Þjálfarinn Kristbjörg Eva Hreinsdóttir byrjaði snemma að æfa fimleika og færði sig síðar yfir í frjálsar íþróttir. Hún lenti í erfiðum meiðslum í báðum íþróttagreinum sem tóku mikið á andlegu hliðina, en hún lét það þó ekki stoppa ástíðu sína gagnvart hreyfingu.
Þjálfarinn Kristbjörg Eva Hreinsdóttir byrjaði snemma að æfa fimleika og færði sig síðar yfir í frjálsar íþróttir. Hún lenti í erfiðum meiðslum í báðum íþróttagreinum sem tóku mikið á andlegu hliðina, en hún lét það þó ekki stoppa ástíðu sína gagnvart hreyfingu.
Þjálfarinn Kristbjörg Eva Hreinsdóttir byrjaði snemma að æfa fimleika og færði sig síðar yfir í frjálsar íþróttir. Hún lenti í erfiðum meiðslum í báðum íþróttagreinum sem tóku mikið á andlegu hliðina, en hún lét það þó ekki stoppa ástíðu sína gagnvart hreyfingu.
„Ég byrjaði snemma að æfa fimleika hjá Gerplu og varð yfir mig ástfangin af íþróttinni. Ég lenti svo í því óhappi að lenda á hálsinum á fimleikaæfingu og eftir það átti ég erfitt andlega með að gera sömu hreyfingar vegna hræðslu. Ég tók í kjölfarið erfiða ákvörðun og hætti eftir að hafa æft í mörg ár,“ segir Kristbjörg.
„Ég var þó ekki lengi að finna ástina á ný og byrjaði í frjálsum íþróttum hjá Fjölni. Eftir nokkur ár meiddist ég illa aftan í læri og bataferlið var alveg skelfilega langt sem reyndi einstaklega mikið á andlegu hliðina. En áhugi minn á hreyfingu hefur alltaf verið til staðar og mun halda áfram að vera það á komandi árum,“ bætir hún við.
Kristbjörg er búsett í Árbænum ásamt kærasta sínum, Hinriki Val Þorvaldssyni, og starfar sem verslunarstjóri í Wodbúð og þjálfari í Afrek og Reykjavík MMA. Hún útskrifaðist sem einkaþjálfari frá Nordic Fitness Education árið 2018 og sem styrktarþjálfari frá Keili árið 2020.
„Ég hef tekið nokkur ár í háskóla en aldrei fundið rétta námið fyrir mig. Þegar áhugi á námi bankar á dyrnar verð ég tilbúin, en á meðan er ég mjög hamingjusöm í störfunum sem ég sinni í dag,“ segir Kristbjörg.
„Ég tek lífinu alls ekki of alvarlega og reyni eins og ég get að lifa í núinu. Ég elska að aðstoða fólk og því finnst mér langskemmtilegast að vinna við þjónustustörf,“ bætir hún við.
Hvernig hreyfingu stundar þú og hve oft æfir þú á viku?
„Í dag mæti ég oft í tíma í Afrek þar sem matseðillinn getur verið allskonar og svo mæti ég stundum sjálf og fylgi mínu eigin prógrammi. Á sumrin elska ég að fara út að hlaupa, en þið eigið ekki eftir að sjá mig á götunum í vetur þar sem ég er mesta kuldaskræfan. Ég æfi vanalega fimm til sex sinnum í viku en er dugleg að hlusta á líkamann.“
Áttu þér uppáhaldsæfingu?
„Ef ég ætti að velja eina uppáhaldsæfingu þá væri það hnébeygja. Ég hef lengi verið með markmið að ná 100 kg í hnébeygju og síðustu jól náði ég loksins því markmiði á jóladag. Tilfinningin eftir á var mjög góð og núna stefni ég bara hærra. Í dag á ég 102 kg og er alls ekki hætt.“
Hvað færðu þér oftast í morgunmat?
„Ég fæ mér oftast hafragraut á morgnanna með próteindufti, hnetusmjöri, rúsínum og ávöxtum eða hendi í einn búst sem getur verið allskonar. Ef ég er á hlaupum gríp ég oftast banana og hleðslu.“
Hvernig nær fólk alvöru árangri þegar kemur að hreyfingu?
„Persónulega finnst mér mikilvægast að sýna stöðugleika og setja sér bæði lítil og langtímamarkmið. Það getur verið gott að skipuleggja vikuna og skrifa niður í dagatalið hvenær maður ætlar að hreyfa sig. Það er einnig mikilvægt að minna sig á að þetta er ferðalag sem getur verið krefjandi en með réttri nálgun og hugarfari getur maður náð nýjum hæðum í átt að betri heilsu og vellíðan. Önnur atriði eru sem dæmi góður æfingafélagi, fjölbreytt og næringarrík fæða og að nýta sér þjónustu einkaþjálfara.“
Hvaða venjur leggur þú áherslu á sem tengjast heilsu?
„Ég legg mikla áherslu á að búa til góða rútínu í daglegu lífi og á svefn, ekki bara lengd hans heldur gæði. Það er gott að slökkva á öllu klukkutíma fyrir svefn og ekki borða stóra máltíð seint á kvöldin. Að undirbúa sig kvöldinu áður er líka góð venja og getur sparað manni mikinn tíma, t.d. að vera búin að græja morgunmatinn eða nestið fyrir daginn. Einnig að drekka tvo til þrjá lítra af vatni á dag og safna ákveðnum skrefum yfir daginn til að halda líkamanum á hreyfingu og minnka kyrrsetu.“
Hvaða flík er á óskalistanum í fataskápinn fyrir haustið?
„Þessi spurning kemur á hárréttum tíma þar sem ný haustlína var að lenda í Wodbúðinni frá sænska merkinu Aim’n. Það var nýr litur að detta inn sem heitir Deep Emerald og efst á óskalistanum mínum er hálfrennd háskólapeysa í þeim lit, ásamt mörgu öðru úr þessari línu.“
Uppáhaldsstaður á Íslandi?
„Ég er mjög heimakær og líður best heima í Árbænum með útsýni yfir Rauðavatnið. Uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi er Vopnafjörður. Móðurfjölskylda mín kemur frá Vopnafirði og ég hef heyrt margar sögur þaðan frá ömmu og afa. Bróðir minn býr þar í dag með fjölskyldu sinni og þegar ég heimsæki þau líður mér alltaf svo vel og ég næ góðri ró.“
Hvað gerir þú til að hlúa að andlegu heilsunni?
„Það sem hjálpar mér oft þegar andlega heilsan er niðri er að fara á æfingu. Það er oft erfitt að koma sér á staðinn en mér líður alltaf betur eftir á. Það sem hjálpar mér líka er að tala við fólkið í kringum mig. Einnig að gera hluti sem veita mér hamingju og sinna áhugamálum mínum. Ég legg líka áherslu á að koma vel fram við fólkið í kringum mig og reyni að vera besta útgáfan af sjálfri mér. Ég hugsa fallega til mín og er hætt að bera mig saman við aðra. Svo er ég dugleg að hitta fjölskyldu og vini en einnig að plana tíma fyrir sjálfa mig.“
Hvaða bók last þú síðast?
„Ég ætla ekki að ljúga en síðasta bók sem ég las var Salka Valka. Ég var sem sagt að hjálpa nánum aðila í lífi mínu að klára menntaskólann.“
Hvaða manneskja hefur haft mest áhrif á líf þitt?
„Það er hún yndislega mamma mín. Ég væri ekki hér í dag án hennar. Hún hefur staðið við bakið á mér allt mitt líf og er besta vinkona mín. Ég lít svo mikið upp til hennar og hún hefur verið fyrirmyndin mín frá því að ég var lítil stelpa.“
Uppáhaldsborg sem þú hefur ferðast til?
„Hér verð ég að segja Dubai. Ég hef ferðast á ýmsa staði en Dubai stendur klárlega upp úr. Það var magnað að sjá þessa borg og upplifa það sem hún hefur upp á að bjóða.“
Ertu með einhver ráð fyrir þá sem vilja byrja að hreyfa sig í haust?
„Það getur tekið smá tíma að finna það sem manni finnst skemmtilegt, þannig að það er mikilvægt að prófa mismunandi hluti og ekki gefast upp. Ég mæli með að setja sér raunsæ markmið til að hafa eitthvað til að stefna að. Það getur hjálpað manni að sjá árangur og ýtir manni áfram í rétta átt. Hugum að heilsunni okkar og dáumst að fólki sem hreyfir sig. Hættum að bera okkur saman við aðra og fögnum litlu og stóru sigrunum sem við náum.“