Furðar sig á ummælum Bjarna

Vextir á Íslandi | 14. ágúst 2024

Furðar sig á ummælum Bjarna

„Að minnsta kosti á Íslandi núna þá er verðbólgan drifin áfram fyrst og fremst af þessum gegndarlausu ríkisútgjöldum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is.

Furðar sig á ummælum Bjarna

Vextir á Íslandi | 14. ágúst 2024

Sigmundur Davíð segir að verðbólgan á Íslandi sé drifin áfram …
Sigmundur Davíð segir að verðbólgan á Íslandi sé drifin áfram vegna útgjaldaaukningar ríkissjóðs. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

„Að minnsta kosti á Íslandi núna þá er verðbólgan drifin áfram fyrst og fremst af þessum gegndarlausu ríkisútgjöldum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is.

„Að minnsta kosti á Íslandi núna þá er verðbólgan drifin áfram fyrst og fremst af þessum gegndarlausu ríkisútgjöldum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði í viðtali við mbl.is í síðustu viku að umræðan um ríkisfjármálin vær á villigötum og að ríkisfjármálin hefðu verið að hjálpa til við að draga úr verðbólgu í landinu.

„Ég geri ráð fyrir því að hann sé, að minnsta kosti að einhverju leyti, að beina þessu að okkur [Miðflokknum] enda höfum við umfram aðra verið að benda á hvað þessi stjórnlausu ríkisútgjöld hafa mikil áhrif á verðbólguna,“ segir Sigmundur um ummæli Bjarna.

Ríkisútgjöld og peningaprentun skapi verðbólgu

Tólf mánaða verðbólga mæl­ist nú 6,3% og hækkar um 0,46 pró­sentu­stig frá fyrri mánuði. Núna standa stýrivextir í 9,25% og hef­ur það verið svo­leiðis síðan í ág­úst á síðasta ári.

„Þó að hagfræðingar séu ósammála oft á tíðum, oftar en ekki, þá held ég að þeir séu flestir sammála um að ríkisútgjöld og peningaprentun skapi verðbólgu. Frægt var það nú að nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði – sem var nú áður í hávegum hafður hjá sjálfstæðismönnum – Milton Friedman sagði eitthvað á þá leið að það væri eingöngu ríkið sem býr til verðbólgu.

Ekki almenningur, kaupendur, framleiðendur, verkalýðsfélögin, ekki einhverjir sjeikar í Arabíu eða hærra verð á innfluttri olíu. Til lengri tíma litið er það eingöngu ríkið sem framleiðir verðbólgu,“ segir Sigmundur.

Ummæli Bjarna komi úr óvæntri átt

Hann segir að þessi ummæli Bjarna koma úr óvæntri átt í ljósi þess að hann sé formaður Sjálfstæðisflokksins, en segir þó margt koma sér á óvart sem komi frá Sjálfstæðisflokknum nú til dags. Segir hann meðal annars að Bjarni hafi áður reynt að velta ábyrgð verðbólgunnar á Seðlabankann og aðra.

Marg­ir hafa gagn­rýnt út­gjalda­aukn­ingu rík­is­sjóðs á síðustu árum en Bjarni sagði í viðtali við mbl.is að af­komu­bati rík­is­sjóðs ár frá ári væri birt­ing­ar­mynd aðhalds í rík­is­fjár­mál­un­um.

„Þannig rík­is­fjár­mál­in hafa verið að hjálpa til við að draga úr verðbólgu í land­inu und­an­far­in tvö ár, að lág­marki,“ sagði Bjarni.

„Svona mun þetta ganga hring eftir hring“

Sigmundur segir að Bjarni sé að lýsa svokallaðri vítisvél.

„Annað hvort á Bjarni að fá nóbelsverðlaunin í hagfræði fyrir þessar kenningar sínar, ef þær reynast réttar, en mér finnst líklegra að hann sé þarna að lýsa því sem kalla mætti vítisvél.

Ríkið eykur útgjöld, verðbólgan eykst, fyrir vikið aukast tekjur ríkisins af virðisaukaskatti ekki hvað síst. Þannig ríkið sér tilefni til að auka útgjöldin enn þá meira af því að tekjurnar hafa aukist og svona mun þetta ganga hring eftir hring,“ segir hann og bætir við:

„Þessi rök að tekjur ríkisins hafi verið meiri en áætlanir fjármálaráðuneytis gerðu ráð fyrir, þau halda ekki vatni vegna þess að tekjuaukningin er tilkomin vegna verðbólgunnar.“

mbl.is