Vonar að læknar komist hjá verkfallsaðgerðum

Kjaraviðræður | 15. ágúst 2024

Vonar að læknar komist hjá verkfallsaðgerðum

„Við erum bara að bíða eftir því að viðræður hefjist aftur og við höldum í vonina að við náum góðum skriði og komumst hjá því að þurfa beita aðgerðum.“

Vonar að læknar komist hjá verkfallsaðgerðum

Kjaraviðræður | 15. ágúst 2024

Steinunn Þórðardóttir formaður Læknafélags Íslands.
Steinunn Þórðardóttir formaður Læknafélags Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við erum bara að bíða eftir því að viðræður hefjist aftur og við höldum í vonina að við náum góðum skriði og komumst hjá því að þurfa beita aðgerðum.“

„Við erum bara að bíða eftir því að viðræður hefjist aftur og við höldum í vonina að við náum góðum skriði og komumst hjá því að þurfa beita aðgerðum.“

Þetta segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is spurð að því hver staðan er á kjaraviðræðum félagsins við samninganefnd ríkisins.

Steinunn segir að ekki sé búið að boða til samningafundar hjá ríkissáttasemjara eftir sumarfrí. Hún segir það þurfa að ganga frá ýmsu áður en læknar verða tilbúnir að samþykkja nýjan kjarasamning.

„Við erum að horfa til að þess að þetta gæti orðið samningur til fjögurra ára eins og er búið að gera á almenna markaðnum en við getum ekki sætt okkur við að ná ekki fram okkar grunnmarkmiðum ef við ætlum að semja til svona langs tíma.“

„Fólk er orðið þreytt“

Steinunn vísar til starfsumhverfiskönnunar sem félagið framkvæmdi í vor. Þar lýsir 81% svarenda því að læknar séu of fáir eða alltof fáir á þeirra starfstöð. Hún segir að á langflestum starfstöðvum lækna séu ekki öll stöðugildi mönnuð.

„Það gefur auga leið að þeir sem eru í vinnu, því að verkefnin eru ekki beinlínis þess eðlis að það sé hægt að fresta þeim, þeir eru að hlaupa gríðarlega hratt og leysa mál við þessar aðstæður án þess að fá neina auka umbun fyrir það. Fólk er orðið þreytt,“ segir Steinunn.

Deilan hefur verið hjá ríkissáttasemjara frá því í apríl.
Deilan hefur verið hjá ríkissáttasemjara frá því í apríl. Ljósmynd/Colourbox

„Fólk er auðvitað líka að kalla eftir því að kjörin séu þess eðlis að það séu líkur á að við getum náð betri mönnun, náð til okkar fleira fólki svo þetta verði ekki krónískt ástand og jafnvel versni,“ segir Steinunn.

Hún segir samningana skipta líka miklu máli í því að reyna að fá þá íslensku sérfræðilækna sem kjósa að vinna erlendis til landsins. Hún segir að yfir 400 íslenskir sérfræðilæknar vinni í öðrum löndum.

Auk vinnuálags og launakjara vilja læknar einnig ræða styttingu vinnuvikunnar.

„Við höfum verið að benda á að allar heilbrigðisstéttir eru komnar með styttingu vinnuvikunnar nema við og lyfjafræðingar og það eru komin nokkur ár síðan,“ segir Steinunn en að læknar hafi þurft að vinna fleiri klukkutíma fyrir grunnlaunum sínum en aðrar stéttir.

„Okkur finnst það bara sanngirnismál að það sitji allir við sama borð varðandi lengd vinnuvikunnar,“ segir Steinunn. Hún segir stóran hóp lækna ekki treysta sér að vinna fullt starf því það sé svo þungt.

„Það myndi muna miklu, starfsumhverfislega séð, að fá styttinguna og við vitum að hún hefur haft jákvæða áhrif.“

Sjálfstætt starfandi læknar og einkareknar stofur og heilsugæslur færu ekki …
Sjálfstætt starfandi læknar og einkareknar stofur og heilsugæslur færu ekki í verkfall. mbl.is/Golli

Deilan strax til ríkissáttasemjara

Spurð að því hverjir færu í verkfall, komi til verkfalls yfir höfuð, segir Steinunn að það yrðu læknar í opinbera geiranum. Ekki sjálfstætt starfandi læknar og stofur, né einkareknar heilsugæslustöðvar.

Steinunn segir félagið hafa vísað deilunni til ríkissáttasemjara strax og samningarnir losnuðu.

„Það var búin að vera vinna í gangi í vetur við að undirbúa þennan nýja samning og hún gekk vægast sagt hægt þannig við sáum ekki fram á að við myndum ná nægilega miklum árangri í viðræðunum ef við myndum ekki vísa þeim beint til sáttasemjara.“

Steinunn segir viðræðurnar hafa verið hjá ríkissáttasemjara frá því í byrjun apríl. Hún segir samtalið hafa verið virkt og mikið fundað.

„Við sýndum þolinmæði í síðustu samningum, það var verið að semja til árs yfir allan vinnumarkaðinn þannig að okkar félagsmenn höfðu skilning á því að það væri kannski ekki rétti tíminn, en við getum ekki beðið lengur og sætt okkur við annan samning sem er ekki meira í takt við það sem fólk er að gera sér vonir um.“

Verði að meta virði menntunar

„Svo erum við, eins og önnur stéttarfélög háskólafólks, búin að benda á að virði menntunar hérlendis hefur farið síminnkandi á undanförnum árum vegna eðlis kjarasamninga. Grunnlaun nýútskrifaðra lækna eftir sex ára háskólanám, sem eru að takast á við mjög krefjandi og ábyrgðarmikið starf, eru um 687 þúsund á mánuði,“ segir Steinunn.

Spilar hátt vaxtastig og verðbólga ekki líka inn í samningaviðræður?

„Ekki spurning, við erum að horfa á að kaupmáttur hjá háskólafólki hefur hvað nánast ekkert aukist á undanförnum árum, annað en hjá ófaglærðum,“ segir Steinunn en hún tekur fram að hún vilji þeim allt það besta en að það verði þó að borga sig að mennta sig.

„Samfélagið verður að ýta undir það að fólk fari í langtímanám,“ segir hún að lokum.

mbl.is