„Ekkert í gögnunum sem segir að þetta sé að hætta“

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 11. september 2024

„Ekkert í gögnunum sem segir að þetta sé að hætta“

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og að sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, fagstjóra aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, er staðan mjög sambærileg því sem var fyrir síðasta eldgos á Sundhnúkagígaröðinni.

„Ekkert í gögnunum sem segir að þetta sé að hætta“

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 11. september 2024

Frá eldgosinu norðan við Stóra-Skógfell sem lauk 6. þessa mánaðar.
Frá eldgosinu norðan við Stóra-Skógfell sem lauk 6. þessa mánaðar. Árni Sæberg

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og að sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, fagstjóra aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, er staðan mjög sambærileg því sem var fyrir síðasta eldgos á Sundhnúkagígaröðinni.

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og að sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, fagstjóra aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, er staðan mjög sambærileg því sem var fyrir síðasta eldgos á Sundhnúkagígaröðinni.

„Þetta lítur ótrúlega svipað út og fyrir síðasta gos. Landrisið er reyndar meira og nú er ekkert flæði út heldur bara inn,“ segir Benedikt við mbl.is.

Eldgosinu lauk 6. þessa mánaðar en það stóð yfir í tvær vikur og var það þriðja lengsta af þeim sex sem hafa orðið á Sundhnúkagígaröðinni frá því í desember 2023.

Eru ekki öll teikn á lofti að það dragi enn og aftur til tíðinda eftir nokkrar vikur?

„Svona án ábyrgðar myndi ég skjóta á þrjá mánuði. Það virðist vera að tíminn á milli gosa sé alltaf að lengjast svo seinnipartinn í nóvember getum við kannski farið að setja okkur í stellingar að svona öllu óbreyttu miðað við fyrri sögu.“

Benedikt segir að búist sé við mjög svipuðum atburði en þessir atburðir séu að stækka og helsta áhyggjuefnið sé að hann verði mjög stór.

„Við búum okkur undir að þetta verði stórt gos sem byrji með miklum látum. Væntanlega byrjar það á svipuðum slóðum en síðan er alltaf óvissan hvernig það dreifir úr sér,“ segir Benedikt.

Býst ekki við mörgum gosum í viðbót

Hann segir ekki útilokað að næsta gos verði það síðasta á þessu svæði en engin merki sjáist um að þetta sé að klárast.

„Við sjáum þessa þróun að það er að lengjast á milli gosa og það er erfiðara fyrir kvikuna að komast upp og það er kannski vísbending að það sjái fyrir endalokin en það er erfitt að spá fyrir um það. En miðað við hvað þetta er að þróast hratt þá myndi ég ekki búast við mörgum gosum í viðbót.“

Hann segir ekkert í gögnunum sem segir að þetta sé að fara að hætta en þau segi að það sé þróun í gangi sem gæti bent til þess að það sé farið á síga á seinni hlutann í þessum atburðum.

mbl.is