Frumvarp hefur verið lagt fram um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur af þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Snýr frumvarpið að því að efla heimildir ríkissáttasemjara með það að markmiði að bæta vinnubrögð og skilvirkni við kjarasamningsgerð og tryggja rétt félagsmanna samningsaðila til að greiða atkvæði um framlagða miðlunartillögu.
Frumvarp hefur verið lagt fram um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur af þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Snýr frumvarpið að því að efla heimildir ríkissáttasemjara með það að markmiði að bæta vinnubrögð og skilvirkni við kjarasamningsgerð og tryggja rétt félagsmanna samningsaðila til að greiða atkvæði um framlagða miðlunartillögu.
Frumvarp hefur verið lagt fram um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur af þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Snýr frumvarpið að því að efla heimildir ríkissáttasemjara með það að markmiði að bæta vinnubrögð og skilvirkni við kjarasamningsgerð og tryggja rétt félagsmanna samningsaðila til að greiða atkvæði um framlagða miðlunartillögu.
Teitur Björn Einarsson mælir fyrir frumvarpinu.
Þar segir að breytingartillögur sem frumvarpið mælir fyrir um muni koma í veg fyrir að kjarasamningsviðræður dragist úr hófi eins og oft og tíðum er raunin á íslenskum vinnumarkaði. Langdregnar kjaraviðræður séu hins vegar sjaldséðar í nágrannalöndum okkar, þar sem ríkissáttasemjari hefur víðtækari úrræði en hérlendis.
„Leitast er við að færa réttarstöðu ríkissáttasemjara nær því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þá eru framangreindar breytingar í fullu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að styrkja hlutverk og heimildir ríkissáttasemjara,“ segir í frumvarpinu.
Þá er einnig lagt til að sjálfstæði ríkissáttasemjara verði áréttað sérstaklega í lögum. Telur þingflokkurinn að það leiki vafi á hvort embætti ríkissáttasemjara sé í raun sjálfstætt.
Segir í frumvarpinu að vankantar séu á núgildandi lögum sem komu í ljós í kjölfar ágreinings ríkissáttasemjara og Eflingar – stéttarfélags snemma árs 2023.
„Hinn 26. janúar 2023 kynnti ríkissáttasemjari ákvörðun sína um framlagningu miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu Eflingar – stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins. Samkvæmt ákvörðuninni skyldi þar tilgreint fyrirtæki annast rafræna atkvæðagreiðslu um tillöguna og lagði ríkissáttasemjari fyrir aðila að senda fyrirtækinu skrá um kennitölur og nöfn allra atkvæðisbærra félagsmanna sem voru á kjörskrá. Efling – stéttarfélag neitaði að afhenda umbeðin gögn og leitaði ríkissáttasemjari í kjölfarið heimildar dómstóla til að framkvæma innsetningargerð á kjörskránni,“ segir í frumvarpinu.
Kemur þá fram að rétturinn hafi hafnað kröfu ríkissáttasemjara um innsetningargerð á kjörskrá Eflingar – stéttarfélags á þeim grundvelli að ekki væri kveðið á með skýrum hætti í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur um heimild ríkissáttasemjara til umráða yfir kjörskrá samningsaðila í vinnudeilum.
Bent er á í frumvarpinu að lög um stéttarfélög og vinnudeilur eru því þeim annmarka háð að forysta samningsaðila getur neitað að framfylgja skyldum sínum samkvæmt ákvörðun ríkissáttasemjara um að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu skuli fara fram, án þess að ríkissáttasemjari geti aflað nauðsynlegra gagna til að framkvæma atkvæðagreiðsluna sjálfur.
„Þar með er sá lögbundni réttur ríkissáttasemjara til lítils hafi hann ekki heimild til að framfylgja ákvörðun sinni um atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu.“