverja 8 km. Svo allt í einu datt ég í einhvern gír og hljóp með þeim 20 km sem var lengsta vegalengd sem ég hafði hlaupið. Þá kviknaði einhver alvöru áhugi og ég byrjaði í kjölfarið að æfa mjög mikið.
Mér finnst svo langt síðan ég byrjaði að hlaupa en það er samt svo stutt síðan. Svo verður maður svo háður þessu því það er svo gaman að sjá bætingar. Ég gæti ekki ímyndað mér núna að vera ekki að hlaupa. Það er aldrei spurning hvort maður nenni eða ekki, maður fer bara alltaf á æfingu,“ bætir hún við.
Aðspurð segist Hulda vera meira heilluð af langhlaupum heldur en styttri vegalengdum. „Ég hef eitthvað keppt á braut í 1.500-3.000 m en ég er mun betri í lengri vegalengdum. Ég er mest að stefna á götuhlaupin og þá helst á 10 km og hálft maraþon eins og er. Ég á minn besta tíma í 10 km frá því í Adidas boost hlaupinu í fyrra á 38:30 og svo í hálfu maraþoni í Kaupmannahöfn á 1:24:45. Svo er stefnan að fara í heilt maraþon,“ segir hún.
Hvernig er morgunrútínan þín?
„Ég er með mjög skipulagða rútínu. Mætti segja að rútínan sé stundum kannski aðeins of heilög og maður mætti alveg slaka aðeins á. Ég reyni yfirleitt að ná rúmlega átta tíma svefni og vakna oftast rétt fyrir klukkan 8:00. Mér finnst mjög gaman að elda og gera allskonar mat og útbý yfirleitt það sama í morgunmat. Það er einhver uppskrift sem ég þróaði svolítið sjálf til að gera hrærð egg aðeins betri, en annars fæ ég mér skyr eða helst eitthvað próteinríkt. Ef ég er hins vegar á morgunæfingu fæ ég mér eitthvað einfalt og kolvetnaríkt t.d. beyglu eða nokkrar döðlur með hnetusmjöri.“
Hvernig er hefðbundin æfingavika hjá þér?
„Það getur verið mjög misjafnt. Upp á síðkastið hef ég verið að taka 80 km vikur. Ég tek þá oftast gæðaæfingu á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum. Í vetur mætti ég á gæðaæfingar hjá Sigga P í Kaplakrika þessa daga vikunnar og tókum þar spretti á brautinni. Í vetur var ég meira að vinna í hraðanum og þá voru æfingarnar oftast styttri vegalengdir en hraðari sprettir. Sem dæmi 10x400m með 90 sek hvíld á milli, 15-20x200m með 60-70 sek á milli eða 6x800m með 2:30 mín a milli.
Ég tók þessar æfingar mikið á þriðjudögum og fimmtudögum en svo er laugardagsæfingin öðruvísi, en þá tek ég alltaf langt rólegt hlaup sem er yfirleitt 20-25 km og tek svo oftast einhverja gæðaæfingu inni í því. Í vetur þá reyndi ég alltaf að ná inn löngu hlaupi á laugardögum þrátt fyrir að veðrið væri vont. Þá mætti ég á gæðaæfingu inni í Kaplakrika og kláraði langt hlaup eftir á. Ég hef oft þurft að taka löngu hlaupin mín inni á 200m hlaupabraut ef veðrið er mjög vont en það eru frekar margir hringir inni á brautinni. En annars á ég hlaupabretti sem bjargar mér þegar veðrið er sem verst.“
„Svo inn á milli tek ég róleg hlaup sem eru yfirleitt 10-12 km og tek einn hvíldardag í viku, en hann er á föstudögum. Svo geri ég allskonar aukalega líka – ég fer oft á skíðavélina og á einmitt eina svoleiðis heima. Svo geri ég styrktaræfingar 1-2x í viku. Yfir sumarið þá tek ég yfirleitt aðeins meira magn og lengri æfingar. Þá tek ég oft t.d. 3x3 km og svo 3x2 km með labbi í sirka 2 mín á milli spretta. Þessar æfingar tek ég á 5-10 km hraða.“
Uppáhaldshlaupaminning?
„Úff, þær eru alveg nokkrar. Eitt sem er mjög eftirminnilegt er að fara Laugarveginn með hlaupahópi Stjörnunnar árið 2021 þegar ég var frekar nýlega byrjuð að hlaupa. Mamma og pabbi voru í Stjörnunni og ég ákvað bara að skella mér með. Við fórum hann bara rólega á tveimur dögum og fengum ruglað gott veður, glampandi sól og 20°C. Ég elska að hlaupa úti í náttúrunni og finnst skipta sérstaklega miklu máli að vera með góðan félagsskap á hlaupum.“
„Líka að klára hálft maraþon í Köben í fyrra, það er svo ótrúlega góð tilfinning að klára keppnishlaup og ná því tímamarkmiði sem þú varst búinn að setja þér. Ég var alveg í einhverri svona sigurvímu eftir hlaupið og í alveg óþolandi góðu skapi restina af deginum.
Svo er alltaf gaman að mæta á æfingu með hópnum hjá Sigga P í FH, það gerir sprettæfingar svo miklu skemmtilegri heldur en að taka þær einn. Ég vil líka meina að maður reyni alltaf miklu meira á sig þegar maður æfir með fleirum, við peppum hvort annað áfram og fyrir vikið fær maður meira út úr æfingunni.“
Hver heldur þú að sé lykillinn að árangri þínum í hlaupunum?
„Fyrst og fremst er það þrjóskan, ég tek alltaf æfingu alveg sama þótt að ég sé ekki í stuði til þess eða finnst ég vera þreytt. Oftast er það þannig að þó að manni líði eins og maður geti ekki farið á æfingu þá er það alltaf miklu skárra um leið og maður er byrjaður. Samt þarf maður að vera skynsamur og hlusta á líkamann ... en oft er þunn lína hér á milli. Maður getur ekki verið að gefa sér afslátt á æfingum eða finna sér afsakanir, þá kemur árangur ekki jafn hratt. Maður þarf að hafa mjög sterkan haus og þó að sprettæfing geti verið ógeðslega erfið þá er tilfinningin eftir æfinguna sem trompar það og það er svo gaman að komast í gegnum erfiðar æfingar án þess að gefa sér afslátt og það er í raun lykillinn að árangri.“
„Svo er „consistancy“ líka lykilatriði. Maður þarf bara að halda áfram, ekki taka bara átak í mánuð og hætta svo. Það er alltaf erfiðast að byrja en um leið og maður er kominn yfir það stig og hlaupin komin inn í reglulega rútínu hjá manni þá getur maður ekki verið án þeirra. Þegar ég fer í frí t.d. til sólarlanda þá finnst mér ekkert gaman að slaka bara á við sundlaugina nema ef ég hef tekið æfingu um morguninn. Ég tek flestar sólarlandaferðir sem hálfgerðar æfingaferðir ef ég get. Ég fór t.d. til Tenerife í byrjun janúar sem breyttist óvart í æfingarferð. Þá var ég í rúmlega 100 km vikumagni og tók alltaf tvær æfingar á dag. Aldrei hefði ég getað ímyndað mér að þetta yrði skemmtilegasta leiðin til að slaka á eftir mjög harða prófatíð í lögfræðinni en finnst þetta núna langskemmtilegast.
Ég fékk líka mjög mikið út úr því að fara með Sigga P og nokkrum æfingafélögum til Kenýa um páskana á síðasta ári í þrjár vikur. Við fórum til Iten „the home of champions“. Þar gerðum við varla neitt annað en að æfa, borða og sofa. Við tókum 2-3 æfingar á dag. Þetta er án efa skemmtilegasta ferð sem ég hef farið í og á sama tíma algjör upplifun. Þetta er svo allt önnur menning, það eru allir hlaupandi þarna. Manni fannst maður vera eins og einhver skemmtiskokkari miðað við alla svakalegu hlauprana sem búa þarna. Iten er í 1.200 m hæð og er súrefnið því miklu minna þar heldur en niðri við sjávarmál. Að æfa þarna eykur framleiðslu rauðra blóðkorna og súrefnisupptakan verður betri. Maður fann vel fyrir því að loftið var þynnra og þá sérstaklega á lengri gæðaæfingum.“
Hversu miklu máli skiptir hugarfar í hlaupum að þínu mati?
„Það skiptir mjög miklu máli. Ég myndi helst vilja segja við þá sem eru að byrja að hlaupa að passa sig að vera ekki alltaf að bera sig saman við aðra og halda sínu striki og æfingaráætlun. Það skiptir líka miklu máli að hafa trú á sjálfum sér og treysta ferlinu þó að það komi dagar þar sem manni líður eins og maður sé þungur á sér eða eitthvað ópeppaður ... ekki láta það fara með sig ... bara halda áfram samt. Dagsformið getur verið svo rosalega mismunandi svo ekki gefast upp þó að það komi erfiðir dagar.
Það skiptir máli að gera hluti sem eru krefjandi til þess að takast á við hausinn í hlaupum. Að fara út þó að veðrið sé vont er gott dæmi um það, bara láta vaða og ekki finna afsakanir. Hvað hugarfar varðar í staðinn fyrir að hugsa: „Oj þetta verður leiðinlegt og erfitt“ að hugsa frekar: „Vá hvað það verður gott að klára“ og þá er maður miklu ánægðari með sig.“
„Þetta er eins með að tækla hugarfar á erfiðum æfingum eða í keppnishlaupum. Frekar að horfa glasið hálf fullt heldur en hálf tómt. Í stað þess að hugsa t.d. í miðju 10 km hlaupi að það sé langt eftir og maður sé orðinn þreyttur, að hugsa frekar að það sé stutt eftir og maður sé búinn með mestmegnis af hlaupinu. Ég tala mikið við mig í hausnum í hlaupum og er með allskonar möntrur. Oft hef ég verið að brjóta hlaupið upp í hausnum og hugsa: „Ókei ef ég hleyp núna einn km í viðbót þá er ég meira en hálfnuð og þá er svo stutt eftir þannig ég þarf bara þrauka þennan km og þá er þetta nánast búið.”
Svo skiptir líka miklu máli að halda sínu striki. Það getur dregið mann niður ef aðrir í kringum þig skilja ekkert í því að þú viljir hafa hlaupin í forgangi. Maður verður að fá að ráða þessu sjálfur og ef þig langar að hlaupa ekki láta aðra stoppa þig. Maður þarf líka að minna sig á að það eru ákveðin forréttindi að geta hlaupið og að maður á að nýta það ef maður getur það.“
Hvað finnst þér mest krefjandi fyrir hlaupin? En mest gefandi?
„Það getur verið krefjandi að púsla öllu saman þegar maður er í námi eða vinnu, en maður gerir það samt. Þegar það er mikið álag í skólanum hjá mér þá reyni ég t.d. eins og ég get að halda hlaupaáætlun en tek það inn í myndina að það sé mikið álag annars staðar. Svo getur stundum verið erfitt að sinna bæði miklu félagslífi og hlaupunum á sama tíma, ég t.d. er alltaf að taka æfingar um helgar og þá fórna ég oftast djamminu en eg hef fundið að ég sakna þess ekki ... en auðvitað er samt gaman að fara eitthvert út annað slagið.
Það sem mér finnst mest gefandi við hlaupin er að maður verður sjálfsöruggari og hugsar líka betur um sjálfan sig. Hlaupin haldast mikið í hendur við heilsusamlegri lífstíl og ég er miklu meðvitaðri um heilsuna mína en áður. Ég hef líka samhliða hlaupunum kynnt mér mikið um næringu og hvað það skiptir miklu máli að næra sig vel og rétt. Maður er ánægðari í daglegu lífi og jákvæðari. Svo finnst mér maður verða metnaðarfyllri í öllu öðru í lífinu almennt.“
„Ég er líka svo þakklát fyrir alla hlaupavinina sem ég hef kynnst í gegnum hlaupin. Mér finnst það skipta svo miklu máli að eiga góða vini til að hlaupa með til þess að sportið verði ennþá skemmtilegra. Ég hleyp yfirleitt alltaf með einhverjum, mér finnst ég fá svo miklu meira út úr því heldur en að æfa ein þó það geti inn á milli verið fínt að taka æfingu með tónlist í eyrunum. Svo er þetta líka svona gæða fjölskyldutími því að mamma og pabbi eru líka í hlaupunum. Við tökum oft æfingar saman og það gerir okkur svo náin að eiga þetta sameiginlega sport.
Svo er svo endurnærandi að hlaupa úti í náttúrrunni og getur þá verið svo næs að fara t.d við Hvaleyrarvatn, Vífilstaðavatn eða upp í Heiðmörk. Ég tek oft löngu hlaupin mín þar og líka stundum brekku spretti.“
Hvað er ómissandi að eiga fyrir hlaupin?
„Að mínu mati er það gott hlaupaúr svo þú getir haldið utan um æfingarnar þínar, séð hvaða hraða þú ert að hlaupa á o.s.frv. Svo auðvitað hlaupaskór, en ég hleyp mjög mikið á Saucony. Mér finnst þeir geggjaðir og henta mér mjög vel. Ég á frekar margar týpur af skóm sem henta í mismunandi hlaup. Ég á einhverja sem henta í rólegu hlaupunum, en þeir eru yfirleitt þyngri en á móti með meiri dempun og styrkingu í kringum hælinn og fara vel með fæturna. Svo á ég einhverja sem eru léttari og henta betur í aðeins hraðari hlaup en samt þannig að þeir eru með styrkingu og fara vel með fæturna. Svo eru það keppnisskórnir sem maður vill hafa mjög létta en á móti fara þeir kannski ekki best með fæturna, en það er allt í lagi. Persónulega myndi ég samt ekki hlaupa í þeim öll mín æfingahlaup líka.“
„Svo skiptir líka máli að mínu mati að eiga flott og þægileg æfingaföt sem manni líður vel í. Mér finnst gaman að velja mér föt fyrir æfingar og keppni og mér finnst það oft hjálpa með sjálfstraustið í hlaupum að vera ánægð í fötunum sem ég er í. Hlaupin eru svo mikið hausinn líka og því meira sjálfstraust og því jákvæðari sem þú ert, því meiri líkur eru á árangri. Svo finnst mer ómissandi að eiga góð hlaupasólgleraugu. Ég hleyp nánast alltaf með sólgleraugu jafnvel þó það sé ekki sól – þau gera svo mikið. Ég hleyp alltaf með Oakley en þau eru með hágæða gleri sem sem hentar t.d. mjög vel í utanvegahlaupum þar sem þau hjálpa manni að sjá betur misfellur og fleira í umhverfinu. Svo er hægt að velja sér allskonar glerjatýpur sem henta við mismundandi aðstæður.“
Hvað er framundan hjá þér?
„Markmiðið er að stefna á götuhlaup í sumar en líka prófa einhver utanvegahlaup. Ég er nú þegar búin að fara í eitt 10 km keppnishlaup í Lífssporinu og líka 15 km í Neshlaupinu. Ég fór svo til Bahamas í æfingaferð og tók hálft maraþon í Miðnæturhlaupomi daginn eftir að ég kom heim. Ég var ánægð með árangurinn í báðum hlaupunum miðað við að sumarið er rétt að byrja en stefni á að reyna bæta tímann minn í þessum vegalengdum í sumar. Svo stefnan er að taka fleiri götuhlaup í sumar og líka einhver utanvegahlaup enda held ég að þau geti hjálpað mér líka að bæta mig á götunni.
Ég hvet alla til að byrja að hlaupa, prófa að mæta í einhver keppnishlaup í sumar og vera með í hlaupa stemmningunni.“